„Niðurskurður í menningarsamstarfi er illa ígrundaður“

27.10.20 | Fréttir
händer med färg på
Photographer
Unsplash
Að mati norrænu þekkingar- og menningarnefndarinnar er niðurskurður í menningarsamstarfi vanhugsaður, einkum í ljósi þess hve harkalega kórónuveirufaraldurinn hefur komið niður á menningargeiranum.

„Það er mikilvægara en nokkru sinni að efla norrænt menningarsamstarf,“ segir Kjell-Arne Ottosson, formaður nefndarinnar.

Ráðherrar menningarmála á Norðurlöndum vinna nú að nýrri norrænni samstarfsáætlun til næstu fjögurra ára. Í henni er áhersla lögð á mikilvægi menningar fyrir sjálfbær Norðurlönd.

En á sama tíma og hrinda á áætluninni í framkvæmd rýrnar hlutur menningarsamstarfs ríkisstjórnanna í fjárhagsáætluninni um u.þ.b. sjö prósent á árinu 2021.

Verður hægt að ná markmiðunum?

Meðlimir þekkingar- og menningarnefndar Norðurlandaráðs setja nú spurningarmerki við hvort fjármagnið dugi til að framkvæma hina nýju áætlun.

„Í nýju samstarfsáætluninni kemur fram að menning leiki veigamikið hlutverk í því að Norðurlönd verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims. Það er vel. En það er spurning hvort menningarmálaráðherrunum takist að ná markmiðunum á sama tíma og skera á mikið niður,“ segir sænski þingmaðurinn Kjell-Arne Ottosson, formaður nefndarinnar.

Framtíðarsýnin stýrir fjárhagsáætluninni

Ný framtíðarsýn forsætisráðherranna fyrir norrænt samstarf beinir starfseminni í loftslagsvænni og sjálfbærari átt en áður. Samkvæmt framtíðarsýninni til ársins 2030 eiga Norðurlönd að verða sjálfbærasta og samþættasta svæði í heimi. Það kallar á breytta forgangsröðun í framkvæmda- og fjárhagsáætlun.

Samstarfsráðherrarnir hafa samþykkt fjárhagsáætlun sem felur í sér niðurskurð á sviði menningar- og menntamála.

Framlag til blaðamannamiðstöðvar fellur niður

Meðal annars er dregið úr framlögum til Norræna menningarsjóðsins, Norðurlandahússins í Færeyjum, Norræna hússins á Íslandi og kvikmyndahátíðarinnar Nordisk Panorama. Sömu sögu er að segja af framlagi til norrænu bókmenntavikunnar og styrkveitingum til norrænna menningarverkefna á Grænlandi. Framlag til Norrænu blaðamannamiðstöðvarinnar fellur alveg niður.

Óskað eftir áfangaskýrslu

„Kórónuveirufaraldurinn hefur leikið menningargeirann grátt og víða hefur starfsemi lagst af og starfsfólki verið sagt upp. Í ljósi þess virðist sú ákvörðun samstarfsráðherranna að skera niður í fjárhagsáætlun menningarmálaráðherranna enn verr ígrunduð,“ segir sænska þingkonan Angelika Bengtsson, varaformaður nefndarinnar.

„Stöndum vörð styrkjaáætlanirnar“

Að mati norrænu þekkingar- og menningarnefndarinnar er sérlega mikilvægt að styrkjaáætlanir á svið menningarmála sleppi við niðurskurð, t.d. lista- og menningaráætlunin sem veitir styrki á öllum sviðum lista og menningar.

Þá fer nefndin fram á að fá greinargerð um áhrif niðurskurðarins á menningarsamstarfið þegar áætlunartíminn er hálfnaður.

 

Samstarfsráðherrarnir munu taka formlega ákvörðun um fjárhagsáætlunina, með breytingatillögum Norðurlandaráðs, í nóvember.