Grænt ljós á grænar siglingaleiðir á Norðurlöndum

03.05.22 | Fréttir
Miljøministre på elfærge i Oslo
Photographer
Martin Fossum Lerberg
Loftslags- og umhverfisráðherrar á Norðurlöndum eru sammála um að löndin skuli róa að því í sameiningu að koma upp grænum leiðum fyrir losunarlausar siglingar á milli hafna á Norðurlöndum.

Sérstakar leiðir fyrir losunarlausar ferjur og skip eru mikilvægur liður í því að gera siglingar á Norðurlöndum kolefnislausar. Töluverð skipa- og ferjuumferð er á milli Norrænu landanna og saman höfum við bjargir og tækni til þess að ganga fram fyrir skjöldu með verkefni sem getur sýnt heiminum þá möguleika sem í grænni skipaumferð felast, að sögn Espens Barth Eide, loftslags- og umhverfisráðherra Noregs.

Saman höfum við bjargir og tækni til þess að ganga fram fyrir skjöldu með verkefni sem getur sýnt heiminum þá möguleika sem í grænni skipaumferð felast.

Espen Barth Eide

Norrænu umhverfisráðherrarnir hafa fundað í Ósló þar sem þeir ræddu mikilvæg, alþjóðleg loftslags- og umhverfismál. Samkomulag um að koma upp grænum leiðum fyrir losunarlausar siglingar er byggt á Clydebank-yfirlýsingunni frá loftslagsráðstefnunni í Glasgow 2021. Löndin sem hafa skrifað undir Clydebank-yfirlýsinguna vilja að komið verði upp að minnsta kosti sex grænum, alþjóðlegum siglingaleiðum áður en þessi öld er hálfnuð. Norrænu ráðherrarnir vilja að þar á meðal verði losunarlausar siglingaleiðir á Norðurlöndum.

 

Því hafa ráðherrarnir samþykkt tilraunaverkefni til þess að finna samstarfsaðila um grænar siglingaleiðir innan siglingaiðnaðarins á Norðurlöndum. Í því felst að kortleggja ákveðnar siglingaleiðir innan Norðurlanda vegna losunarlausra siglinga. DNV mun leiða starfið og einni milljón danskra króna hefur verið veitt til verkefnisins.

 

Mjög mikilvægt er að draga úr losun frá alþjóðlegri skipaumferð. „Rekja má um þrjú prósent losunar á alþjóðavísu til siglinga og fyrirsjáanlegt er að sú tala hækki talsvert. Norrænu löndin eru því að vinna mikilvægt brautryðjendastarf sem einnig er í takti við framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndarinnar um að Norðurlönd verði sjálfbærasta svæði heims og stuðla að grænum umskiptum og kolefnishlutleysi,“ segir Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.

 

Mikil tækifæri eru til þess að draga úr losun frá alþjóðlegri skipaumferð. Útreikningar sýna að losun frá skipaumferð muni aukast í framtíðinni verði ekkert að gert til að draga úr losun. Norrænar siglingaleiðir eru einhverjar þær fjölförnustu í heiminum þegar kemur að ferjusiglingum og aðstæður henta vel fyrir tilraunaverkefni um losunarlausar siglingar.

 

 

Upplýsingar

Norræna ráðherranefndin vinnur að grænum umskiptum í siglingum á mörgum sviðum. Auk vinnunnar við að koma á grænum leiðum fyrir losunarlausar siglingar á milli hafna á Norðurlöndum er unnið að því að draga úr mengun frá skemmtiferðaskipum og gera Norðurlönd að sjálfbærum áfangastað þeirra.

Árið 2020 skrifuðu ráðherrarnir undir yfirlýsinguna „Hreinni skemmtiferðasiglingar með meira landrafmagni: Norræn forysta um að gera Norðurlönd og Eystrasaltssvæðið að sjálfbærum áfangastöðum skemmtiferðaskipa“.