Norrænir ráðherrar: Standa vörð um frelsi lista og menningar

04.05.22 | Fréttir
De nordiska kulturministrarna träffades på Den Norske Opera & Ballett i Oslo för årets första ministermöte.
Photographer
Siri Ø Eriksen/norden.org

Norrænu menningarmálaráðherrarnir hittust í óperuhúsinu í Ósló á fyrsta ráðherrafundi ársins.

Skilyrði fyrir listrænu frelsi skipta sköpum fyrir lýðræðissamfélög. Norðurlönd eru leiðandi svæði og verða því að taka þetta málefni upp alþjóðlega á tímum þegar þrengt er að slíkum gildum. Þetta var boðskapur norrænu menningarmálaráðherranna á fyrsta ráðherrafundi ársins í Ósló á miðvikudaginn.

Menningarmálaráðherrarnir segja í norrænni samstarfsáætlun sinni að starf, sköpun og dreifing fjölmiðla, lista og menningar verði að vera frjáls.

„Frelsi á sviði lista og menningar er lykilatriði í norrænu menningarsamstarfi og sem svæði í fararbroddi á heimsvísu hyggjumst við nýta öll alþjóðleg tækifæri sem okkur gefast til að leggja áherslu á listrænt frelsi. Í skilvirku lýðræði skiptir sköpum að listirnar hafi frelsi til þess að spegla, ögra og skora á samfélagsgerðir. Við verðum að gera sýnilega sameiginlega vinnu Norðurlandanna að listrænu frelsi en það er mikilvægt skilyrði fyrir opnu og lýðræðislegu samfélagi. Tjáningarfrelsi er grundvallargildi sem við eigum sameiginlegt á Norðurlöndum og mikil þörf er á að standa vörð um frelsi listafólks og annars fólks sem starfar á sviði menningar á tímum þegar við sjáum að þrengt er að þessum gildum,“ segir Anette Trettebergstuen, menningar- og jafnréttismálaráðherra Noregs og formaður Norrænu ráðherranefndarinnar um menningarmál 2022.

Tjáningarfrelsi er grundvallargildi sem við eigum sameiginlegt á Norðurlöndum og mikil þörf er á að standa vörð um frelsi listafólks og annars fólks sem starfar á sviði menningar nú þegar við sjáum að þrengt er að þessum gildum.

Anette Trettebergstuen, menningar- og jafnréttismálaráðherra Noregs

Listrænt frelsi, armslengdarfjarlægð og verkfærahyggja

Umræður ráðherranna um skilyrði til listræns frelsis byggðu á nýbirtri skýrslu, Konstens och kulturens frihet i Norden.

Vakin er athygli á þremur mikilvægum sviðum í þessu þekkingaryfirliti frá Kulturanalys Norden. Þetta eru meginreglan um armslengdarfjarlægð, listrænt frelsi og verkfærahyggja, þ.e. þegar listir eru notaðar sem leið að tilteknum samfélagslegum markmiðum.

„Rannsóknir sýna að ætlast er til að listir og menning á Norðurlöndum stuðli að því að markmiðum sé náð á æ fleiri sviðum samfélagsins. Þessi afstaða setur mark sitt bæði á heildarstefnumótun og stjórnun á afmarkaðri sviðum og hætt er við að hún verði áskorun fyrir listrænt frelsi,“ segir Pelle Amberntsson, verkefnastjóri hjá Myndigheten för kulturanalys sem vann skýrsluna.

Einnig er sýnt fram á að hatur, hótanir og áreitni í garð listafólks og flytjenda lista er raunverulegur vandi í sumum norrænum löndum. Auk þess sýna rannsóknir fram á að skilyrði fyrir því að listir og menning geti verið frjáls og óháð byggi á mörgum þáttum, svo sem markaði, áhorfendum og áheyrendum, flytjendum og hagsmunasamtökum.

Norðurlöndin geta vísað veginn á tímum sem stríð og óróleiki setja mark sitt á

Í landfræðipólitísku samhengi sem einnkennist af stríði og heimsfaraldri og þar sem þrengt er að lýðræðislegum gildum eins og tjáningarfrelsi, fjölmiðlafrelsi og listrænu frelsi eru Norðurlöndin í fararbroddi á mörgum sviðum, einnig samanborið við önnur lönd og svæði heimsins.

„Mikið samfélagslegt traust einkennir norræn samfélög og það skiptir sköpum fyrir samheldnina á svæðinu og fyrir norrænt samstarf. Listir og menning styrkja einmitt þetta og Norðurlöndin geta vísað veginn og staðið vörð um frjálst og opið menningarlíf á tímum sem einkennast af stríði og óróleika,“ segir Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.

Úkraínskum menningararfi verði hlíft

Norrænu menningarmálaráðherrarnir ræddu einnig ástandið í Úkraínu á fundi sínum. Ráðherrarnir áréttuðu mikilvægi þess að úkraínskum menningararfi yrði hlíft. Það verður mikið forgangsmál ráðherranna í norrænu menningarsamstarfi til framtíðar.

Contact information