COVID-19 hefur leitt til gremju og óvissu meðal íbúa landamærasvæða

02.07.20 | Fréttir
Gränskontroll på Öresundsborn mot Danmark i juni 2020.

Gränskontroll på Öresundsbron mot Danmark i juni 2020.

Photographer
Matts Lindqvist

Landamæraeftirlit mætir þeim sem keyra yfir Eyrarsundsbrúnna til Danmerkur. Það er aðeins eitt dæmi um það landamæraeftirlit sem er í gildi á Norðurlöndum um þessar mundir.

Þær ólíku takmarkanir sem norrænu ríkin hafa gripið til í baráttunni gegn COVID-19 hafa skapað mikla óvissu og gremju meðal margra íbúa á landamærasvæðum. Þetta sýnir kortlagning Stjórnsýsluhindranaráðsins.

Meðal þess sem hefur reynst íbúum landamærasvæða íþyngjandi eru erfiðleikar við að hitta ættmenni í öðrum norrænum ríkjum, erfiðleikar tengdir starfi, áhyggjur af skattamálum, vandamál tengd nýjum stjórnsýsluhindrunum sem urðu til vegna ferðatakmarkana og miklir erfiðleikar við að sækja vinnu yfir landamæri.

Sumir lýsa líka áhyggjum af því að heimsfaraldur kórónuveiru hafi spillt sambandi milli Norðurlandabúa og stuðlað að klofningi milli fólks frá ólíkum ríkjum Norðurlanda.

Samantektin byggir á gögnum sem upplýsingaþjónusta landamærasvæðanna safnaði að beiðni norræna Stjórnsýsluhindranaráðsins, með því að bjóða íbúum á landamærasvæðum að taka þátt í netspurningakönnun. Alls luku 1.669 einstaklingar spurningakönnuninni í heild eða að hluta á tímabilinu frá mars og fram til loka júní.

Þau sem svöruðu spurningunum gerðu það að eigin frumkvæði og ekki ber að líta á samantektina sem vísindarannsókn.

Ríflega fjórir af hverjum fimm hafa mætt erfiðleikum

82,5 prósent þeirra sem svöruðu sögðu að ólík viðbrögð ríkjanna vegna kórónuveirunnar hafi skapað vandamál. Alls sögðu 67 prósent að þau hefðu átt í erfiðleikum með að hitta fjölskyldumeðlimi í öðru norrænu ríki og 59 prósent sögðu að landamæraeftirlitið hafi valdið þeim áhyggjum.

Nokkur hluti fólks á landamærasvæðum lýsir áhyggjum af því hver áhrif þeirra ólíku aðgerða sem löndin gripu til vegna kórónuveirunnar verði á svæðum þar sem landamærin voru aðeins táknræn en hafa nú, á tímum kórónufaraldursins, orðið að raunverulegum múr sem skilur fólk að.

„Samantektin sýnir greinilega mikilvægi þess að norrænu ríkin samræmi aðgerðir sínar á erfiðleikatímum. Þegar landamærum er lokað á svæðum þar sem skilin voru áratugum saman ekkert meira en lína á korti, hefur það gríðarleg áhrif á fólkið sem býr á þeim svæðum. Í versta falli verða áhrifin landvarandi. Ríkisstjórnir okkar verða að draga lærdóm af þessu fyrir framtíðina,“ segir formaður í Stjórnsýsluhindranaráðinu, Bertel Haarder, sem er einnig þingmaður til margra ára á danska þinginu og fyrrum ráðherra.

Stjórnsýsluhindranaráðið heyrir undir Norrænu ráðherranefndina og vinnur að því að leysa úr hindrunum fyrir frjálsa för á Norðurlöndum.

„Enginn skilningur á aðstæðum okkar sem búum á landamærasvæðum“

Fólk var meðal annars spurt út í hvaða erfiðleikum það hefði mætt vegna faraldursins. Einnig var fólki gefið tækifæri til að lýsa sjálft þeim áskorunum tengdum landamærum sem það hafði upplifað á kórónuveirutímum. Alls barst 661 svar.

Hér fyrir neðan má sjá brot af þeim athugasemdum sem bárust:

„Svo virðist sem samstarf yfir Eyrarsundið hafi borið skaða vegna ákvörðunar Dana um að loka landamærum en leyfa á sama tíma eigin samlöndum að ferðast frjálst yfir.“

„Gríðarlega sárt og erfitt að geta ekki hitt vini og fjölskyldu í Noregi.“

„Ótrúlega erfitt að kljúfa einn bæ í tvo, svo voru lögreglugirðingar og skelfilegir verðir... Hvað var fólk að hugsa?? Stórt vandamál fyrir okkur í Haparanda, sem eigum heima með Torneå.“

„Danskt samstarfsfólk hefur óttast okkur Svía. Fyrst og fremst hefur skort upplýsingar um skattamál. Raðir við landamæraeftirlit og mismunandi upplýsingar dag frá degi um hvaða gögnum þarf að framvísa við landamærin.“

„Fjölmenni í lestinni yfir Eyrarsund og fáar ferðir ásamt lengri ferðatíma.“

„Allar takmarkanir sem gripið var til voru nauðsynlegar.“

„Ég get ekki heimsótt systur mína og systurson vegna lokaðra landamæra. Þau búa í um það bil eins og hálfs klukkustundar fjarlægð frá mér en hinum megin við landamærin.“

„Enginn skilningur á aðstæðum okkar sem búum á landamærasvæðum. Hið áralanga vandaða samstarf um aukna samkennd hefur orðið fyrir mjög neikvæðum áhrifum. Það hefur orðið mikill klofningur. Mjög dapurlegt!“

Frá því um miðjan mars hefur Stjórnsýsluhindranaráð Norrænu ráðherranefndarinnar ásamt Øresunddirekt, Landamæraþjónustu Svíþjóðar-Noregs, Landamæraþjónustu Norðurkollu og Info Norden greint norrænu samstarfsráðherrunum reglulega frá þeim stjórnsýsluhindrunum sem komið hafa upp á landamærasvæðum í tengslum við ólíkar ferðatakmarkanir norrænu ríkjanna.