Ráðherrar vilja vita skoðun ungs fólks á norrænni byggðastefnu

10.05.22 | Fréttir
unga människor i samtal
Photographer
Johnér
Hvað þarf til þess að norrænar landsbyggðir séu eftirsóttarverðar til að búa og starfa á? Norrænu ráðherrarnir sem fara með byggðamál vilja vita hvernig ungt fólk í dreifbýli myndi svara þessari spurningu. Á fundi sínum fóru þeir einnig yfir nýstárlegar lausnir sem koma nú fram víðs vegar á Norðurlöndum til að tryggja grunnþjónustu í dreifbýli.

Fjarlægð til næstu matvöruverslunar, apóteks, bókasafns eða skóla eykst jafnt og þétt eftir því sem nær dregur nyrðri landamærum Svíþjóðar og Finnlands og eftir því sem vestar er komið í Danmörku.

Í Noregi er ekki um eins skýrt landfræðilegt mynstur að ræða en þar munar einnig miklu á sveitarfélögum í dreifbýli og borgum.

 

„Það skiptir máli að fólk hafi aðgang að nauðsynlegri þjónustu í heimabyggð sinni. Alls staðar á Norðurlöndum sjáum við áhugaverð dæmi um að þjónustu og starfsstöðvum sé safnað saman og að nýtt rafrænt þjónustuform einfaldi landsbyggðarbúum lífið. Það veitir fólki öryggi og er forsenda þess að fólk geti búið þar sem það kýs,“ segir Sigbjørn Gjelsvik, ráðherra sveitarstjórnar- og byggðamála í Noregi og gestgjafi á fundi norrænu ráðherranna þann 10. maí.

Fá ungt landsbyggðarfólk að borðinu

Nú vilja norrænu ráðherrarnir fá ungt landsbyggðarfólk að borðinu og heyra hvernig því þykir landsbyggðin á Norðurlöndum þurfa að þróast til að það vilji sjálft búa þar og starfa.

Ný samantekt um þörfina á grunnþjónustu á landsbyggðinni á Norðurlöndum lá umræðum ráðherranna til grundvallar.

Einnig fjölluðu ráðherrarnir um dæmi frá sínum eigin löndum um það hvernig tryggja megi opinbera þjónustu og einkarekna, og þar með auka tiltrú íbúa á að hægt sé að fjárfesta, búa og starfa á landsbyggðinni.

Sænskar þjónustuskrifstofur og danskt nám á landsbyggðinni

Anna-Caren Sätherberg, landsbyggðarráðherra í Svíþjóð, greindi frá fjölgun opinberra þjónustuskrifstofa á landsbyggðinni. Skrifstofunum er ætlað að veita íbúum á landsbyggðinni aðgang að þjónustu yfirvalda svo sem Försäkringskassan, Skatteverket og Pensionsmyndigheten.

Sem stendur eru 116 þjónustuskrifstofur staðsettar víðs vegar um Svíþjóð og fleiri eru væntanlegar.

„Ég er sannfærð um að viðvera ríkisins í landinu öllu sé mikilvæg í því skyni að sameina landið með tilliti til trausts og áreiðanleika,“ segir Anna-Caren Sätherberg.

Í Danmörku er unnið að því að nám í velferðargreinum og háskólanám verði aðgengilegt á fleiri svæðum. Það er til þess að bregðast við þeirri áskorun sem það er að ráða til starfa fólk í umönnunarstörf á landsbyggðinni og einnig hæft fólk til fyrirtækja utan borgasvæðanna.

Fjarvinnan heldur áfram

Reiknað er með að hlutfall Norðurlandabúa sem stunda fjarvinnu verði áfram hátt í kjölfar faraldursins.

Samkvæmt norrænu rannsóknarstofnuninni Nordregio eru mikil tækifæri til fjarvinnu á Norðurlöndum þar sem unnt væri að sinna 37 prósentum allra starfa, eða um 9,5 milljónum starfa, í fjarvinnu.

Aukin þróun í átt til dreifðs aðseturs, þ.e. að fólk búi og starfi á fleiri en einum stað, gefur okkur einnig ný sjónarhorn á þarfir og þróun landsbyggðarinnar.

 

Þróunin getur skapað vöxt á landsbyggðinni

Það þýðir til dæmis að stafrænar lausnir verði ekki einungis leið til að bæta grunnþjónustu á landsbyggðinni heldur einnig að fólk geti menntað sig og sinnt fjarvinnu úr sumarbústaðnum.

Ráðherrarnir höfðu hliðsjón af fyrstu hlutaskýrslunni um dreift aðsetur sem þeir höfðu óskað eftir frá norrænu rannsóknarstofnuninni Nordregio árið 2021 og ræddu hvernig hægt sé að styðja við þá þróun á Norðurlöndum til að skapa sjálfbæran vöxt á landsbyggðinni.