Norðurlandaráð gagnrýnir niðurskurð á menningarsviði

29.06.21 | Fréttir
Bertel Haarder i virtuellt möte
Photographer
Mary Gestrin
Forsætisnefnd Norðurlandaráðs leggur áherslu á hlutverk menningarinnar sem sameinandi afls á svæði okkar og fer hörðum orðum um þær tillögur að niðurskurði til menningarmála fyrst og fremst sem Norræna ráðherranefndin áformar á tímabilinu 2022–24.

Fjárhagsáætlunartillagan og afleiðingar hennar voru ræddar þegar forsætisnefndin fundaði dagana 28.–29 .júní í tengslum við rafrænt þemaþing ráðsins. Hlutverk menningarinnar var einnig þema umræðna um framtíðarsýn sem efnt var til í tengslum við forsætisnefndarfundinn.

Afleiðingarnar verða hörmulegar, verði þessi áform ekki endurskoðuð

Bertel Haarder, forseti Norðurlandaráðs

Við þurfum fleiri menningarverkefni, ekki niðurskurð

„Fyrirhugaður niðurskurður á sviði menningarsamstarfs er mikið áhyggjuefni,“ segir Bertel Haarder. „Góður tungumálaskilningur og möguleiki á að taka þátt í menningarlífi grannþjóðanna er örugg leið til þess að auka áhuga á samstarfinu almennt,“ segir hann.

„Einkum hef ég áhyggjur af yngri kynslóðunum. Til að auka áhuga þeirra á Norðurlöndum þurfum við ný verkefni á sviðinu, ekki niðurskurð.“

Forsetinn gagnrýnir það að ekki hafi verið tekið meira tillit til sjónarmiða Norðurlandaráðs í fjárhagsáætlunartillögunni.


„Við furðum okkur á því að ekki hafi verið tekið meira tillit til gagnrýni okkar í þeim drögum að fjárhagsáætlun sem nú liggja fyrir, einkum hvað snertir niðurskurð á menningarsviði. Afleiðingarnar verða hörmulegar, verði þessi áform ekki endurskoðuð,“ segir hann.

Allir ættu að geta tekið þátt í menningarlífinu

Undir formennsku Dana í Norðurlandaráði hefur forsætisnefnd rætt málefni sem gætu eflt norrænt samstarf og flýtt fyrir því að við náum markmiði framtíðarsýnarinnar, að Norðurlönd verði samþættasta og sjálfbærasta svæði í heimi.

Útgangspunktur í umræðum um framtíðarsýn á þessum forsætisnefndarfundi var tillaga frá forseta og varaforseta Norðurlandaráðs um svonefnda menningarskrá (kulturkanon) – eins konar lista, sem uppfærður yrði reglulega, yfir forvígisfólk í menningargeira og mikilvæg menningarverk sem allir Norðurlandabúar ættu að fá að kynnast.

Formaður þekkingar- og menningarnefndarinnar, Kjell Arne Ottoson frá Svíþjóð, tók einnig þátt í umræðunum.    

„Við höfum ekki haft eins ríka ástæðu til að benda á það sem sameinar okkur síðan Norðurlandaráð var stofnað. Í því samhengi er sameiginleg menning okkar ein af burðarstoðunum,“ segir hann.

Sams konar tillaga um menningarskrá var einnig rædd í þekkingar- og menningarnefndinni, að tillögu flokkahópsins Norræns frelsis, og varð forsætisnefndin ásátt um að frumkvæðisréttur í þessu máli og áframhaldandi umfjöllun um það lægi þar.