Norðurslóðir og loftslagsmál á dagskrá á fundum Norðurlandaráðs í Nuuk

09.09.18 | Fréttir
Rød båt utenfor Ilulissat
Photographer
Silje Bergum Kinsten/norden.org
Loftslagsmál og norðurslóðir verða í brennidepli á fundum Norðurlandaráðs dagana 12. til 13. september, en fundirnir marka upphaf á pólitísku starfi haustsins. Fundirnir verða haldnir í Nuuk á Grænlandi, þar sem ummerkin um hlýnun jarðar eru greinileg. Það endurspeglast jafnframt í dagskrá fundarins.

Meðal dagskrárliða er fundur fyrir Norðurlandaráð í heild sinni, þann 13. september, þar sem þátttakendur geta hlustað á tvo fyrirlestra undir titlinum Loftslagsbreytingar – það sem gerst hefur og það sem áætlað er að gerist. Fyrirlesararnir tveir eru Thomas Juul Pedersen, rannsakandi hjá Náttúrufræðistofnun Grænlands og Nils Westergaard, yfirmaður málefna hafsvæða hjá Arktisk Kommando, sem er norðurslóðadeild innan danska hersins og sér um eftirlit á Grænlandi.

Það er mikilvægt fyrir okkur stjórnmálafólk að fá raunsannar og áreiðanlegar upplýsingar um loftslagsbreytingar. Þær getum við fengið á Grænlandi, þar sem vísindafólk – og jafnvel almennir borgarar – finna fyrir hlýnuninni á eigin skinni.

Á þessum tveimur fundadögum koma einnig saman flokkahópar Norðurlandaráðs, forsætisnefnd og nefndirnar fjórar, og þar skipa umhverfismál og norðurslóðir einnig sess í dagskránni. Í norrænu sjálfbærninefndinni er meðal annars fjallað um spurningar um siglingaöryggi á hafsvæðum norðurslóða, minnkun losunar í siglingum, hlutverk neytenda í baráttunni gegn loftslagsbreytingum, sem og þátttöku Norðurlandaráðs í loftslagsráðstefnunni COP24 í desember.

- Það er mikilvægt fyrir okkur stjórnmálafólk að fá raunsannar og áreiðanlegar upplýsingar um loftslagsbreytingar. Þær getum við fengið á Grænlandi, þar sem vísindafólk – og jafnvel almennir borgarar – finna fyrir hlýnuninni á eigin skinni. Lofslagsmál eru okkur öllum mikilvæg og því settum við hafsvæði, umhverfismál og öryggi í forgang undir formennsku Norðmanna í Norðurlandaráði árið 2018, segir Michael Tetzschner, forseti Norðurlandaráðs.

Nefnd fjallar um börn í áhættuhópum  

Á fundunum í september verða einnig til umræðu önnur málefni er varða Grænland. Norræna hagvaxtar- og þróunarnefndin mun til dæmis kynna sér ferðamennsku á norðurslóðum.

Þar að auki mun norræna velferðarnefndin gera því skil hvernig starfi að málefnum barna og ungmenna í áhættuhópum miðar fram. Nefndin mun standa fyrir málþingi þar sem hægt verður að heyra um hvernig unnið er með beinum hætti með Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna á Grænlandi. Grænland verður einnig á dagskrá hjá menningar- og menntamálanefndinni.

Þetta er í fyrsta sinn frá stofnun Norðurlandaráðs, árið 1952, sem ráðið allt hittist á Grænlandi. Fundirnir í september marka upphaf á pólitísku starfi haustsins, sem nær svo hámarki á 70. þingi Norðurlandaráðs í Osló, dagana 30. október til 1. nóvember.

Norðurlandaráð er þinglegur vettvangur opinbers samstarfs Norðurlanda. Ráðið skipa 87 þingmenn frá löndunum fimm, ásamt Grænlandi, Færeyjum og Álandseyjum.

Fjölmiðlafundur verður haldinn í Inatsisartut, fjölmiðlaherbergi Naalakkersuisuts, þann 13.9 kl. 17.15. Skráningar berist til Pipaluk Lind, pipaluk@napa.gl, +299 59 61 44 eða Matts Lindqvist matlin@norden.org, +45 29 69 29 05