Norðurlöndin og Eistland standa saman að milljónaframlagi til rannsókna á covid-19

03.11.20 | Fréttir
Covid-19
Ljósmyndari
Scanpix
Hafin eru fimm norræn rannsóknarverkefni um covid-19 þar sem unnið er úr norrænum heilbrigðisgögnum sem eru einstök. Þessar rannsóknir stuðla að því að bæta þekkingu á covid-19 sem gagnast ekki aðeins Norðurlöndum heldur öllum heiminum.

Norðurlöndin standa saman að því að styrkja rannsóknir á covid-19 til þess að búa sig komandi heimsfaraldra og ýtir því úr vör fimm nýjum rannsóknarverkefnum sem ætlað er að rannsaka covid-19 í tengslum við allt frá meðgöngu til reykinga og andlega erfiðleika. Skapa á nýja þekkingu sem ætlað er að efla baráttuna gegn covid-19-faraldrinum á grundvelli heilbrigðisgagna sem þegar eru fyrir hendi. Vísindafólk frá öllum Norðurlöndum og Eistlandi taka þátt í þessu umfangsmikla samstarfsverkefni sem um 53 milljónum norskra króna hefur verið veitt til.

„Við erum afar ánægð með að Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum skuli á skömmum tíma hafa tekist að afla fjár til sameiginlegs átaks til rannsókna á covid-19 undir stjórn NordForsk. Rannsóknirnar byggjast á einstökum gögnum okkar, heilbrigðisgögnum og sjúkraskrám. Þær munu stuðla að því að skapa nýja þekkingu á því hvernig covid-19-smit hefur áhrif á heilsu okkar og hvernig við í framtíðinni getum nýtt þekkingu okkar á heimsfaraldrinum sem nú stendur yfir,“ segir Maria Nilsson, sérfræðiráðgjafi hjá Nordforsk.

Rannsókn um meðgöngu og Covid-19

Í einu verkefnanna verða skoðaðar meðgöngur vegna þess að nú eru takmarkaðar upplýsingar fyrir hendi um megöngu og covid-19. Í mörgum löndum hafa barnshafandi konur verið skilgreindar í áhættuhópi í varúðarskyni og mælt með því að þær setji sig ekki í hættu á að smitast af covid-19, sérstaklega þegar líður að lokum meðgöngu. 

Vísindafólkið á að rannsaka hvort líkur barnshafandi kvenna á þvi að smitast af covid-19, verða alvarlega veikar af völdum veirunnar og þurfa að leggjast inn á sjúkrahús, séu meiri en kvenna á barneignaaldri sem ekki eru barnshafandi. Auk þess á að rannsaka hvort covid-19 á meðgöngu eykur líkur á meðgöngukvillum, þar með talið fósturláti, og hvort veikindi móður geti haft áhrif á fóstrið.

Arne Flåøyen, framkvæmdastjóri NordForsk, leggur áherslu á að staða Norðurlandanna sé einstök þegar kemur að rannsóknum á covid-19.

„Nú er verið að hefja margháttaðar rannsóknir á covid-19 og margar þeirra beinast að veirunni sjálfri, þróun bóluefna og þróun meðferðar. Þetta eru rannsóknir sem hægt er að gera hvar sem er í heiminum. NordForsk hefur einblínt á rannsóknir sem skapa norrænt notagildi. Þess vegna viljum við styrkja rannsóknir sem aðeins er hægt að gera á Norðurlöndum en gagnast öllum heiminum,“ segir Arne Flåøyen.

Fjármögnun rannsóknanna

NordForsk sem heyrir undir Norrænu ráðherranefndina fjármagnar rannóknarverkefnin um covid-19 ásamt rannsóknarsjóðum frá Norðurlöndunum og Eistlandi: Vísindaráðið í Svíþjóð, Akademían í Finnlandi, Nýsköpunarsjóðurinn í Danmörku, Rannsóknarráðið í Noregi, Rannís á Íslandi og Rannsóknarráð Eistlands.