Norðurlandaráð hefur vetrarstarfið stafrænt - og hittir Ernu Solberg

11.09.20 | Fréttir
Kjell-Arne Ottosson taler i Plenum i Stortinget ved Nordisk Råds Session 2018

Kjell-Arne Ottosson taler i Plenum i Stortinget ved Nordisk Råds Session 2018

Ljósmyndari
Johannes Jansson

Halda átti septemberfundina í norska stórþinginu í Ósló 14.-15. september en í stað þess verða allir fundirnir haldnir gegnum fjarfundarbúnað.

Á mánudag hefur Norðurlandaráð pólitískt vetrarstarf sitt með hefðbundnum septemberfundum. Flokkahópar ráðsins, nefndir og forsætisnefnd funda í vikunni og auk þess verður haldinn fundur með Ernu Solberg, forsætisráðherra Noregs um líffræðilega fjölbreytni í hafinu. Allir fundirnir verða haldnir gegnum fjarfundabúnað vegna kórónuveirufaraldursins.

Mánudagurinn hefst með fundum flestra flokkahópa Norðurlandaráðs. Sama dag verður einnig haldinn fundur ráðsins með Ernu Solberg. Efni fundarins er hlutverk Norðurlanda í vinnunni við að ná fram sjálfbærri nýtingu auðlinda hafsins og sjálfbæru hagkerfi þess til framtíðar á Norðurlöndum og í heiminum öllum.

Bakgrunnurinn er sá að árið 2018 kom Erna Solberg á fót alþjóðlegum leiðtogahópi 14 strandríkja úr öllum heiminum um sjálfbært hagkerfi hafsins og er markmið þess að skapa alþjóðlegan skilning á sjálfbærri nýtingu hafsins.

Hafið í forgangi hjá Norðurlandaráði

Hafið og líffræðileg fjölbreytni hafsins fellur vel að áherslumálum Norðurlandaráðs. Ísland fer með formennsku í Norðurlandaráði og hafið er meðal helstu forgangsmála í formennskuáætluninni.

„Skýrsla loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna sýnir að loftslagsbreytingar hafa þegar mikil áhrif á vistkerfi hafsins. Líffræðilegum fjölbreytileika hafsins stafar ógn af þessu og þetta hefur bein áhrif á líf okkar hér á Norðurlöndum. Við verðum að leggja allt í sölurnar til þess að stöðva þessa þróun bæði hér á Norðurlöndum og á heimsvísu. Það verður afar áhugavert að hlýða á Ernu Solberg segja frá starfi leiðtogahópsins,“ segir Silja Dögg Gunnarsdóttir sem er forseti Norðurlandaráðs árið 2020.

Forsætisnefnd ræðir þing ársins 2020

Septemberfundi Norðurlandaráðs verður fram haldið með nefndafundum þriðjudaginn 15. september. Covid-19 er eðlilega meðal málefna sem rædd verða í nefndunum en þar verður einnig fjallað um ýmis önnur málefni, meðal annars tengd umhverfis- og loftslagsmálum.

Fundur forsætisnefndar verður haldinn föstudaginn 18. september. Fyrir henni liggur meðal annars spurningin um hvernig meðferð mála verður háttað á þingi Norðurlandaráðs sem halda átti í Reykjavík en var aflýst vegna faraldursins. Ljóst er að margir fjarfundir verða haldnir í þingvikunni, 26.-30. október, en dagskráin er ekki frágengin í smáatriðum.

Til stóð að halda septemberfundinn í Ósló 14.-15. september en vegna faraldursins var hætt við alla fundi þar sem fólk kemur saman og allir fundir fara þess í stað fram gegnum fjarfundabúnað.