Nýr norrænn sérfræðihópur í innflytjendamálum

15.03.22 | Fréttir
Intergration
Photographer
Johannes Jansson
Sérfræðingar á sviði aðlögunarmála sem fæddir eru utan Norðurlanda en búa í norrænu landi munu veita Norrænu ráðherranefndinni ráðgjöf varðandi aðlögun flóttamanna og innflytjenda á grundvelli sérfræðiþekkingar sinnar og eigin reynslu af aðlögunarmálum á Norðurlöndum.


Í dag tekur til starfa nýr norrænn sérfræðihópur í innflytjendamálum sem hefur að markmiði að brúa betur bilið á milli aðgerða yfirvalda og þarfa flóttamanna og innflytjenda. Meðlimir nýja hópsins fá það verkefni að nýta sérfræðiþekkingu sína til að varpa ljósi á úrlausnarefni og lausnir fyrir yfirvöld og aðra sem koma að aðlögunarmálum á Norðurlöndum. Sérfræðingarnir leggja til fjölbreytta þekkingu, nýjar leiðir, rannsóknir og bestu aðferðir í norrænu samstarfi um aðlögunarmál. Marte Mjøs Persen, ráðherra atvinnu- og aðlögunarmála í Noregi, fagnar framtakinu og hefur miklar væntingar til þess:

„Með tilkomu norræns sérfræðihóps í innflytjendamálum norræn stjórnvöld og samstarfsstofnanir úrræði sem þau geta leitað til eftir mati og ráðum. Það er mikilvægt fyrir yfirvöld að eiga samtal við sérfræðinga sem eru í nánu sambandi við þau sem aðgerðum í aðlögunarmálum er ætlað að koma til móts við. Þetta eflir þekkingargrunn okkar og stuðlar að bættu samstarfi Norðurlanda í aðlögunarmálum. Þess vegna fagna ég stofnun norræns sérfræðihóps í innflytjendamálum og hlakka til að fá ný sjónarhorn og ráðgjöf sem vonandi kemur frá hópnum,“ segir Marte Mjøs Persen, ráðherra atvinnu- og aðlögunarmála.

Öll þurfa að vera tilbúin að læra og gefa eftir

Hópinn skipa 16 fulltrúar sem eiga það sameiginlegt að hafa fæðst utan Norðurlanda og flutt til norræns lands eða sjálfsstjórnarsvæðis. Meðlimir hópsins búa yfir sérfræðiþekkingu á málefnum sem varða aðlögun flóttafólks og innflytjenda. Rétt eins og norski atvinnu- og aðlögunarmálaráðherrann hafa meðlimir hópsins miklar væntingar:  


„Aðlögun snýst um að mynda tengsl á milli fólks með ólíkan bakgrunn. Og hún gengur í báðar áttir. Bæði meirihlutahópar og minnihlutahópar þurfa að taka þátt og vera reiðubúnir að læra og gefa eftir. Það er hugarfarið sem ég tek þátt í þessu starfi með og ég vænti þess að hópurinn geti hjálpað til við að skapa traust og samskipti á milli samfélaga, hópa og sviða og þannig lagt sitt af mörkum til aðlögunarmála á Norðurlöndum, segir Ahmed Abdirahman, meðlimur hópsins sem einnig er stofnandi og framkvæmdastjóri Global Village Foundation í Svíþjóð.

 

Aðlögun og félagslega sjálfbær Norðurlönd 

Stofnun norræna hópsins er hluti af nýrri áætlun í aðlögunarmálum sem gildir til ársins 2024. Áætlunin er byggð á reynslu og árangri Norðurlanda á undanförnum sex árum af aðlögun flóttafólks og innflytjenda. Hópurinn stuðlar að Framtíðarsýn okkar 2030, einkum því markmiði að skapa félagslega sjálfbær Norðurlönd.