Leiðtogafundur á þinginu Hlutverk Norðurlanda í framtíðinni

13.10.22 | Fréttir
Session 2022
Photographer
Istock
Hvað eiga Norðurlönd að gera í framtíðinni í veröld sem öryggisáskoranir setja svip sinn á, þar sem þrengt er að lýðræðislegum gildum og bráður orku- og loftslagsvandi steðjar að? Þetta verður umræðuefnið þegar þingmenn Norðurlandaráðs halda leiðtogafund með norrænu forsætisráðherrunum á 74. þingi Norðurlandaráðs í Helsingfors.

Á leiðtogafundinum þann 1. nóvember á þingi Norðurlandaráðs í Helsingfors verður sjónum beint að framtíðinni. Meðal annars verður fjallað um hlutverk Norðurlanda í heiminum. Áhersla verður á stöðuna sem upp er komin í öryggismálum í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu. Einnig verður fjallað um loftslagsmál og þann orkuvanda sem heimili og fyrirtæki á Norðurlöndum eru nú þegar farin að finna fyrir. Hvað varðar samstarf innan Norðurlanda munu umræðurnar snúast um afhendingaröryggi, stjórnsýsluhindranir og framtíð velferðarlíkansins. Líkans sem mjög reyndi á í kórónuveirufaraldrinum. Leiðtogafundurinn er hluti af framtíðarumræðum sem Finnland hefur sem formennskuland í Norðurlandaráði ákveðið að standa fyrir á árinu 2022.

Almenningur á Norðurlöndum hefur talað

Erkki Tuomioja, forseti Norðurlandaráðs, og Lulu Ranne, varaforseti Norðurlandaráðs, segja að markmiðið hafi verið að virkja almenning á Norðurlöndum í því að finna bestu lausnirnar fyrir Norðurlönd í framtíðinni.

„Ég vona að Finnlandi takist á formennskuári sínu að gera þetta áþreifanlegra og skilvirkara og komist nær almenningi. Við verðum líka að vinna saman að því á Norðurlöndum að efla efnahagslegan viðnámsþrótt okkar. Ef efnahagurinn er ekki sjálfbær getum við ekki staðið vörð um öryggi og velferð almennings á Norðurlöndum,“ sagði Lulu Ranne, varaforseti, í upphafi árs.Einn liður í því að komast nær almenningi fólst í því að á öllum lýðræðishátíðum sumarsins bauð Norðurlandaráð almenningi og sérfræðingum að taka þátt í því að fagna 70 ára afmæli Norðurlandaráðs og ræða á hvað Norðurlönd eigi að leggja áherslu í framtíðinni. Meðal helstu mála má nefna loftslagsmál, stjórnsýsluhindranir og öryggismál.

Stríðið í Úkraínu og alvarleg staða í öryggismálum

Nú verða málin sem stóðu upp úr á lýðræðishátíðunum tekin fyrir á þinginu þar sem Norðurlandaráð og norrænu forsætisráðherrarnir ræða samstarfsmöguleika. Fleiri mikilvæg málefni eru á dagskrá en stríðið í Úkraínu og sú alvarlega staða í öryggismálum sem af því stafar fyrir Úkraínumenn, aðra Evrópubúa og heimsbyggðina alla, verður fyrirferðarmikið á leiðtogafundinum. Því mun Norðurlandaráð ásamt forsætisráðherrunum ræða hlutverk Norðurlanda í Evrópu, væntingar til stækkunar Atlantshafsbandalagsins og mótsvars við æ auknum þrengingum gegn lýðræðislegum gildum.