Mikilvirkt Norðurlandaráð allt árið 2020 þrátt fyrir faraldur

18.12.20 | Fréttir
Silja Dögg Gunnarsdóttir och Oddný G. Harðardóttir vid Nordiska rådets session i Stockholm 2019
Photographer
Johannes Jansson

Silja Dögg Gunnarsdóttir og Oddný Harðardóttir hafa haft í nógu að snúast í störfum sínum sem forseti og varaforseti Norðurlandaráðs á kórónuárinu 2020.

Að standa vörð um lýðræðið og berjast gegn falsfréttum, standa vörð um líffræðilegan fjölbreytileika og efla kunnáttu í tungumálum Norðurlandaþjóða voru áherslurnar í formennskuáætlun landsins í Norðurlandaráði árið 2020. Svo skall farsóttin á og breytti öllum áformum.

Kórónuveirufaraldurinn neyddi formennskulandið til að gera nýjar áætlanir. Nær ómögulegt var að ferðast og halda hefðbundna fundi en ekki mátti una við að pólitískt starf legðist af. Var þvert á móti mikilvægara en ella að halda fullum dampi í samstarfinu þegar landamæri á Norðurlöndum lokuðust.

Rafrænir fundir tóku við af fundum í raunheimi en það var ekki alveg þrautalaust enda voru fundarmenn hvaðanæva á Norðurlöndum og túlka þurfti hin ýmsu tungumál sem töluð voru. Eigi að síður og þrátt fyrir ýmsan vanda gátu forsætisnefnd Norðurlandaráðs og fagnefndirnar fjórar haldið starfseminni gangandi.
Forsætisnefnd hélt meira að segja fleiri fundi en venjulega, alls sextán á árinu.

Fjarfundir í þágu loftslagsins

„Þrátt fyrir svolitla byrjunarörðugleika tókst okkur að halda uppi virku stjórnmálastarfi allt þetta ár. Endrum og sinnum, þegar þörf var á, héldum við líka óformlega aukafundi sem gáfu starfseminni aukinn sveigjanleika og kraft,“ segir Silja Dögg Gunnarsdóttir, forseti Norðurlandaráðs árið 2020.

Telur hún að ýmislegt megi læra af þessu ári þegar öllu er botninn hvolft. Með því að fjölga fjarfundum megi fækka ferðalögum sem kemur sér vel fyrir loftslagið.

„Auðvitað er dálítið dapurlegt að geta ekki hist en þá verður bara enn skemmtilegra þegar það er hægt. Að loknu þessu ári verðum við að ræða alvarlega hvernig við ætlum að hafa fyrirkomulagið á fundum okkar framvegis og fara yfir hvernig Norðurlönd geti orðið grænni og dregið úr koldíoxíðlosun með því að fjölga rafrænum fundum“ segir Silja Dögg Gunnarsdóttir.

Þingvikan áskorun

Stærsta áskorun ársins 2020 var árvisst þing Norðurlandaráðs þar sem hundruð stjórnmálamanna, ráðamanna og embættismanna koma saman undir venjulegum kringumstæðum. Að þessu sinni var ætlunin að halda 72. þing Norðurlandaráðs í Reykjavík í október en vegna heimsfaraldursins var þinginu aflýst í fyrsta sinn frá upphafi, árið 1953.

Í staðinn var haldin „þingvika“ með fjarfundum forsætisnefndar og fagnefndanna auk funda með forsætisráðherrunum og ýmsum öðrum ráðherrum. Var enn fremur haldinn rafrænn fundur um COVID-19 með öllu Norðurlandaráði, forsætisráðherrunum og António Guterres, aðalritara Sameinuðu þjóðanna.

„Við áttum afar upplýsandi fund með aðalritaranum þar sem fjallað var um þær áskoranir sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir vegna COVID-19. Það var mikill heiður fyrir Norðurlandaráð að fá Guterres á fund og við áttum gagnlegt og gott samtal við hann,“ segir Silja Dögg Gunnarsdóttir um einn af hápunktum ársins 2020.

Kallar eftir auknu samstarfi á krepputímum

Á árinu var mikið rætt um vandamál sem komu upp vegna farsóttarinnar á landamærum norrænu landanna. Norðurlandaráð vísaði ítrekað til stefnu sinnar um samfélagsöryggi sem dæmi um hvernig Norðurlönd geti í framtíðinni brugðist í sameiningu við neyðarástandi til að komast hjá viðlíka vandamálum.

„Að sjálfsögðu er nánara samstarf á krepputímum bæði mögulegt og gagnlegt en því miður hefur skort pólitíska forystu til að koma því á. Norðurlandaráð telur þörf á meiri og öflugri pólitískum stuðningi ásamt með Norrænu ráðherranefndinni til að Norðurlönd geti unnið saman á krepputímum og á sviði norrænna utanríkis- og öryggismála,“ segir Silja Dögg Gunnarsdóttir.

Fundur með stjórnarandstöðuleiðtoga Belarús hápunktur

Auk þingvikunnar segir Silja Dögg Gunnarsdóttir að telja skuli alþjóðasamstarfið meðal hápunkta ársins. Í því sambandi nefnir hún meðal annars fundinn með Svetlönu Tíkanovskaju, leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Belarús, sem gaf Norðurlandaráði tilefni til að lýsa eindregnum stuðningi við almenning í landinu, og heimsóknirnar í pólska og skoska þingið.

Hún tekur einnig fram að samstarf hennar við varaforsetann, Oddnýju Harðardóttur, hafi verið einstaklega farsælt.

Danmörk tekur við formennsku í Norðurlandaráði árið 2021. Bertel Haarder var kjörinn forseti og Annette Lind varaforseti.