Norðurlandaráð er 70 ára – starfar áfram í þágu Norðurlanda

11.03.22 | Fréttir
Nordiska rådets första session öppnas den 13 februari 1953.
Photographer
Allan Moe/Ritzau Scanpix

Norðurlandaráð kom í fyrsta sinn saman 13. febrúar 1953, næstum því einu ári eftir stofnun þess. Myndin er frá setningu fundarins í Kristjánsborgarhöll þar sem meðal annars konungshjónin Friðrik og Ingiríður voru viðstödd.

Dagana 15.–16. mars 1952 hittust norrænu utanríkisráðherrarnir á fundi í Kaupmannahöfn. Á fundinum ákváðu ráðherrarnir að koma á fót opinberum vettvangi fyrir norrænt þingsamstarf. Það markaði upphaf Norðurlandaráðs, einstaks samstarfs sem enn er við lýði og verður 70 ára í ár.

Tæpu ári eftir fund utanríkisráðherranna kom Norðurlandaráð saman til síns fyrsta opinbera fundar í Kristjánsborgarhöll í Kaupmannahöfn, hinn 13. febrúar 1953. Meðal viðstaddra voru Friðrik 9. Danakonungur og Hans Hedtoft, fyrrverandi forsætisráðherra Danmerkur, sem var einn af eldhugunum á bak við verkefnið og var kjörinn fyrsti forseti Norðurlandaráðs.

Fyrsti fundur ráðsins vakti mikla athygli. Sé að marka ræðumenn á fundinum var þetta hátíðlegur dagur og söguleg stund. Svona komst Nils Herlitz, formaður sænsku sendinefndarinnar, til dæmis að orði:

- Þótt ljóst megi vera að einungis framtíðin geti skorið úr um það hvað öðlast þýðingu í sögunni og þannig sagt til um sögulegt gildi þessa dags er ekki annað hægt en að líta á hann í sögulegu ljósi. Það sem hér á sér stað í dag er tilraun stjórnvalda norrænu landanna til að teygja sig með varanlegum hætti yfir landamærin og grípa inn í líf Norðurlanda,“ sagði Herlitz samkvæmt fundargerð frá fyrsta fundi Norðurlandaráðs.

  Eitt landið vantaði

  Einn var þó galli á gjöf Njarðar. Í upphafi voru það aðeins Danmörk, Ísland, Noregur og Svíþjóð sem tóku þátt. Finnland var ekki með. Ástæðan var tillitssemi við Rússa sem töldu að Finnar myndu hallast til samstarfs við aðildarríki Atlantshafsbandalagsins.

  Enginn vafi lék þó á því að Finnar voru velkomnir. Það sést glögglega á grein í Nordens tidning, félagsblaði Norræna félagsins í Svíþjóð, sem var á staðnum og flutti fréttir af fyrsta fundi Norðurlandaráðs.

  „Samkvæmt stofnsáttmála ráðsins getur Finnland fengið aðild hvenær sem þess er óskað. Þar til slík aðild verður möguleg er mikilvægara en nokkru sinni að böndin á milli Finnlands og hinna landanna haldist ekki aðeins órofin heldur styrkist sem aldrei fyrr,“ stóð í blaðinu.

  Árið 1955 kom svo að því að Finnland gekk í Norðurlandaráð Í dag eru einnig Færeyjar, Grænland og Álandseyjar fullgildir aðilar.

   Mikilvægir áfangar

   Í dag, 70 árum eftir að Norðurlandaráð leit dagsins ljós, er við hæfi að líta yfir þann árangur sem náðst hefur.

   Um marga stóra áfanga er að ræða. Norræna vegabréfasambandið frá 1954 er án vafa mikilvægasti áfanginn í gegnum árin.

   En margt fleira hefur gerst síðan þá. Nefna má sameiginlegan vinnumarkað, norrænar næringarráðleggingar, frjálsa för, Svansmerkið, hið einstaka norræna samstarf um orkumál, Nordgen og fræhvelfinguna á Svalbarða, norrænu menntaáætlunina Nordplus, Nordjobb sem gefur ungu fólki færi á að vinna í öðru norrænu landi, og menningarsamstarf á óteljandi sviðum.

   Ekki er þó hægt að eigna Norðurlandaráði allan árangurinn. Norræna ráðherranefndin, sem er samstarfsvettvangur ríkisstjórnanna, hefur unnið að sömu málum og margar lausnanna eru afrakstur samstarfs.

   Ef við ferðumst aftur í tímann til sjötta áratugarins má sjá að mörg þeirra mála sem þá voru ofarlega á baugi eiga enn við í dag. Á sínum fyrsta fundi ræddi Norðurlandaráð meðal annars „viðskiptaréttarlega, félagslega og lögfræðilega réttarstöðu“ þvert á landamæri Norðurlanda, auk máls sem hefur verið leyst, þ.e. brú eða göng sem þvera Eyrarsund.

    Unnið í þágu daglegs lífs Norðurlandabúa

    Enn í dag vinna Norðurlandaráðsþingmennirnir 87 að lausnum sem bæta daglegt líf Norðurlandabúa, einkum með tilliti til þess að lifa og starfa þvert á landamæri.

    Í seinni tíð hafa utanríkis- og varnarmál einnig orðið æ mikilvægari á vettvangi Norðurlandaráðs eftir að á þeim hafði hvílt ákveðin bannhelgi í nokkra áratugi. Ráðið leggur mikla áherslu á lýðræðisleg gildi og tekur einnig afstöðu í utanríkismálum.

    Enn er mikil eftirspurn eftir norrænu samstarfi á meðal íbúa. Alls telja 86 prósent Norðurlandabúa samstarfið mikilvægt ef marka má könnun frá árinu 2021.

     Mikilvægur vettvangur

     Ráðið er mikilvægur pólitískur vettvangur að mati Erkki Tuomioja, núverandi forseta Norðurlandaráðs sem setið hefur í ráðinu frá árinu 1970 að undanskildum þeim árum þegar hann hefur gegnt ráðherraembætti.

     „Norrænt samstarf nýtur mikils stuðnings Norðurlandabúa svo það er skylda okkar að standa undir væntingum og sjá til þess að það beri árangur. Við sjáum líka að lönd okkar standa frammi fyrir svipuðum úrlausnarefnum á mörgum sviðum samfélagsins. Þar gegnir Norðurlandaráð veigamiklu hlutverki sem vettvangur þar sem við getum skipst á reynslu og lært hvert af öðru, en einnig þar sem við getum lagt fram beinar tillögur að norrænum lausnum sem gagnast almenningi.“

      Vilja sjá árangur

      Nordens tidning vék einnig að árangri í frétt sinni af fundinum:

      „Við í Norræna félaginu trúum því að um sögulega stund hafi verið að ræða í Kaupmannahöfn. Hvort sú reynist raunin verður framtíðin að skera úr um. Tilurð Norðurlandaráðs er út af fyrir sig gleðiefni en það er árangurinn af starfinu sem við viljum sjá.“

       Tilvitnanir úr fundargerð fyrsta fundar Norðurlandaráðs 13. febrúar 1953

       „Þótt við viljum eiga gott og traust samband við allar þjóðir heims erum við bundin hinum norrænu bræðraþjóðum okkar sérstökum böndum og vitum hvaða gildi norrænt samfélag hefur fyrir alla sem aðild eiga að því.“

       Friðrik níundi Danakonungur

        

       „Norðurlandaráð gæti orðið fyrirmynd annarra að því hvernig þjóðir geta með vináttu og gagnkvæmum skilningi leyst öll sín deilumál og mótað það alþjóðlega samstarf og samstöðu sem lagt getur grunn að því að útrýma hættunni á stríðsátökum í heiminum og skapa frið á jörð.“

       Magnús Jónsson, formaður íslensku sendinefndarinnar

        

       „Á norska Stórþinginu var tekist á um Norðurlandaráð. Margir voru því mótfallnir en mikill meirihluti ákvað að Noregur skyldi taka þátt. Þeir sem andsnúnir voru ráðinu eiga sér einnig fulltrúa í norsku sendinefndinni. Því tel ég að allir fagni. Það gleður mig sömuleiðis að geta sagt að Stórþingið og þjóðin séu einhuga um að vilja að samstarf norrænu þjóðanna sé eins og best verður á kosið. Það er fyrirkomulag samstarfsins sem deildar meiningar kunna að vera um.

       Einar Gerhardsen, formaður norsku sendinefndarinnar

       Staðreynd:

       Norðurlandaráð er vettvangur opinbers samstarfs þingmanna á Norðurlöndum. Ráðið skipa 87 þjóðkjörnir fulltrúar frá Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi, Svíþjóð, Álandseyjum, Færeyjum og Grænlandi.

       Ráðið kemur saman fimm sinnum á ári. Mikilvægasti fundurinn er Norðurlandaráðsþingið sem haldið er í viku 44 ár hvert.

       Innan ráðsins starfar forsætisnefnd auk fjögurra fagnefnda og fimm flokkahópa.

       Á árinu verður afmælinu meðal annars fagnað í tengslum við fundi ráðsins en einnig við fleiri tækifæri. Hægt verður að fylgjast með viðburðum í tengslum við afmælisárið á Norden.org.