Faraldurinn reyndist stærsta áskorun Stjórnsýsluhindranaráðsins

21.03.22 | Fréttir
Coronapandemin 2021
Photographer
Ricky Molloy
Heimsfaraldur kórónuveiru var allsráðandi á síðasta starfsári norræna Stjórnsýsluhindranaráðsins. Í faraldrinum bárust Stjórnsýsluhindranaráðinu vel á annað hundrað tilkynningar um raskanir á frjálsri för samkvæmt ársskýrslu fyrir tímabilið 2020/2021.

Stjórnsýsluhindranaráðið hefur ásamt samstarfsaðilum sínum gegnt mikilvægu hlutverki í því að safna saman og tilkynna um truflanir á frjálsri för vegna aðgerða landanna í baráttunni við COVID-19.

Strax þegar faraldurinn hófst og fyrstu ferðatakmarkanirnar voru settar á í mars 2020 hófu upplýsingaþjónustur landamærasvæðanna og Info norden, sem Norræna ráðherranefndin rekur fyrir Stjórnsýsluhindranaráðið, að afla upplýsinga um raskanir á frjálsri för.

Alls 121 röskun

Í ársskýrslu Stjórnsýsluhindranaráðsins fyrir 2020/2021 kemur fram að alls hafi 121 röskun af völdum faraldursins verið komið áfram til norrænu ríkisstjórnanna og annarra aðila sem með beinum hætti geta rutt stjórnsýsluhindrunum úr vegi.

Margar þeirra tengdust erfiðleikum fólks við að komast til og frá vinnu yfir landamæri. Nokkuð sem bitnar ekki aðeins á starfsfólkinu heldur einnig atvinnurekendum.

„Raskanir af þessu tagi mega ekki eiga sér stað í næstu krísu. Norrænu löndin verða að geta tryggt að atvinnulífið sé starfhæft án truflana þvert á landamæri. Atvinnulífið, einkum á landamærasvæðunum, er háð frjálsri för yfir landamæri okkar. Með henni verða til störf og þegar upp er staðið aukin velferð,“ segir Vibeke Hammer Madsen sem gegnir formennsku í Stjórnsýsluhindranaráðinu árið 2022.

Erfið úrlausnarefni

Margt af því sem tilkynnt var um reyndist erfitt að leysa. Löndin fóru ólíkar leiðir í baráttu sinni við kórónuveiruna. Skortur var á norrænni samræmingu en þó tókst að leysa mörg vandamál.

Meðal annars tókst að leysa mál varðandi almannatryggingar vinnuferðalanga sem unnu heima í faraldrinum. Mörg úrlausnarefnanna voru leyst en komust aftur á dagskrá eftir því sem ferðatakmarkanir og aðgerðir landanna breyttust á tímabilinu.

Mikil gremja

En gremjan hefur verið áþreifanleg í faraldrinum, einkum meðal íbúa landamærasvæðanna. Það má ekki síst sjá af þeim þremur spurningakönnunum sem Stjórnsýsluhindranaráðið hefur staðið fyrir þar sem kannað var viðhorf þeirra sem takmarkanir landanna hafa komið niður á.

Yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem svöruðu könnununum nefndu til dæmis að tækifæri til að ferðast yfir landamærin hafi verið skert mikið og að takmarkanirnar hafi valdið miklum áhyggjum.

„Annus horribilis“

Andinn á meðal vinnuferðalanga og íbúa landamærasvæðanna endurspeglast jafnframt í formála ársskýrslunnar sem Bertel Haarder, formaður Stjórnsýsluhindranaráðsins 2020, skrifaði. Hann skrifar meðal annars:

„Árið 2020 var „annus horribilis“, skelfilegt kórónuveiruár sem einkenndist af auknum stjórnsýsluhindrunum og sögulega lítilli samþættingu á meðal Norðurlanda. Þvert á það sameiginlega markmið að Norðurlönd eigi að verða sjálfbærasta og samþættasta svæði í heimi. Og þvert á þann samstarfsanda sem gat af sér vegabréfafrelsi og sameiginlegan vinnumarkað á sjötta áratugnum.“

16 stjórnsýsluhindranir voru afgreiddar

En starfstímabilið 2020/2021 snerist ekki einvörðungu um faraldurinn. Stjórnsýsluhindranaráðið hefur einnig fengist við hefðbundnar stjórnsýsluhindranir.

Markmiðið er að ryðja úr vegi 8–12 stjórnsýsluhindrunum árlega og frá 1. júli 2020 til 31. desember 2021 tókst að afgreiða 16 hindranir. Af þeim leystust tíu og sex voru metnar óleysanlegar af viðeigandi ráðuneytum í löndunum.

Þær sem voru leystar tengdust meðal annars útgreiðslu félagslegra bóta, tollum og tryggingagjöldum í tengslum við vöruflutninga, löngum afgreiðslutíma ESB-mála og greiðslum vegna ferðalaga sjúklinga á milli Noregs og Finnlands/Svíþjóðar.

Frá og með 2022 hefur Stjórnsýsluhindranaráðið fengið öflugra starfsumboð frá norrænu samstarfsráðherrunum. Samkvæmt nýja starfsumboðinu á ráðið meðal annars að hafa umboð til að bregðast hraðar og með markvissari hætti við á krísutímum ef þrengt er að frjálsri för.

Staðreyndir:

- Stjórnsýsluhindranaráðið er pólitískt skipuð nefnd sem ætlað er að greiða fyrir fyrir frjálsri för einstaklinga og fyrirtækja innan Norðurlanda.

- Stjórnsýsluhindranaráðinu er aðeins ætlað að gegna hvetjandi hlutverki, það eru aðeins stjórnvöld landanna sem geta leyst stjórnsýsluhindranir.

- Stjórnsýsluhindranaráðið er skipað tíu fulltrúum, þ.e. átta sem eru tilnefndir af ríkisstjórnunum auk framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar og eins fulltrúa frá Norðurlandaráði.

- Upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar, Info Norden, og upplýsingaskrifstofur landamærasvæðanna þriggja, þ.e. Landamæraþjónusta Noregs og Svíþjóðar, Landamæraþjónusta Norðurkollu og Øresunddirekt, eru samstarfsaðilar Stjórnsýsluhindranaráðsins.