Norðurlöndin kalla eftir víðtækum hnattrænum aðgerðum í loftslagsmálum

28.10.15 | Fréttir
De Nordiska miljöministrarna
Photographer
Johannes Jansson/norden.org
„Á loftslagsráðstefnunni COP21 í París gefst sögulegt tækifæri til að sýna alþjóðlega forystu og vilja til að taka á loftslagsbreytingum,“ segja umhverfis- og loftslagsráðherrar Norðurlandanna.

Þann 28. október í Reykjavík undirrituðu ráðherrarnir sameiginlega yfirlýsingu á árlegu þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík.

Þeir ítreka mikinn vilja til að ná metnaðarfullum og lagalega bindandi alþjóðlegum samningi á COP21 í París, sem muni koma í veg fyrir að meðalhitastig í heiminum hækki um meira en 2 gráður á Celsíus.

„Norðurlöndin styðja það að samningurinn innihaldi langtímamarkmið, byggt á vísindalegum grunni, um að draga úr losun á hnattræna vísu. Þetta yrði leiðbeinandi fyrir framtíðaraðgerðir og myndi skapa öryggi fyrir fjárfesta,“ segja ráðherrarnir.

Sjálfbær hagvöxtur – norræna leiðin

Norðurlöndin hyggjast enn sem fyrr beita sér fyrir metnaðarfullum aðgerðum í loftslagsmálum og stefna að því að hagkerfin í samfélögum þeirra verði loftslagsþolin, með mikla orkuskilvirkni og litla losun kolefna.

Norðurlönd hafa löngum litið fram á veginn við stefnumótun í loftslags- og orkumálum.

„Reynsla okkar sýnir að hægt er að draga úr losun með áhrifaríkum hætti án þess að hagvöxtur eða samfélagsþróun bíði skaða af,“ segja ráðherrarnir.

Frá því um miðjan 10. áratug 20. aldar hafa Norðurlöndin verið í forystu meðal þeirra iðnríkja sem tekist hefur að aftengja hagvöxt sinn frá losun gróðurhúsalofttegunda heima fyrir.

„Aðgerðir í loftslagsmálum geta bætt efnahagslegan árangur, hvatt til fjárfestinga og nýsköpunar, skapað atvinnu og haft jákvæð áhrif á öðrum sviðum, svo sem á heilsufar og orkuöryggi,“ segja norrænu ráðherrarnir.

.

 

Línuritið sýnir hagvöxt á Norðurlöndum, samfara minnkandi losun gróðurhúsalofttegunda. Heimild: Norrænar hagtölur 2015

Hafa áhyggjur af norðurslóðum

Loftslag á norðurslóðum breytist ört og munu breytingarnar hafa mikil áhrif um allan heim. Norðurlöndin kalla eftir aðgerðum til að hægja á bráðnun íss á norðurslóðum. 


„Búist er við því að bráðnun ísbreiðunnar á Grænlandi, sem er hraðari en nokkru sinni fyrr, muni eiga þátt í hækkun sjávarborðs, en það mun hafa alvarlegar afleiðingar fyrir lágt liggjandi strandsvæði um allan heim,“ segja ráðherrarnir.

 

Ennfremur segja þeir: „Breytingarnar sem við sjáum á Norðurslóðum boða alvarlega ógn við vistkerfi og samfélög heimsins, sem mun fyrr eða síðar hafa áhrif á lífsskilyrði fólks og dýra um allan heim, og verða afleiðingarnar hvað alvarlegastar fyrir fólk sem þegar á við mesta fátækt og erfiðleika að stríða.“

 

Stuðningur við umbreytinguna

Norðurlöndin leggja jafnframt áherslu á mikilvægi fjármagnskerfa þegar aðstoða á þróunarlönd við að skipta yfir í grænna hagkerfi og aðlagast áhrifum loftslagsbreytinga. Þess vegna hafa Norðurlöndin heitið því að veita rúmum milljarði bandaríkjadala til Græna loftslagssjóðsins

Lesið yfirlýsinguna í heild sinni hér:

Norðurlöndin munu hafa sameiginlegan kynningarbás á COP21 og Norrræna ráðherranefndin stendur fyrir röð atburða undir yfirskriftinni „Nýjar norrænar loftslagslausnir“ (New Nordic Climate Solutions).

Umhverfis- og loftslagsráðherrar Danmerkur, Finnlands, Grænlands, Færeyja, Íslands, Noregs, Svíþjóðar og Álandseyja standa að yfirlýsingunni.