Ógnir við lýðræðið þema á þingi Norðurlandaráðs

08.10.18 | Fréttir
Temasession 2018
Photographer
Auðunn Níelsson
Þrengingar að lýðræðinu verður áherslumál á þingi Norðurlandaráðs í Ósló um mánaðamótin október-nóvember.

Sjónum verður beint að þessu málefni strax á fyrsta degi þingsins, þriðjudaginn 30. október, á leiðtogafundi þingmanna Norðurlandaráðs og forsætisráðherranna. Á leiðtogafundinum eiga hinir 87 þingmenn ráðsins þess kost að spyrja spurninga og eiga samtal við forsætisráðherra landanna fimm og Álandseyja, Færeyja og Grænlands.

Yfirskrift leiðtogafundarins er Geta Norðurlandanna til þess að bregðast við tilraunum annarra landa til þess að hafa áhrif á samfélög okkar og lýðræðisleg ferli.

Michael Tetzschner, forseti Norðurlandaráðs, telur að sótt sé að lýðræðislegum gildum í því pólitíska andrúmslofti sem nú ríkir og að þess vegna verði ríki sem hafa sömu grundvallarsýn að vinna saman.

„Við sjáum þess greinileg merki að ákveðin ríki hika ekki við að reyna á ýmsan hátt að hafa áhrif á lýðræðislegar kosningar og skapa sundrungu í samfélögum okkar. Það skiptir því meginmáli að við vinnum saman, ekki aðeins á Norðurlöndum heldur einnig í Evrópusambandinu og á heimsvísu, og leitum allra leiða til þess að standa saman gegn því að sótt sé að lýðræðinu,“ segir Michael Tetzscner.

Tillaga um stamstarf á sviði netvarna

Einnig verður fjallað um öryggismál undir öðrum dagskrárliðum þingsins. Þingmennirnir eiga meðal annars að taka afstöðu til tillögu frá flokkahópi hægrimanna þar sem lagt er til aukið norrænt samstarf á sviði netvarna.

Auk þess mun Norðurlandaráð fá í hendur skýrslur utanríkis- og varnarmálaráðherranna.

Annað mikilvægt þema á þinginu er frjáls för á Norðurlöndum, þ.e. Vinnan við að ryðja úr vegi eins mörgum stjórnsýsluhindrunum og kostur er til þess að fólki sé frjálst að starfa og stunda nám á öllu svæðinu án þess að þurfa að glíma við skriffinnsku. Þetta málefni verður meðal annars á dagskrá fundar með norrænu samstarfsráðherrunum á miðvikudeginum.

Einnig verður rætt um norrænt löggjafarsamstarf með hliðsjón af skýrslunni sem prófessor Inge Lorange Backer vann fyrir Norrænu ráðherranefndina.

Pólitísk ofurvika

Á árlegu þingi Norðurlandaráðs safnast saman stjórnmálafólk frá öllum Norðurlöndunum, þingmenn og allmargir ráðherrar, meðal annars allir forsætisráðherrarnir. Þingið verður í ár haldið í Stórþinginu í Ósló 30.10-1.11.

Norðurlandaráð er vettvangur opinbers samstarfs þingmanna á Norðurlöndum. Það var stofnað árið 1952 og er skipað fulltrúum frá Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð, auk Álandseyja, Færeyja og Grænlands.