Skilaboð stjórnsýsluhindranaráðsins til ríkisstjórnarinnar: Takið tillit til landamærasvæðanna við úttekt á eftirliti með skilríkjum
„Við höfum skilning á því að það þarf pólitískar aðgerðir til að halda uppi lögum og reglu og vernda þjóðaröryggi. En við biðjum ykkur um að gera þetta ekki á kostnað landamærasvæðanna,“ skrifar stjórnsýsluhindranaráðið sem vinnur að frjálsri för á Norðurlöndum, í bréfi sínu til ríkisstjórnarinnar.
Hinn svokallaði Tidö-samningur sem flokkarnir í hinni nýju ríkisstjórn Svíþjóðar, ásamt stuðningsflokknum Svíþjóðardemókrötum, komu sér saman um inniheldur tillögur um að skoðað verði að taka aftur upp skilríkjaeftirlit á rútu-, lestar- og flugstöðvum þar sem farþegar koma til Svíþjóðar. Tilgangurinn er að koma í veg fyrir ólöglega komu innflytjenda til landsins og skipulagða glæpastarfsemi á milli landa.
Fyrrverandi ríkisstjórn var með svipaða tillögu en féll frá þeim fyrirætlunum eftir mikla gagnrýni frá aðilum á landamærasvæðunum sem og á landsvísu.
Miklar afleiðingar
Í bréfi sínu nefnir stjórnsýsluhindranaráðið Eyrarsundssvæðið sem dæmi um svæði sem landamæraeftirlit hefur komið sér illa fyrir, m.a. í tengslum við flóttamannavandann eftir 2015. Eftirlitið hafði í för með sér miklar tafir og erfiðleika fyrir þá rúmlega 18 þúsund einstaklinga sem þá ferðuðust til og frá vinnu eða námi yfir Eyrarsundið.
Úttekt sem héraðsstjórnin á Skáni lét vinna fyrir forsætisráðuneyti Svíþjóðar leiddi m.a. í ljós neikvæð áhrif eftirlitsins á sænsk-danska vinnumarkaðinn.
„Nýtt skilríkja- og landamæraeftirlit kemur illa niður á bæði þeim sem ferðast yfir landamæri vegna vinnu og fyrirtækjum sem eru með starfsemi þvert á landamæri. Landamærasvæðin í Svíþjóð eru mjög háð vel vel virkum sameiginlegum vinnumörkuðum, ekki síst vinnuveitendur og þeir u.þ.b. 45 þúsund norrænu vinnuferðalanga sem þetta hefur áhrif á,“ segir Vibeke Hammer Madsen, formaður stjórnsýsluhindranaráðsins árið 2022.
Gengur gegn framtíðarsýninni
Hammer Madsen bendir einnig á framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndarinnar þar sem markmiðið er að Norðurlönd verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims 2030.
„Hluti af starfinu við að ná markmiðum framtíðarsýnarinnar verður að felast í að ryðja úr vegi hindrunum fyrir vinnuferðalanga og atvinnulífið, ekki reisa nýjar. Í ljósi þess hvetur stjórnsýsluráðið til þess að skilríkjaeftirlit verði ekki tekið upp á neinum landamærasvæðum. Reynsla okkar frá flóttamannavandanum 2015 og heimsfaraldrinum talar sínu máli,“ segir Hammer Madsen.
Árin sem faraldurinn geisaði voru greindar 120 truflanir eða stjórnsýsluhindranir vegna aðgerða og innkomutakmarkana landanna og þær komu verst niður á landamærasvæðunum.
Bent á yfirlýsingu
Í bréfinu til ríkisstjórnarinnar vísar stjórnsýsluhindranaráðið jafnframt til yfirlýsingar norrænu samstarfsráðherranna frá því í júní 2022. Þar segir meðal annars að löndin muni hafa náið samráð og skiptast á upplýsingum áður en teknar eru ákvarðanir innan landanna sem geta haft áhrif á stöðu mála á landamærasvæðunum.
Í bréfinu er ríkisstjórnin einnig hvött til samráðs við stjórnsýsluhindranaráðið og aðila á landamærasvæðunum áður en úttekt er gerð og ákvarðanir eru teknar.
Bréfið var sent til Andreas Carlsson innviða- og húsnæðismálaráðherra, Jessicu Roswall ESB-ráðherra, sem einnig er samstarfsráðherra Norðurlanda, Gunnars Strömmer dómsmálaráðherra og Mariu Malmer Stenergard ráðherra innanríkismála.
Stjórnsýsluhindranaráðið er pólitískt skipuð óháð nefnd sem norræn stjórnvöld hafa falið að greiða fyrir fyrir frjálsri för einstaklinga og fyrirtækja innan Norðurlanda. Skrifstofa stjórnsýsluráðsins er hjá Norrænu ráðherranefndarinnni í Kaupmannahöfn. Ráðið skipa tíu fulltrúar þar sem átta eru frá norrænu löndunum ásamt Álandseyjum, Færeyjum og Grænlandi. Framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar á einnig sæti í ráðinu auk fulltrúa frá Norðurlandaráði.