Norðurlöndin geta verið leiðandi á heimsvísu í sprotastarfi

30.10.18 | Fréttir
Idar Kreutzer, verkställande direktör för Finans Norge, har skrivit en rapport för Nordiska ministerrådet.

Idar Kreutzer, verkställande direktör för Finans Norge.

Photographer
Johannes Jansson
Norðurlöndin geta orðið leiðandi svæði á heimsvísu fyrir nýsköpunar- og sprotafyrirtæki. Til þess þurfa Norðurlöndin þó meðal annars að samræma skattareglur og fjármögnunarkerfi til að laða að áhættufjármagn. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu.

Í skýrslunni er að finna 16 tillögur að því hvernig Norðurlönd sem svæði geta orðið meira aðlaðandi til fjárfestinga í nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum. Idar Kreutzer, framkvæmdastjóri Finans Norge, gerði skýrsluna sem unnin var fyrir Norrænu ráðherranefndina.

Í skýrslunni stingur Idar Kreutzer meðal annars upp á að gerðar séu ráðstafanir sem einnig geta aukið áhuga fagfjárfesta, svo sem lífeyrissjóða, á að fjármagna nýsköpunarfyrirtæki og lítil og meðalstór fyrirtæki.

Auk þess vill hann að reglulega verði farið yfir norrænar skattareglur, að þær séu bæði bornar saman milli Norðurlandanna innbyrðis og að norrænu reglurnar séu skoðaðar í samanburði við samkeppnissvæði á heimsvísu.

Idar Kreutzer lýsir eftir samræmingu á skattareglum í norrænu ríkjunum með það að markmiði að auka áhuga fjárfesta úr einkageiranum á fjárfestingum á svæðinu. Hann vill einnig að norrænu forsætisráðherrarnir setji með skýrum hætti fram sameiginlega pólitíska stefnu um að búa til norrænt vistkerfi sem er leiðandi á sviði nýsköpunar í heiminum.

Norðurlöndin eru fýsilegri sem heild

Í skýrslunni kemst Kreutzer að því að Norðurlöndin sem sameiginlegt svæði séu mun meira aðlaðandi fyrir fjárfesta en þau eru hvert fyrir sig. Ef Norðurlöndin eiga að vera samkeppnisfær við önnur svipuð svæði þá verða þau að auka áherslu á aðlögun.

„Hvert og eitt Norðurlandanna er smátt fyrir alþjóðlegt áhættufjármagn. Sameiginlega erum við eitt af mest aðlaðandi svæðum heims. Það skulum við einnig vera þegar kemur að áhættufjármagni,“ segir Idar Kreutzer sem byggir tillögur sínar á um 60 viðtölum bæði við norræna og alþjóðlega hagsmunaaðila nýsköpunargeiranum.

Hvert og eitt Norðurlandanna er smátt fyrir alþjóðlegt áhættufjármagn. Sameiginlega erum við eitt af mest aðlaðandi svæðum heims. Það skulum við einnig vera þegar kemur að áhættufjármagni.

Idar Kreutzer

Kreutzer dregur í skýrslunni fram tvö svið sem einkum eru vandasöm. Annars vegar eiga nýsköpunarfyrirtæki í erfiðleikum með að nálgast fjármagn meðan þau eru á sprotastiginu og hins vegar lítur út fyrir að fyrirtæki í geirum eins og heilbrigðistækni, hreinni tækni og líftækni eigi erfiðara með að laða að fjárfesta en fyrirtæki í öðrum geirum.

„Norrænu ríkisstjórnirnar geta tekist sameiginlega á við þessar áskoranir með traustara samstarfi. Það krefst ráðstafana sem laðar að snjallt fjármagn úr einkageiranum og einnig markvissar ráðstafanir sem beinast að einstökum geirum,“ segir Kreutzer.

Skýrslan til áframhaldandi meðferðar

Idar Kreutzer afhenti norrænu samstarfsráðherrunum skýrsluna 30. október. Hugmyndin er sú að skýrslan verði norrænum stjórnmálamönnum undirstaða undir áframhaldandi umræður og ákvarðanir sem geta leitt til aukins norræns samstarfs innan þessa geira og loks skapað svæði sem er enn meira aðlaðandi fyrir fjárfesta en nú.

„Það er algert úrslitaatriði að fyrirtækin okkar á sviði nýsköpunar og sprotastarfsemi fái aðgang að fjármagni. Oft er um að ræða hátæknileg og nýskapandi fyrirtæki sem mörg hver skipta miklu máli fyrir markmið okkar um að skapa fleiri störf og sjálfbærari framtíð. Nú er það undir okkur stjórnmálamönnunum komið að vinna áfram með tillögurnar í skýrslunni,“ segir Margot Wallström, utanríkisráðherra Svíþjóðar, sem er formaður norrænu samstarfsráðherranna árið 2018.

Norðurlöndin eru nú þegar ofarlega á listum á sviði nýsköpunar í alþjóðlegu samhengi. Þessi skýrsla sýnir að nú getum við orðið enn betri ef við gerum okkur grein fyrir verðmætinu sem felst í nánara norrænu samstarfi.

Dagfinn Høybråten

Skýrslan tekur á því sem skiptir máli

Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, fagnar skýrslunni og segir að hún taki nákvæmlega á því sem skiptir máli á tímum þegar augljóst er að nýsköpunar- og sprotafyrirtæki verða stöðugt mikilvægari fyrir samfélögin okkar.

„Norðurlöndin eru nú þegar ofarlega á listum á sviði nýsköpunar í alþjóðlegu samhengi. Þessi skýrsla sýnir að nú getum við orðið enn betri ef við gerum okkur grein fyrir verðmætinu sem felst í nánara norrænu samstarfi. Sameiginlegar áskoranir og alþjóðleg samkeppni mynda þrýsting á Norðurlöndin sem við verðum að taka mark á um leið og fyrir hendi eru mikil tækifæri til þess að auka samkeppnismátt svæðisins,“ segir Dagfinn Høybråten.