Geta græn umskipti stuðlað að auknu jafnrétti á vinnumarkaðnum?

29.11.22 | Fréttir
COP event: Gender and Green jobs

Fra venstre: Emma Holten, Emil Fannikke Kiær, Emanuela Pozzan, Monsterrat Mir, Tadashi Matsumoto og moderator Chika Oduah.

Photographer
Andreas Omvik

Frá vinstri: Emma Holten, Emil Fannikke Kiær, Emanuela Pozzan, Montserrat Mir, Tadashi Matsumoto og Chika Oduah fundarstjóri.

Samkvæmt tölum frá Alþjóðavinnumálastofnuninni (ILO) geta orðið til 24 milljónir nýrra starfa vegna grænna umskipta. Jafnframt sýnir rannsókn frá OECD að konur gegni einungis 28 prósent „grænna starfa“. Kynjaskipting á vinnumarkaði var þema pallborðsumræðnanna „Placing gender equality at the heart of green jobs“ á „Gender Day“ á loftslagsfundinum í Egyptalandi.

Jafnrétti og réttlát umskipti voru ofarlega á baugi í loftslagsviðræðunum í Sharm el-Sheikh og 14. nóvember var „Gender day“ á COP27. Konur bera enn hlutfallslega of mikla byrði af neikvæðum afleiðingum loftslagsáhrifa og frekari aðgerða er þörf til að innleiða megi jafnréttissjónarmið að fullu í loftslagsstefunni.

Grænu umskiptin munu hafa mikil áhrif á vinnumarkaðinn. Samkvæmt tölum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar frá 2018 geta um sex milljónir starfa glatast þegar við færum okkur frá hagkerfi sem byggist á notkun jarðefnaeldsneytis yfir í kolefnislaust hagkerfi. Á hinn bóginn geta mörg tækifæri skapast af þessum breytingum. Samkvæmt Alþjóðavinnumálastofnuninni geta orðið til 24 milljónir nýrra starfa. Umskiptunum fylgja líka áskoranir þegar kemur að því að tryggja jafnt hlutfalla kynjanna og sjálfbæran vinnumarkað til framtíðar.

Í grænu umskiptunum felast tækifæri til að breyta atvinnulífinu og í umræðum í Norræna skálanum komu saman sérfræðingar frá Alþjóðavinnumálastofnuninni, OECD, norrænn leiðtogi úr atvinnulífinu og aðgerðasinni til að ræða jafnrétti, vinnumál og græn umskipti.

Hvað eru græn störf?

„Við verðum að færa umræðuna um réttlát umskipti og græn störf á annað stig. Við þurfum að útvíkka hefðbundinn skilning á því hvað eru græn störf, hvaða atvinnugreinar við teljum grænar og einkum að fara að líta á umönnunarstörf sem græn,“ sagði Emanuela Pozzan frá Alþjóðavinnumálastofnuninni.

Pozzan hóf umræðurnar ásamt danska femínistanum Emmu Holten á því að hvetja okkur til að hugsa um græn störf og atvinnugreinar með nýjum hætti. Holten undirstrikaði mikilvægi þess að meta umönnunarstörf, bæði í menningarlegu og efnahagslegu tilliti, til að tryggja sjálfbært samfélag í framtíðinni:

Umönnunarvinna er svo gott sem kolefnishlutlaus þjónusta.

Emma Holten, femínisti og aðgerðasinni

Alþjóðavinnumálastofnunin skilgreinir græn störf sem störf sem tengjast varðveislu eða endurheimt umhverfisins, hvort sem það er í hefðbundnum greinum á borð við framleiðslu og byggingarstarfsemi eða í nýjum og grænum atvinnugreinum eins og á sviði endurnýjanlegrar orku, endurvinnslu og orkunýtni.

Kynjaskiptur vinnumarkaður

Tadashi Matsumoto frá OECD fór yfir það helsta í skýrslu sem kemur út á næsta ári – Job Creation and Local Economic Development: Going Green. Samkvæmt skýrslunni má flokka um 17 prósent starfa í OECD-ríkjunum sem „græn“. Karlar gegna 72 prósentum þeirra og konur aðeins 28 prósentum. Að meðaltali eru laun fyrir græn störf 20 prósentum hærri en fyrir störf sem ekki flokkast sem græn. Þetta sýnir ójöfnuðinn innan þess sem við alla jafna álítum græna geirann, sagði Matsumoto þegar hann hafði kynnt tölurnar.

Að mati Montserrat Mir, ráðgjafa hjá alþjóðasamtökum stéttarfélaga, getur ástæða þessa legið í tilhneigingu til að endurskapa kynjaskiptan vinnumarkað við grænu umskiptin:

„Það sem við erum að gera er að reyna að færa vinnuaflið úr þeim greinum sem mest menga, svo sem olíu-, gas- og kolavinnslu, þar sem karlar eru í miklum meirihluta, yfir í sjálfbærar tæknigreinar. Það sem þá gerist er að við endursköpum kynjaskiptan vinnumarkað við grænu umskiptin.“

Grænu umskiptin geta bæði kostað og skapað mörg ný störf

Dansk Industri leggur mikla áherslu á að hvetja fleiri konur til að taka þátt í grænum tæknigreinum. Vinnan við að auka aðdráttarafl tæknináms fyrir konur byrjar strax á leikskóla og í skólakerfinu að sögn Emils Fannikke Kiær, pólitísks stjórnanda hjá Dansk Industri.

En spurningin um jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði snýst ekki bara um þátttöku kvenna, að mati Holten: „Við höfum talað um að við þurfum fleiri konur í STEM og störf sem tengjast grænum umskiptum en ég held að við verðum líka að horfa til framtíðar þar sem fleiri karlar vinna umönnunarstörf.“

„Það er rétt að ef við lítum á græn störf eins og við erum vön að gera þá hljóðar mat Alþjóðavinnumálastofnunarinnar upp á 24 milljónir starfa. En ef við lítum á umönnunargeirann í samræmi við þarfir samfélagsins geta orðið til 300 milljónir starfa fyrir árið 2035 með réttum fjárfestingum,“ sagði Pozzan, sem er sérfræðingur í jafnréttismálum hjá Alþjóðavinnumálastofnuninni, um framtíðarhorfur í vinnumálum.

 

Hefurðu áhuga á atvinnulífi framtíðarinnar?