Nefnd: Menningarsamstarf á Norðurlöndum í húfi í tillögu að fjárhagsáætlun

30.06.21 | Fréttir
Film Festival Nordisk Panorama
Photographer
Nordisk Panorama Film Festival
Hætta er á að fyrirhugaður niðurskurður grafi undan starfsemi rótgróinna menningarstofnana og verkefna með víðtækum afleiðingum fyrir menningarsamstarf á öllum Norðurlöndum. Þetta segir norræna þekkingar- og menningarnefndin sem lýsti þungum áhyggjum af fjárhagsáætlun á sviði menningar- og menntamála fyrir árið 2022 þegar hún var til umræðu hjá nefndinni

Tillaga að fjárhagsáætlun á sviði menningar- og menntamála er afrakstur breytinga á forgangsröðun sem samstarfsráðherrar Norðurlanda samþykktu í tengslum við starfið að nýrri framtíðarsýn um Norðurlönd sem samþættasta og sjálfbærasta svæði heims árið 2030. Málið var til umræðu hjá nefndinni á rafrænum fundi á þemaþingi ársins.

„Nefndin getur ekki fellt sig við tillögu að fjárhagsáætlun á sviði menningar- og menntamála sem hætta er á að hafi í för með sér víðtækar afleiðingar fyrir jafnt stóra sem smáa aðila á Norðurlöndum. Það er áhyggjuefni að samstarfsráðherrarnir virðast líta fram hjá þeirri gagnrýni sem borist hefur úr ýmsum áttum og halda sig við stefnu sína í þeirri stöðu sem menningargeirinn er í eftir COVID-19,“ segir Kjell-Arne Ottosson, formaður nefndarinnar.

 

Framlög til rótgróinna stofnana og verkefna falla niður

Um er að ræða niðurskurð upp á allt að 18% af heildarfjárhagsáætlun á sviði menningarmála og 17% á sviði menntamála á tímabilinu 2021–2024 (4,5% og 3,5% á árinu 2022). Það þýðir minni framlög til aðgerða þvert á starfsemi menningarrmálaráðherranna samkvæmt „ostaskerareglunni“ á sama tíma og hætta er á að framlög til fjölda stofnana, verkefna og aðgerða falli að fullu brott úr fjárhagsáætlun menningarmálaráðherranna á komandi árum. Það á við um heimilda- og stuttmyndahátíðina Nordisk Panorama, Norrænu námsstefnuna fyrir nýja höfunda á Biskops Arnö, norrænu bókmenntavikuna, Norrænu blaðamannamiðstöðina, Orkester Norden og menningarhús Skandinavíska félagsins í Róm.

„Hætta er á að við gröfum undan rótgrónum verkefnum sem notið hafa velgengni á borð við stuttmyndahátíðina Nordisk Panorama og Norrænu námsstefnuna fyrir nýja höfunda á Biskops Arnö. Þetta eru vinsælar og góðar gáttir að norrænu samstarfi og skiptum á reynslu, ekki hvað síst þegar kemur að því að virkja unga menningar- og listiðkendur á Norðurlöndum,“ heldur Kjell-Arne Ottosson áfram.

 

Alvarleg staða í menningarmálum

Þrátt fyrir að norrænu menningarmálaráðherrarnir hafi óskað eftir því í tillögu sinni að fjárhagsáætlun að staðinn yrði vörður um styrkjaáætlanirnar er lagður til niðurskurður fyrir bæði Norræna menningarsjóðinn og Norræn-baltnesku ferðastyrkjaáætlunina. Þá er fyrirhugaður um 20% sparnaður í norrænu tungumálasamstarfi.

„Svona mikill sparnaður hefur mikið að segja fyrir menningargeirann á öllum Norðurlöndum. Hvort sem um er að ræða starfsemi norrænu húsanna sem fundarstaða þar sem miðlað er menningu, sögu og tungumálum eða verkefna eins og Orkester Norden. Það að vernda styrkjaáætlanirnar ekki fyrir niðurskurði bitnar helst á einstökum listamönnum og menningariðkendum. Við verðum að standa vörð um menninguna,“ segir Jorodd Asphjell, þingmaður í Noregi og meðlimur nefndarinnar.

 

Undir það tekur kollegi hans sem einnig er meðlimur í nefndinni, Norunn Tveiten Benestad:

„Á menningarsviðinu getur oft orðið mikið til úr litlu. Við áttum okkur á að það verður að forgangsraða í vinnunni í tengslum við framtíðarsýnina en það er óviðunandi að menningar- og menntageirinn eigi að bera hitann og þungann af því að fjármagna framkvæmdaáætlunina fyrir framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndarinnar 2030.“

 

Hvetja flokkahópana til að ræða aðgerðir

Skammtímaafleiðinga er þegar farið að gæta en nefndin hefur áhyggjur af langtímaafleiðingum á borð við hið mikilvæga hlutverk menningar og menntasamstarfs þegar kemur að því að byggja brýr í norrænu samstarfi.

„Það er hætta á að þessi niðurskurður hafi í för með sér að þáttur menningar í samstarfinu verði ósýnilegur og til langs tíma geta afleiðingarnar orðið miklar. Við verðum að ræða þetta vel í flokkahópunum,“ segir Camilla Gunell, meðlimur nefndarinnar frá Álandseyjum.

 

Nefndin gerir sér ljóst að staðan er flókin og snýst um forgangsröðun í fjárhagsáætlun en hvetur þó kollega sína í flokkahópunum til að ræða málið ítarlega á sumarfundunum fram undan.

„Tillagan stráir salti í sár menningargeirans sem þó var aðkrepptur fyrir og við viljum gera það sem við getum til að velta fyrir okkur hverri krónu. Við hvetjum alla flokkahópana til að ræða tillöguna og aðgerðir á komandi sumarfundum sínum sem fram undan eru,“ segir formaðurinn Kjell-Arne Ottosson að lokum.

 

Vinnan í framhaldinu

Næst munu flokkahóparnir ræða tillöguna að fjárhagsáætlun á sumarfundum sínum. Tillögur flokkahópanna verða sendar forsætisnefnd sem tekur ákvörðun um forgangsraðaðan lista breytingatillagna. Í kjölfar þess hittast forseti Norðurlandaráðs og formaður samstarfsráðherranna til viðræðna um breytingatillögur Norðurlandaráðs. Breytingatillögur sem þeir sameinast um koma síðan til samþykktar á þingi Norðurlandaráðs í nóvember.