Gera verður verkmenntun meira aðlaðandi á Norðurlöndum

25.11.21 | Fréttir
Kvinnelig elektriker
Ljósmyndari
Johnér Bildbyrå
Skortur á faglærðu vinnuafli á Norðurlöndum er sjálfskapað vandamál sem verður að leysa. Það verður að vera fýsilegri kostur fyrir ungt fólk að velja verkmenntun og það þarf að auðvelda faglærðu fólki að vinna alls staðar á Norðurlöndum. Þetta er skoðun Norðurlandaráðs sem vill kalla til alla aðila að vinnumálum til að fá fram tillögur að lausnum.

Æ færri ungmenni velja sér verkmenntun. Um leið verða stjórnsýsluhindranir sem tengjast regluverki um atvinnugreinar til þess að oft er verkmenntun aðeins viðurkennd í því landi þar sem hún fór fram. Afleiðingin er gegnumgangandi skortur á faglærðu vinnuafli alls staðar á Norðurlöndum. Haldi þessi þróun áfram með sama hætti telur t.d. danska verkalýðshreyfingin að nálægt 100.000 faglærða starfsmenn muni vanta í Danmörku fyrir árið 2030. Í skýrslu frá norsku hagstofunni árið 2019 kom fram að árið 2035 muni skorta 90.000 faglærða starfsmenn í Noregi. Kjell Arne Ottosson, formaður norrænu þekkingar- og menningarnefndarinnar, telur að það liggi á að bregðast við til að snúa þróuninni við.

„Norræna þekkingar- og menningarnefndin er þess fullviss að verkefnið um að gera verkmenntun meira aðlaðandi og leysa stjórnsýsluhindranir í tengslum við regluverk atvinnugreina geti lagt sitt af mörkum til framtíðarsýnarinnar um að Norðurlöndin verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims. Norðurlönd eru háð því að við fáum fleira ungt fólk til að velja verkmenntun og við ætlum ásamt aðilum vinnumarkaðarins að reyna að gera það auðveldara fyrir þennan hóp að fá vinnu í fleiri norrænum löndum,“ segir Ottosson.

Norðurlönd eru háð því að við fáum fleira ungt fólk til að velja verkmenntun

Kjell Arne Ottosson

Norðurlandaráð lítur vandamálið alvarlegum augum og hefur því, ásamt Stjórnsýsluhindranaráðinu, veitt 345 þúsund danskra króna til verkefnis sem ætlað er að finna leiðir til að gera það meira aðlaðandi fyrir ungt fólk að stunda verknám. Þá telur Norðurlandaráð að samræma verði menntunina svo starfsfólk geti unnið alls staðar á Norðurlöndum.

Það var flokkahópur jafnaðarmanna í Norðurlandaráði sem flutti þingmannatillögu um samnorræna ráðstefnu um iðngreinar og fagmenntun á sumarfundi þekkingar- og menningarnefndarinnar árið 2020. Tillögunni var svo vel tekið að forsætisnefndin, stjórnsýsluhindranaráðið og norræna hagvaxtar- og þróunarnefndin stukku um borð.Orla Hav, formaður hagvaxtar- og þróunarnefndarinnar, er ekki í vafa um að fénu sé vel varið.

„Norræn velferð byggist á öflugri verkkunnáttu kynslóða á milli. Áframhaldandi meðferð mun sömuleiðis byggjast á verkviti og verkkunnáttu. Því miður fer aðsókn í verkmenntun minnkandi. Norðurlandaráð vill hjálpa löndunum að breyta því. Samfélagið þarf á ungu fólki að halda og við þurfum að bjóða því upp á góðar námsleiðir sem þroska bæði einstaklinginn og samfélagið,“ segir Hav.

Samfélagið þarf á ungu fólki að halda og við þurfum að bjóða því upp á góðar námsleiðir sem þroska bæði einstaklinginn og samfélagið.

Orla Hav

Hvað nú?

Markmiðið með verkefninu er að fá alla viðkomandi aðila að borðinu svo hægt sé varpa ljósi á vandamálið úr öllum áttum til að skapa sameiginlegan skilning. Með því móti er hægt að finna uppbyggilegar og raunhæfar lausnir sem njóta víðtæks stuðnings.

Norðurlandaráð sér fyrir sér að stofna sérstaka hugmyndasmiðju sem á að samanstanda af menntastofnunum, stéttarfélögum, samtökum atvinnurekenda, samtökum ungs fólks og stjórnmálamönnum. Resonans Nordic á að stýra verkefninu og standa fyrir fundum í hugmyndasmiðjunni og stærri ráðstefnu. Starfið er komið vel af stað og fyrsti fundur hugmyndasmiðjunnar af fjórum verður í janúar. Að lokum á að gefa út hvítbók sem inniheldur tillögur að beinum aðgerðum og pólitískum lausnum. Hún verður svo til grundvallar stærri ráðstefnu í apríl eða maí 2022.

Væntingar Bertels Haarder, forseta Norðurlandaráðs, eru skýrar.

„Pólitík er list möguleikanna og nú þurfa viðkomandi ráðherrar á þessu sviði vinna saman að því að leysa vandann með sem bestum hætti fyrir starfsfólk, atvinnurekendur og þar með Norðurlönd í heild. Þess vegna eru væntingar forsætisnefndar Norðurlandaráðs til norrænu ríkisstjórnanna líka skýrar þegar vísindamenn, menntastofnanir og aðilar vinnumarkaðarins leggja fram tillögur sínar,“ segir Haarder.

 

Pólitík er list möguleikanna og nú þurfa viðkomandi ráðherrar á þessu sviði vinna saman að því að leysa vandann með sem bestum hætti fyrir starfsfólk, atvinnurekendur og þar með Norðurlönd í heild.

Bertel Haarder