Rætt var um grænar flugsamgöngur, skemmtiferðaskip og plastúrgang á fundi norrænu umhverfis- og loftlagsmálaráðherranna

28.10.20 | Fréttir
Plastic Change
Photographer
Plastic Change
Plastúrgangur er brýnt og vaxandi vandamál sem bregðast verður við sem fyrst. Þetta eru skilaboð norrænu umhverfis- og loftlagsmálaráðherrunum eftir fund dagsins í Norrænu ráðherranefndinni. Á fundinum var einnig rætt um sjálfbæra þjónustu við skemmtiferðaskip og grænni flugsamgöngur og þá nýttu ráðherrarnir tækifærið til að ræða loftlagsmarkmið ESB fyrir árið 2030.

Frá árinu 2016 hafa Norðurlönd tekið þátt í umræðunni um nauðsyn þess að gera alþjóðasamning um plastúrgang og örplast í höfum. Á ráðherrafundi dagsins undirrituðu ráðherrar umhverfis- og loftlagsmála því einnig yfirlýsingu um nauðsyn þess komast að samkomulagi um samningsumboð fyrir gerð slíks samning á fimmtu umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í febrúar 2021 og í febrúar 2022. Í yfirlýsingu ráðherranna er einnig lögð áhersla á nauðsyn þess að virkja ríkisstjórnir sem og einkaaðila í vinnunni sem miðar að hringrásarhagkerfi, þar sem bæði sjálfbær framleiðsla og notkun hafa áhrif á vistferil plastafurða.

Forysta Norðurlanda um gerð samnings um plastmengun hefur skilað árangri á síðastliðnu eina og hálfa ári.

Sveinung Rotevatn, loftslags- og umhverfismálaráðherra Noregs

Yfirlýsingunni verður fylgt eftir með tveimur norrænum skýrslum sem fjalla um tillögur um þekkingarsköpun og fjármögnunarleiðir fyrir hugsanlegan alþjóðasamning. Norræna ráðherranefndin hefur nýlega gefið út skýrslu um beinar aðgerðir og úrræði sem þyrftu að vera hluti af alþjóðasamningi um plastúrgang og örplast í höfum.

 

„Forysta Norðurlanda um gerð samnings um plastmengun hefur skilað árangri á síðastliðnu eina og hálfa ári. Norðurlönd vilja halda áfram að vera í forystuhlutverki í þessari vinnu til að tryggja gott samningsumboð til þess að samningurinn skili árangri. Í skýrslunni koma fram áhugaverðar tillögur og ég hlakka til að ræða þær við kollega mína frá öðrum löndum og svæðum,“ segir Sveinung Rotevatn, loftslags- og umhverfismálaráðherra Noregs.

Sjálfbær þjónusta við skemmtiferðaskip og grænar flugsamgöngur

Sjálfbær ferðaþjónusta skemmtiferðaskipa og grænar flugsamgöngur hafa verið sett á dagskrá í formennsku Danmerkur í Norrænu ráðherranefndinni. Samvinna um endurskipulagningu í samgöngumálum er einn liður í samstarfi Norðurlanda um að verða að sjálfbærasta og samþættasta svæði heims.

 

Á fundinum undirrituðu ráðherrarnir yfirlýsingu sem staðfestir að Norðurlönd taki forystu og vinni að því að draga úr mengun frá skemmtiferðaskipum og gera Norðurlönd að sjálfbærum áfangastað fyrir skemmtiferðaskip. Þeir staðfestu einnig nauðsyn þess að minnka hljóð- og loftmengun frá skemmtiferðaskipum í höfnum. Mikilvægur hluti af lausninni eru landtengingar til skipa og markmiðið er að þær verði að finna í öllum stórum höfnum fyrir árið 2030.

Saman geta Norðurlöndin skapað sjálfbærasta áfangastað heims fyrir skemmtiferðaskip. Nú köllum við eftir því að borgir, hafnir og skemmtisiglingaþjónustur taki þátt í því með okkur að vinna að þessu markmiði.

Lea Wermelin, umhverfisráðherra Danmerkur

„Við þurfum að koma skemmtiferðaskipum á grænni braut. Þess vegna hef ég ásamt öðrum umhverfisráðherrum á Norðurlöndum gefið út yfirlýsingu sem kallar eftir því að landtengingum verði komið upp í stærstu skemmtiferðaskipahöfnum Norðurlanda og Eystrasalts fyrir árið 2030. Saman geta Norðurlöndin skapað sjálfbærasta áfangastað heims fyrir skemmtiferðaskip. Nú köllum við eftir því að borgir, hafnir og skemmtiferðaskip taki þátt í því með okkur að vinna að þessu markmiði,“ segir umhverfisráðherra Danmerkur, Lea Wermelin

 

Undir formennsku Danmerkur í Norrænu ráðherranefndinni verður síðar á þessu ári kynntur vegvísir með tillögum um beinar aðgerðir sem geta hjálpað okkur að ná þessu markmiði.

Á fundinum var einnig rætt um mögulega samvinnu um græn umskipti í flugsamgöngum. Ýmsar tillögur úr rannsóknarskýrslu sem unnin var fyrir Norrænu ráðherranefndina voru ræddar, meðal annars tækifæri til að auka notkun sjálfbærs eldsneytis í flugiðnaði á Norðurlöndum og hvetja til notkunar rafrænna loftfara.

Loftlagsmarkmið ESB fyrir árið 2030

Á ráðherrafundinum var einnig rætt um þróun loftlagsmarkmiða ESB fyrir árið 2030. Ráðherrarnir ræddu hvernig Norðurlönd geta þrýst á um að markmiðin verði í samræmi við Parísarsamkomulagið og hvernig auknar kröfur myndu stuðla að skilvirkari umskiptum.

 

Að fundinum loknum fór fram stafrænn samráðsfundur með Norrænu sjálfbærninefndinni.

Landtengingar í höfnum: Tengja skemmtiferðaskip við raforkudreifikerfi í höfnum til þess að þau séu ekki knúin af eigin dísilvélum. Landtengingar draga úr hljóðmengun og minnka losun koltvísýrings, níturoxíða og svifagna frá dísilvélum þeirra stórlega.