Norræn nýsköpun í Bandaríkjunum

17.05.23 | Fréttir
 Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Islands minister for uddannelse, forskning og innovation
Photographer
National Nordic Museum/Jim Bennett

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra Íslands  

Fulltrúar norræns og norður-amerísks atvinnulífs komu saman á ráðstefnunni Nordic Innovation Summit í Seattle til að ræða lausnir sem í senn eru viðskiptalega hagkvæmar og greiða fyrir grænum umskiptum. Þetta tvennt helst nefnilega í hendur samkvæmt Nordic National Museum sem heldur ráðstefnuna.

Til að komast á milli staða í Nordic National Museum í Seattle í Bandaríkjunum þarf að fara yfir glerbrýr í sex metra hæð. Brýrnar tákna það örlagaríka skref sem norrænir innflytjendur þurftu að taka fyrir um það bil 200 árum til þess að freista gæfunnar hinum megin Atlantshafsins. Nú eru það ekki norrænir innflytjendur heldur norrænar nýsköpunarlausnir sem fluttar eru austur um haf. Tilefnið er hin árlega ráðstefna Nordic Museums, Nordic Innovation Summit, sem nú er nýafstaðin. Þar kynntu fyrirtæki frá fimm norrænum löndum nýjustu verkefni sín í tengslum við græn umskipti í heiminum.

Samkeppnishæf Norðurlönd

Norræna ráðherranefndin hefur stutt ráðstefnuna fjárhagslega frá árinu 2018 í gegnum áætlun sína, Nágrannar í vestri. Þar gefst tækifæri til að vekja athygli á Norðurlöndum, kynna grænar norrænar lausnir á norður-amerískum markaði og þannig stuðla að því að framtíðarsýnin fyrir árið 2030 um samkeppnishæf og græn Norðurlönd verði að veruleika. Íslendingar veita Norrænu ráðherranefndinni forystu í ár og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, var á meðal aðalræðumanna á ráðstefnunni og lagði hún áherslu á þau samkeppnistækifæri sem í ráðstefnunni felast:

„Á ráðstefnunni verða til ný tengsl og hún styrkir samband Norðurlanda í heild við Bandaríkin og skapar tækifæri til samstarfs í atvinnulífinu sem gagnast báðum aðilum,“ sagði Áslaug Arna.

 

Árangur í rekstri helst í hendur við grænar lausnir

Yfirskrift ráðstefnunnar í ár er Sustaining Sustainability og útgangspunkturinn er að mikil áhrif á umhverfislega og félagslega þætti og stjórnunarhætti (EGS) til lengri tíma skarist ekki við árangur í rekstri heldur séu þau í raun mikilvægur drifkraftur hans. Norræn fyrirtæki sýndu mörg dæmi um þetta á ráðstefnunni. Eitt þeirra kom frá sænska fyrirtækinu H2 Green Steel sem framleiðir stál og hefur dregið úr koldíoxíðslosun frá framleiðslunni um 95%. Henrik Henriksson, forstjóri H2 Green Steel, segir fyrirtækið staðsett í Svíþjóð en að nú sé tímabært að færa út kvíarnar og halda innreið sína á norður-amerískan markað og að þessi ráðstefna skapi tækifæri til þess.

„Við horfum til Washington-ríkis með útrás í huga því þar eru aðstæður okkur hagstæðar, m.a. með tilliti til stöðugs framboðs á vatnsorku sem skiptir okkur miklu máli, en einnig þegar kemur að öðrum þáttum svo sem þekkingu og innviðum,“ segir Henrik Henriksson.


 

Við horfum til Washington-ríkis með útrás í huga því þar eru aðstæður okkur hagstæðar, m.a. með tilliti til stöðugs framboðs á vatnsorku sem skiptir okkur miklu máli, en einnig þegar kemur að öðrum þáttum svo sem þekkingu og innviðum.

Henrik Henriksson, forstjóri H2 Green Steel

Vettvangur sem gagnast báðum

Það er eðlilegur þáttur í starfsemi The Nordic Museum, sem heldur ráðstefnuna, að skapa vettvang þar sem norræn og norður-amerísk fyrirtæki geta komið saman. Að sögn Erics Nelson, forstjóra Nordic Museum, er það tilgangur stofnunarinnar að miðla norrænni menningu og sögu ásamt því að tengja saman norræna og norður-ameríska aðila. Í þetta sinn er þemað nýsköpun og sjálfbærni í atvinnulífinu. Og það er eftir miklu að slægjast fyrir báða aðila. Eric bendir á að það sem Norðurlönd hafi upp á að bjóða felist oft í nýsköpun, jafnrétti og gagnsæi. Á móti geta norður-amerískir aðilar boðið upp á innsýn í gríðarstóran og flókinn markað ásamt aðferðum til að færa út kvíarnar. Hann undirstrikar að allt eigi þetta heima innan ramma hins græna:

„Fyrirtæki geta náð miklum árangri og jafnframt verið sjálfbær,“ segir Eric Nelson, forstjóri Nordic Museum.

The National Nordic Museum

National Nordic Museum var stofnað árið 1979 og er eina stofnunin af þessari stærðargráðu í Bandaríkjunum sem hverfist um sögu og menningu Norðurlanda í heild sinni (Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs, Svíþjóðar, Færeyja, Grænlands, Álandseyja og Samalands) og arfleifð norrænna innflytjenda í Bandaríkjunum. Stofnunin er staðsett við höfnina í Seattle í glæsilegri byggingu í norrænum stíl þar sem rekið er bæði safn og samkomustaður. Frá árinu 2018 hefur Norræna ráðherranefndin stutt The National Nordic Museum og The Innovation Summit fjárhagslega.