Neikvæð áhrif á landamærasvæðin – níu af hverjum tíu upplifa aukinn kvíða vegna kórónutakmarkana

11.02.21 | Fréttir
Coronapandemin 2021
Photographer
Ricky Molloy
Fjórir af hverjum fimm einstaklingum sem búa og starfa á landamærasvæðum Norðurlanda segja að möguleikar þeirra til að fara yfir landamærin hafi verið skertir samfara COVID-19. Rúmlega þrír af hverjum fimm telja að löndin hafi ekki gefið landamærasvæðunum nægilegan gaum. Þetta kemur fram í kortlagningu sem norræna stjórnsýsluhindranaráðið lét gera.

Kortlagningunni er ætlað að fylgja eftir svipaðri könnun sem stjórnsýsluhindranaráðið lét framkvæma í maí-júní 2020. Þá sögðu einnig rúmlega fjórir af hverjum fimm þátttakendum, eða 82,5 prósent, að mismunandi takmarkanir í löndunum vegna kórónufaraldursins hefðu valdið þeim vandræðum.

Nýja kortlagningin var unnin í desember 2020 með sömu aðferð og fyrri könnunin, þ.e. með spurningablaði sem fólk gat fyllt út á netinu. Kortlagningin beindist fyrst og fremst að þeim sem búa og starfa á landamærasvæðum Norðurlanda.

Kortlagningin sýnir að rúmlega sex af hverjum tíu finna fyrir auknum kvíða í tengslum við að geta ekki hitt ættingja sína handan landamæranna. Næstum níu af hverjum tíu finna fyrir auknum kvíða vegna mismunandi takmarkana landanna, einn af hverjum fimm þátttakendum upplifir aukinn kvíða fyrir því að missa vinnuna og þrír af fimm upplifa aukinn kvíða vegna landamæraeftirlits. Nærri 60 prósent segja að reglur um sóttkví valdi þeim vandræðum.

„Þurfum sameiginlega norræna áætlun“

„Kortlagningin staðfestir enn frekar það sem fram kom í fyrri könnun. Fólk sem býr á landamærasvæðum og sækir vinnu yfir landamæri verður fyrir óhóflega neikvæðum áhrifum af hinum mismunandi takmörkunum landanna og landamæralokunum. Norrænu löndin verða að geta gert sameiginlegar áætlanir til að takast á við svipaðar kreppur í framtíðinni og draga úr neikvæðum áhrifum á íbúa landamærasvæða. Þetta má ekki endurtaka sig,“ segir Kimmo Sasi, formaður stjórnsýsluhindranaráðsins.

Stjórnsýsluhindranaráðið heyrir undir Norrænu ráðherranefndina og vinnur að því að ryðja úr vegi hindrunum fyrir frjálsri för á Norðurlöndum.

Mikill meirihluti þeirra 2.676 einstaklinga sem svöruðu könnuninni segjast einnig upplifa aukinn kvíða í tengslum við upplýsingagjöf yfirvalda og upplýsingagjöf varðandi landamærasvæði. Þannig segja 77 prósent að slíkar upplýsingar séu ruglingslegar.

Könnuninni fylgt eftir með viðtölum

Könnunin beindist fyrst og fremst að þeim landamærasvæðum þar sem hvað algengast er að fólk sæki vinnu daglega yfir landamæri, sem eru Danmörk/Svíþjóð, Finnland/Svíþjóð, Finnland/Noregur og Noregur/Svíþjóð.

Stjórnsýsluhindranaráðið fól upplýsingaþjónustuskrifstofum landamærasvæðanna, Øresunddirekt, Landamæraþjónustu Svíþjóðar-Noregs og Landamæraþjónustu Norðurkollu, auk Info Norden, upplýsingaþjónustu Norrænu ráðherranefndarinnar, að bjóða fólki að taka þátt í spurningakönnun á netinu. Þau sem svöruðu spurningunum gerðu það að eigin frumkvæði og ekki ber að líta á samantektina sem vísindarannsókn.

Á vordögum 2021 verður könnuninni fylgt eftir með greinargóðum viðtölum við nokkra þátttakendur og nýrri könnun í maí-júní.

Vonleysislegar athugasemdir fólks sem orðið hefur fyrir áhrifum

Einnig gaf spurningablaðið þátttakendum færi á því að lýsa með eigin orðum upplifunum sínum á tímum heimsfaraldursins í tengslum við málefni landamærasvæða. Alls bárust 737 svör.

Hér eru fáein sýnishorn af athugasemdunum:

Svíþjóð/Noregur: „Hef ekki getað tekið að mér verkefni handan landamæranna. Verktaki sem vinnur yfir landamæri. Hef ekki hitt fjölskylduna (mömmu, pabba og dóttur) í ár vegna reglna um sóttkví.“

Noregur/Svíþjóð: „Mismunun, mikil óvild í garð Svía. Við þurfum að fara í sýnatöku í hverri viku en Norðmennirnir ekki.“

Finnland/Svíþjóð: „Óskýrar upplýsingar frá yfirvöldum. Einkum varðandi það hvaða reglur gilda í Finnlandi samanborið við gildandi reglur á Álandseyjum.“

Danmörk/Svíþjóð: „Skortur á upplýsingagjöf milli landanna, langar biðraðir við landamæraeftirlit, furðulegt viðmót gagnvart Svíum í Danmörku, mismunandi reglur um sýnatökur o.s.frv., óvissa í skattamálum, hvernig greiði ég skatt til „rétts“ lands?“

Danmörk/Svíþjóð: „Við gegn þeim-hugarfar.“

Finnland/Noregur: „Ómögulegt að hitta ættingja. Ómögulegt að ráða starfsfólk.“

Finnland/Svíþjóð: „Er með 90% minni veltu en áður, að stærstum hluta vegna landamæralokana.“

Noregur/Svíþjóð: „Vandamál tengd eftirliti með fasteignum í Svíþjóð.“

Danmörk/Svíþjóð: „Maðurinn minn missti vinnuna, ég gefst bráðum upp á þessari svokölluðu Öresunds-aðlögun sem þýðir að ég verð, þrátt fyrir heimsfaraldur, að hafa 50% viðveru á skrifstofunni í Danmörku vegna skatta- og almannatryggingamála. Þetta er hreinn skandall!!!!“

Danmörk/Svíþjóð: „Ruglingur varðandi skattareglur í heimavinnu.“