Norræni umhverfiskyndillinn sendur af stað í dag

17.09.21 | Fréttir
Den nordiske miljøstafet
Photographer
kampagnefoto
Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2021 verða veitt í nóvember og af því tilefni sendir Norðurlandaráð verðlaunagripinn sjálfan af stað í ferðalag til allra Norðurlandanna.

Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs eru ár hvert veitt starfsemi eða einstaklingi á Norðurlöndum sem hefur lyft grettistaki í þágu umhverfisverndar. Í aðdraganda verðlaunaveitingarinnar heiðrar Norðurlandaráð alla aðilasem vinna að því að bæta umhverfið á Norðurlöndum.

Þú getur fylgst með ferðalaginu

Taktu þátt í ferðalaginu þegar umhverfisverðlaunin sækja heim öll norrænu löndin átta. Fram að verðlaunaveitingunni mun umhverfisverðalaunagripurinn ferðast milli norrænna umhverfissamtaka og umhverfisverkefna sem taka gripinn og okkur með út í norræna náttúru og í vinnuna. Mörg mikilvæg umhverfisverkefni hafa orðið til á Norðurlöndum þannig að norræni umhverfiskyndillinn gerir hvort tveggja að heiðra verkefnin og kynna starfsemina og veita með því innblástur milli landanna.

Frá fjörðum og fjöllum á malbikið í borginni

Þema Umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs er breytilegt milli ára. Vinnan að því að bæta umhverfið getur nefnilega verið allt frá því að tína rusl og draga úr matarsóun til hreinna vatns og meiri náttúru í borgunum. Þess vegna mun norræni umhverfiskyndillinn veita einstaka innsýn í mikinn fjölda aðgerða og verkefna, bæði á láði og legi, úti í náttúrunni og í borgunum.

Ferðalag norræna umhverfiskyndilsins hefst á Grænlandi og í framhaldinu ferðast hann svo gegnum öll norrænu löndin. Ferðalaginu lýkur á verðlaunahátíð Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn 2. nóvember þegar vinningshafi Umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2021 verður kynntur.