Norrænar leiðbeiningar um meðhöndlun sorps gagnast íbúum Eystrasaltsríkjanna

09.03.21 | Fréttir
Genbrug
Photographer
Unsplash
Leiðbeiningar um meðhöndlun sorps eru mismunandi frá einu landi til annars og stundum einnig á milli sveitarfélaga. Þetta getur skapað rugling meðal íbúa og haft í för með sér ófullnægjandi sorpstjórnun. Því hefur táknmyndakerfi verið þróað í Danmörku með það fyrir augum að leiðbeina íbúum um förgun sorps. Þessi aðferð hefur nú verið kynnt í Eystrasaltsríkjunum.

„Þetta verkefni er gott dæmi um það hvernig norrænt samstarfsverkefni hefur vaxið og þróast yfir í norrænt-baltneskt verkefni þar sem öll löndin sem að verkefninu koma hafa gagn af því. Með því að búa til auðskiljanlegt kerfi fyrir sorpflokkun getur táknmyndakerfið ýtt undir sjálfbæran og loftslagsvænan lífsstíl íbúa á svæðinu,“ segir Stefan Eriksson, framkvæmdastjóri upplýsingaskrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar í Lettlandi. Það voru dönsku sorphirðusamtökin Dansk affaldsforening, samtök danskra sveitarfélaga og danska umhverfisstofnunin ásamt hönnunarfyrirtækinu Futu sem þróuðu táknmyndakerfið sem notað er við sorpflokkun alls staðar í Danmörku. Verið er að innleiða kerfið í nokkrum af norrænu löndunum og Norræna ráðherranefndin í Lettlandi hyggst nú kynna verkefnið í Eystrasaltsríkjunum ásamt skrifstofum Norrænu ráðherranefndarinnar í Eistlandi og Litháen.

 

Þetta verkefni er gott dæmi um það hvernig norrænt samstarfsverkefni hefur vaxið og þróast yfir í norrænt-baltneskt verkefni þar sem öll löndin sem að verkefninu koma hafa gagn af því.

Stefan Eriksson, framkvæmdastjóri upplýsingaskrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar í Lettlandi

Tímasetningin skiptir öllu máli

Greint var frá reynslunni af innleiðingu danska táknmyndakerfisins á Norðurlöndum í vefmálstofunni „Tips & Tricks for the Baltics!“ sem skrifstofa Norrænu ráðherranefndarinnar í Lettlandi stóð fyrir. Markmiðið með vefmálstofunni var að kynna reynslu Norðurlanda af táknyndum fyrir sorpflokkum og varpa ljósi á ólíka þætti innleiðingar kerfisins á milli landa og hvaða lærdóm megi draga af henni.
„Táknmyndakerfið kom til Eystrasaltsríkjanna á réttum tíma og hagsmunaaðilar hafa mikinn áhuga á að taka þátt í danska táknmyndaverkefninu,“ sagði Maija Kale, verkefnastjóri og ráðgjafi á sviði stafvæðingar og sjálfbærni á skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar í Lettlandi.

„Þótt þetta sé stutt eins árs verkefni vonum við hjá skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar í Lettlandi og í hinum Eystrasaltsríkjunum að sorpflokkunin og sá samdráttur í sorplosun sem henni fylgir muni stuðla að aukinni sjálfbærni.“ 
 

 Stefan Eriksson, framkvæmdastjóri upplýsingaskrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar í Lettlandi

Gagnast einnig framleiðendum

Staðlaðar táknmyndir fyrir sorpflokkun gagnast ekki aðeins almenningi með því að auðvelda þeim að flokka sorp með réttum hætti heldur einnig framleiðendum með því að gera þeim kleift að merkja vörur sínar með greinilegum hætti. Sameiginlegt táknmyndakerfi á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum getur tryggt skýra boðleið fyrir bæði framleiðendur og neytendur.