Norðurlandaráð æskunnar vill sjá ungmennaráð um loftslagsmál á öllum Norðurlöndum

21.03.22 | Fréttir
NR Temasession 2022

Nordisk Råds Temasession 2022 afholdes i Malmø. 

Ljósmyndari
Lars Dareberg / norden.org
Markmiðið með tillögu frá Norðurlandaráði æskunnar er að auka þátttöku ungs fólks í loftslagsvinnu landanna. Tillagan var lögð fram á þemaþingi Norðurlandaráðs í Malmö í vikunni.

Á öllum Norðurlöndum kallar ungt fólk eftir metnaðarfyllri loftslagsstefnu. Skólaverkfall Gretu Thunberg í þágu loftslagsins hefur breitt úr sér um allan heim og hún er ekki ein. Loftslagsmálin eru nefnilega efst á lista yfir þau málefni sem ungt fólk á Norðurlöndum vill sjá norrænt samstarf beita sér í. Það sýnir rannsókn frá árinu 2021. Nú kallar Norðurlandaráð æskunnar eftir aðgerðum og leggur til að komið verði á fót innlendum ungmennaráðum um loftslagsmál í öllum norrænu löndunum.

„Áhugi ungs fólks á loftslagsmálum dylst engum og í okkar huga snýst þessi tillaga um að tryggja og festa í sessi áhrif ungs fólks á loftslagsstefnuna.“

Eva Dögg Davíðsdóttir, fulltrúi í Norðurlandaráði æskunnar

Á að vera ráðgefandi

Tillagan var lögð fram í norrænu sjálfbærninefndinni á þemaþingi Norðurlandaráðs síðdegis á mánudag.

 

„Við notum Danmörku sem fyrirmynd. Hér er nú þegar til ungmennaráð um loftslagsmál og við lítum á það sem leið fyrir Norðurlönd í heild til að virkja ungt fólk fyrir alvöru,“ segir Eva Dögg, fulltrúi í Norðurlandaráði æskunnar.

 

Í tillögunni segir meðal annars: Ungmennaráð um loftslagsmál eiga að vera ráðgefandi í löndum sínum og geta gert tillögur til stjórnmálamanna. Lagt er til að loftslagsráðherra verði skyldugur að taka til greina tilmæli ungmennaráðsins ásamt því að funda með ráðinu tvisvar sinnum ár hvert. Í tillögunni er einnig fjallað um mikilvægi þess að ungmennaráðið verði óháð og að hluti fulltrúanna verði skipaður af ungmennaráðum landanna og ýmsum ungmennasamtökum til að tryggja tengsl við núverandi ungmennahreyfingar á Norðurlöndum.

 

Norræna sjálfbærninefndin ákvað að halda áfram með tillöguna og vill vinna nefndartillögu.

Norðurlandaráð æskunnar er áheyrnarfulltrúi á nefndarfundum og þingum Norðurlandaráðs. Ráðið getur lagt fram tillögur fyrir nefndirnar en er háð því að nefndin haldi áfram með málið sem nefndartillögu eða að fulltrúi í Norðurlandaráði leggi hana fram sem þingmannatillögu.