Loftslagsmál, sjálfsvíg og sumartími á dagskrá á fundum Norðurlandaráðs

21.01.20 | Fréttir
Temasession 2018
Photographer
Auðunn Níelsson

Silja Dögg Gunnarsdóttir er forseti Norðurlandaráðs á árinu 2020.

Hvernig má draga úr tíðni sjálfsvíga á Norðurlöndum? Hvernig drögum við úr losun CO2 í byggingariðnaðinum? Og hvernig skal stilla klukkur Norðurlanda þegar sumar- og vetrartími verður afnuminn? Þessar spurningar og fleiri verða til umræðu þegar Norðurlandaráð kemur saman í Kaupmannahöfn dagana 27. og 28. janúar.

Meðal þeirra sem funda á þessum tveimur dögum er forsætisnefnd Norðurlandaráðs, nefndirnar fjórar og flokkahóparnir fimm.

Á nefndarfundunum verður fjallað um fjölda af þingmannatillögum, það er segja tillögum sem þingmenn Norðurlandaráðs hafa lagt fram um víðtækara samstarf á ýmsum sviðum.

Norræna velferðarnefndin mun meðal annars fjalla um tillögu um aðgerðir til að fækka sjálfsvígum um 25% í hverju ríki Norðurlandanna fyrir sig fyrir árið 2025. Til lengri tíma verði markmiðið að koma tíðni sjálfsvíga niður í núll. Í dag falla um 3.500 einstaklingar fyrir eigin hendi á Norðurlöndum á ári hverju.

Á borði norrænu sjálfbærninefndarinnar eru nokkrar tillögur um loftslags- og umhverfismál. Tillögurnar snúa meðal annars að losun CO2 í byggingariðnaðinum, örplasti í líkömum okkar og bindingu kolefnis.

Norrænt tímabelti

Klukkubreytingin milli sumars og vetrar verður rædd í norrænu hagvaxtar- og þróunarnefndinni. Þar er lagt til að samræming tímabelta verði látin vega þyngst þegar klukkubreytingin verður afnumin, til að tryggja að sem minnstur tímamunur verði milli norrænu ríkjanna og hægt er.

Meðal þess sem norræna þekkingar- og menningarnefndin fjallar um er símenntun og tillaga um aðgerðir til að styðja fjölmiðla í að halda úti öflugri rannsóknarblaðamennsku.

Öryggis- og varnarmál eru einnig á dagskrá. Björn Bjarnason, fyrrum ráðherra, er meðal þeirra sem heimsækir forsætisnefnd Norðurlandaráðs. Hann ætlar að kynna vinnu sína að nýrri skýrslu um öryggismálastefnu innan ramma norræna samstarfsins.

Skýrslan fylgir eftir hinni svokölluðu Stoltenberg-skýrslu frá árinu 2009 og áætlað er að hún verði afhent utanríkisráðherrum norrænu ríkjanna um mitt þetta ár.

Málþing um Norðurlönd

Í tengslum við fundina í janúar verður haldið málþing með yfirskriftinni Norðurlönd milli Napóleons, Bismarck, NATO og ESB, í tilefni þess að hundrað ár eru liðin frá því að norðurhluti Slésvíkur varð aftur hluti af Danmörku.

Á málþinginu verður meðal annars leitast við að svara því hvers vegna Norðurlönd voru ekki sameinuð eftir dansk-þýska stríðið árið 1864, þegar aðstæður voru réttar, og hvers vegna ekki tókst að koma á fót norrænu varnarbandalagi eftir 1945.

Málþingið fer fram 27. janúar kl. 15.30-17.45 og er opið þeim sem sem hafa skráð sig.