Norrænir þingmenn og forsætisráðherrar hittast á leiðtogafundi - ræða loftslagsmál

15.10.19 | Fréttir
Nordiska rådets session i Stockholm 2014
Photographer
Johannes Jansson/norden.org

Þingið er í ár haldið í sænska þinghúsinu í Stókkhólmi.

Norrænir þingmenn, forsætisráðherrar og margir ráðherrar aðrir munu hittast á Norðurlandaráðsþingi í Stokkhólmi 29.-31. október. Sjálfbærni og loftslagsmál eru efst á dagskrá en öryggismál fá einnig mikla athygli. Michael Tjernström, einn virtasti vísindamaður Svíþjóðar á sviði loftslagsmála, verður gestafyrirlesari.

Strax á opnunardegi þingsins, á leiðtogafundi hinna 87 þingmanna Norðurlandaráðs og forsætisráðherranna, verða loftslagsmál og sjálfbærni í forgrunni.

Umræðurnar á leiðtogafundinum eru einstakar vegna þess að þetta er eini samnorræni fundurinn þar sem allir forsætisráðherrar Norðurlandanna og þingmenn hittast undir sama þaki og ræða saman. Hér geta norrænu þingmennirnir krafið forsætisráðherrana svara, bæði um loftslagsmál og önnur málefni.

„Ég skora á þingmenn Norðurlandaráðs að nýta tækifærið vel til þess að ögra forsætisráðherrunum á leiðtogafundinum. Það er aðeins á þinginu, einu sinni á ári, sem þingmenn eiga þess kost að spyrja hvaða norræna forsætisráðherra sem er spurninga í opnum umræðum,“ segir Hans Wallmark, forseti Norðurlandaráðs 2019.

Þekktur loftslagsvísindamaður gestafyrirlesari

Athyglinni verður einnig beint að loftslagsmálum á lokadegi þingsins. Þá heldur loftslagsvísindamaðurinn Mikael Tjernström, prófessor í veðurfræði, erindi hjá Norðurlandaráði og á eftir verða umræður.
Einnig verður rík áhersla á ungt fólk í hliðarviðburði á mánudeginum. Þar gefst ungu fólki tækifæri til þess að bera spurningar fram beint til þingmanna Norðurlandaráðs, einnig á sviði loftslagsmála.

Öryggismál mikilvægur þáttur

En umfjöllunarefni þingsins eru ekki bara loftslagsmál og sjálfbærni. Óstöðugt ástand á alþjóðavettvangi setur einnig mark sitt á þingið og öryggismál verða sýnileg í umræðunum.

Meðal annars ætlar ráðið að fjalla um metnaðarfulla nýja stefnu varðandi samstarf um samfélagsöryggi á Norðurlöndum. Í stefnumótunin sem liggur til grundvallar umfjölluninni er að finna margar tillögur að því hvernig norrænu ríkin gætu starfað saman um samfélagsöryggi.

„Öryggis- og varnarmál fá stöðugt meira vægi í norrænu samstarfi og það er ekki að ástæðulausu. Með hliðsjón að því sem nú á sér stað í Miðausturlöndum og óstöðugleikann á pólitískum vettvangi alþjóðlega er rík ástæða til þess að vinna enn nánar saman að öryggismálum á Norðurlöndum,“ segir Hans Wallmark.

Á miðvikudeginum leggja bæði norrænu utanríkisráðherrarnir og varnarmálaráðherrarnir fram skýrslur sínar fyrir fulltrúa á þinginu. Auk þess verða á dagskrá fleiri málefni sem varða flóttafólk, fólksflutninga og aðlögun, meðal annars tvær tillögur sem varða samstarf um átak gegn heiðurskúgun.

Verðlaunahátið á þriðjudeginum

Þriðjudagskvöldið 29. október verður einnig hin hátíðlega verðlaunahátíð Norðurlandaráðs í tónlistarhúsinu í Stokkhólmi, Konserthuset. Þar verða veitt verðlaun í fimm flokkum.

 

Norðurlandaráð heldur þing sitt einu sinni á ári á haustin. Þingið í þinghúsinu í Stokkhólmi er hið 71. í röðinni. Norðurlandaráð er formlegur samstarfsvettvangur norrænu þjóðþinganna. Fulltrúarnir 87 eru frá Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi, Svíþjóð, Álandseyjum, Færeyjum og Grænlandi.