Rafræn læknisþjónusta á netinu á einnig að ná til eldra fólks

26.01.21 | Fréttir
Ældre og digitalisering
Photographer
Ritzau/Scanpix
Notkun rafrænnar læknisþjónustu á netinu sem valkostur á móti því að heimsækja lækni hefur stóraukist víða um Norðurlönd síðustu ár en hópur aldraðra hefur dregist aftur úr í þessari þróun. Þetta veldur velferðarnefnd Norðurlandaráðs áhyggjum en hún hefur farið þess á leit við Norrænu ráðherranefndina að varpað verði nánara ljósi á málefnið þannig að allt fólk hafi sömu tækifæri til lækniþjónustu.

„Rafræn heilbrigðisþjónusta er á margan hátt gagnleg og kemur sér vel fyrir íbúa í öllum kimum Norðurlanda en hópur eldra fólks á þó í erfiðleikum með að nýta sér þessa nýju tækni. Stjórnvöld verða að liðsinna þessu fólki og til þess að það sé hægt verðum við að þekkja betur áskoranir og mögulegar lausnir hvert hjá öðru. Enginn eldri borgari á að þurfa að verða aleinn eftir,“ segir Eva Lindh, fulltrúi í velferðarnefnd. Augljóst er að hindrun er í vegi þess að nota þessa rafrænu þjónustu meðal eldra fólks. Þetta sést meðal annars í skýrslu Svenska Socialstyrelsens „Tillståndet och utvecklingen inom hälso- och sjukvård 2020“. Þar kemur fram að aðeins fjögur prósent fólks á aldrinum 66 til 75 ára hafði árið á undan nýtt sér rafræna þjónustu til þess að hitta lækni. 
 

Kórónuveirufaraldurinn undirstrikar áskorunina

Kórónuveirufaraldurinn hefur leitt til þess að talsverður hópur fólks hittir ekki lækni sinn eins oft og áður. Sú staða sýnir mikilvægi rafrænna lausna. Að minnsta kosti ef þær eru nýttar. Og þá erum við aftur komin að kjarna málsins sem er að stór hluti eldra fólks notfærir sér þær ekki. Auk þess er hópur fólks með styttri menntun og lág laun sem nýtir sér ekki heldur þennan rafræna kost. Ef þessir hópar hafa ekki sama aðgang að læknisþjónustu og annað fólk geta afleiðingarnar orðið að þeir eiga á hættu að lenda aftar í röðinni en aðrir einstaklingar sem hugsanlega eru ekki með jafnaðkallandi vanda. Þetta veldur velferðarnefndinni áhyggjum.


„Norrænu ríkisstjórnirnar verða að ná öllum um borð í bátinn sem stefnir í átt til rafrænnar læknisþjónustu á netinu og annarrar rafrænnar heilbrigðisþjónustu. Því báturinn leggur úr höfn, jafnvel þótt einhver standi eftir á bryggjunni,“ segir nefndarmaðurinn Eva Lindh.

Það er hópur aldraðra sem við við verðum að ná um borð í bátinn sem stefnir á rafrænt heilbrigðiskerfi því hann leggur úr höfn hvernig sem fer

Eva Lindh, velferðarnefnd Norðurlandaráðs 

Flokkahópur jafnaðarmanna í Norðurlandaráði

Flokkahópur jafnaðarmanna í Norðurlandaráði lagði fram tillöguna um að varpa ljósi á þetta málefni og hlýtur nú stuðning velferðarnefndar sem á fundi dagsins ákvað að fara þess á leit við Norrænu ráðherranefndina að ýtt yrði úr vör könnun með tilliti til jafnræðis varðandi aðgang að heilbrigðisþjónustu, ávísun sýklalyfja og annarrar læknisþjónustu.