Norðurlandaráð æskunnar fagnar 50 ára afmæli

25.10.21 | Fréttir
UNR firar 50 år

UNR firar 50 år

Photographer
UNR / Norden.org
Norðurlandaráð æskunnar er 50 ára á þessu ári og haldið verður upp á tímamótin með afmælisþingi í Kaupmannahöfn. Aldís Mjöll Geirsdóttir forseti Norðurlandaráðs æskunnar leggur í tilefni afmælisins áherslu á hið mikilvæga hlutverk Norðurlandaráðs æskunnar, ekki síst þegar kemur að því að hafa áhrif á dagskrá Norðurlandaráðs.

Norðurlandaráð æskunnar (UNR) hefur á 50 árum séð til þess að ungt fólk tekur þátt og hefur áhrif á þær stefnumótandi ákvarðanir sem teknar eru í Norðurlandaráði. Allt hófst þetta á fyrsta opinbera fundinum í Stokkhólmi 1971, hélt áfram á málþingum og nú hefur UNR vaxið og orðið að sérstakri stofnun með skrifstofu í Helsinki og árleg þing.

„UNR er einstakur vettvangur skipaður ungu fólki sem er lýðræðislega kjörið í norrænu löndunum. Starf UNR er ótrúlega mikilvægt og felur í sér að fulltrúar unga fólksins hefur áhrif á ákvarðanir Norðurlandaráðs. Áhrifin eru augljós og ýmsar ákvarðanir hafa verið teknar í Norðurlandaráði um málefni sem byggja á frumkvæði UNR,“ segir Aldís Mjöll Geirsdóttir, forseti Norðurlandaráðs æskunnar árið 2021.

UNR á nú fulltrúa í öllum nefndum Norðurlandaráðs og forseti UNR situr í forsætisnefnd ráðsins. Með því móti er tryggt að ungt fólk hefur bein áhrif á norrænt samstarf sem gerir UNR að einstakri samstarfsstofnun á heimsvísu.

Þingið mikilvægast viðburðurinn

Mikilvægasti viðburður UNR er hið árlega þing sem alltaf er haldið dagana á undan Norðurlandaráðsþingi. Þema afmælisþingsins sem haldið verður 29.-31. október er „Norræn ungmennapólitík í 50 ár“. Þær ályktanir sem samþykktar verða á þingi Norðurlandaráðs æskunnar verða sendar áfram til Norðurlandaráðsþingsins sem haldið verður 1.-4. nóvember.

„Það á ekki bara að hlusta á ungt fólk þegar rætt er um málefni sem snertir það beint. Ungt fólk á að hafa áhrif á öll málefni í Norðurlandaráði. UNR gegnir eftirlitshlutverki í Norðurlandaráði - bæði með því að vekja athygli á málefnum sem snerta ungt fólk en einnig með því að taka þátt í umræðum um tillögur frá öðrum fulltrúum. Þess vegna er starf UNR ómetanlegt,“ segir Aldís Mjöll Geirsdóttir.

Loftslagsbaráttan mikilvægust

Loftslagsbreytingar eru eitt af meginmálefnum UNR og þær eru einnig stærsta áskorunin sem við stöndum nú frammi fyrir að mati Aldísar Mjallar Geirsdóttur. Að hennar mati verða öll norrænu löndin að vinna saman og hrinda tafarlausum breytingum í framkvæmd ef Norðurlöndum á að takast að verða sjálfbærasta svæði heims í samræmi við framtíðarsýnina fyrir 2030.

„Norðurlöndin eru meðal efnuðustu svæða heims og bera um leið ábyrgð á stórum hluta losunar. Ríkidæmi okkar felur í sér að staða okkar til þess að framkvæma græn umskipti á réttlátan og lýðræðislegan hátt er sterk. Norðurlöndin eru lítið svæði en þau geta gegnt afar mikilvægu hlutverki í baráttunni við loftslagskreppuna með því að vera áhrifarík fyrirmynd fyrir allan heiminn. Ef við ætlum að ná fram norrænu framtíðarsýninni verðum við að hraða grænni þróun og við verðum að gera það saman,“ segir Aldís Mjöll Geirsdóttir.

UNR skilar árangri

Aldís Mjöll segir að starf UNR skili árangri og nefnir meðal annars eitt tiltekið mál auk loftslagsmálanna í stóra samhenginu – loftslagssjóð fyrir líffræðilega fjölbreytni:

„UNR hefur lagt áherslu á að viðurkenna verði hlutverk ungs fólks í loftslagsbaráttunni með því að koma á fót trúverðugum og lýðræðislegum loftslagssjóði til þess að styrkja ákvarðanatöku ungs fólks á sviði loftslagsmála á Norðurlöndum. Þess vegna verður áhugavert að fylgjast með þróun Sjóðs æskunnar fyrir líffræðilega fjölbreytni og loftslagsmál og hvernig málin þróast í raun,“ segir Aldís Mjöll Geirsdóttir.

Til fróðleiks:

- Afmælisþing UNR 2021 verður haldið 29.-31. október í Kaupmannahöfn.

- Á lokadegi þingsins verður kosinn nýr forseti og ný forsætisnefnd fyrir árið 2022.

- Skrifstofa UNR í Helsinki tók til starfa árið 2004.

- Í UNR safnast saman ungt fólk sem er virkt í pólitísku starfi frá öllum Norðurlöndum og frá ólíkum stjórnmálaflokkum en það stuðlar að pólitískum umræðum þvert á flokka. Þess vegna er breiður málefnalegur stuðningur við tillögur UNR.