Síðustu forvöð: Tilnefningar til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2023

01.05.23 | Fréttir
Becca Mchaffie/Unsplash
Photographer
Becca Mchaffie/Unsplash
Veist þú um einhvern sem ætti að hljóta umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs? Þá eru nú síðustu forvöð. Frestur til að skila tilnefningum rennur út þriðjudaginn 9. maí.

Þema ársins er sjálfbær framleiðsla og nýting textílefna og verðlaunin verða veitt aðila sem stuðlar að kerfislægum breytingum á textíliðnaði, textílþjónustu (service-design) og notkun á textílefnum í átt til sjálfbærni á heimsvísu. Þemað nær því til líftíma textíls í heild, allt frá framleiðslu á hráefni til hönnunar, sölu og endurnýtingar.

Með þema ársins er ætlunin vekja athygli á því að Norðurlönd geti verið í fararbroddi í þeim umskiptum sem nauðsynleg eru í virðiskeðju textílefna í heild sinni.

„Við erum í þeirri stöðu að þurfa að draga úr notkun, lengja líftíma textílefna og taka upp viðskiptalíkön í anda hringrásarhagkerfis. Við vonum að umhverfisverðlaunin geti átt þátt í að sýna fram á að textíliðnaðurinn geti verið sjálfbær og að nú þegar séu til góð fordæmi sem sækja megi innblástur til,“ segir Cilia Indahl, formaður dómnefndar umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs.

Hver sem er getur sent inn tillögur að tilnefningum.

Veist þú um norrænt fyrirtæki, samtök eða einstakling sem verðskuldar verðlaunin í ár? Tillögur að tilnefningum til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs skulu berast í seinasta lagi 13. maí. Vinningshafinn hlýtur að launum 300 þúsund danskar krónur.

Tilkynnt verður um verðlaunahafann 31. október 2023 á þingi Norðurlandaráðs í Ósló í Noregi.

Hver geta hlotið tilnefningu? 

Verðlaunin eru veitt norrænu fyrirtæki, samtökum eða einstaklingi sem með fyrirmyndarvinnubrögðum hefur gert tillit til náttúru og umhverfis að föstum þætti í rekstri sínum eða starfi, eða sem á annan hátt hefur unnið stórvirki fyrir náttúru og umhverfi. Verðlaunahafinn þarf að búa yfir norrænu sjónarhorni og starfa á Norðurlöndum og/eða í tengslum við aðila utan Norðurlanda.

Um umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs

Verðlaunin voru fyrst veitt árið 1995 og markmiðið með þeim er að efla vitund um náttúru- og umhverfisvernd á Norðurlöndum. Hver sem er getur tilnefnt. Umhverfisverðlaunin eru veitt norrænu fyrirtæki, samtökum eða einstaklingi sem öðrum til eftirbreytni hefur tekist að samþætta umhverfissjónarmið starfsemi sinni eða framtaki eða á annan hátt lyft grettistaki í þágu umhverfisverndar. Framlag hins tilnefnda verður að hafa norrænt sjónarhorn.

Þema verðlaunanna styður við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun númer 12, 9 og 17.