Staðan tekin á sjálfbærum umskiptum á Norðurlöndum í nýrri skýrslu

30.08.21 | Fréttir
Windmills
Photographer
Nicholas Doherty Unsplash
Í nýrri skýrslu frá Norrænu ráðherranefndinni er staðan tekin á vinnu að sjálfbærum umskiptum en eftir sumar sem hefur einkennst af veðuröfgum virðast þau meira aðkallandi en nokkru sinni fyrr. Í skýrslunni er sýnt fram á að græn umskipti séu stærsta áskorun Norðurlandanna en breytur eins og félagsleg sjálfbærni og samkeppnishæfni eru lengra komnar.

Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna birti í síðustu viku sjöttu skýrslu sína þar sem heildarmat er lagt á loftslagsbreytingar. Niðurstöðurnar eru skýrar og þar er bent á mikilvægi þess að hratt verði dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda. Staðan hefur einnig verið tekin á Norðurlöndum og Norræna ráðherranefndin gaf nýlega út grunnskýrslu vegna vinnunnar við framtíðarsýn okkar 2030 en þar er kortlagt hversu langt Norðurlöndin hafa náð í vinnu að nokkrum sjálfbærnibreytum, þar á meðal varðandi loftslag og umhverfi. Niðurstaðan er sú að enn eiga Norðurlöndin nokkuð í land til þess að geta lýst því yfir að þau séu sjálfbærasta svæði heims.

Norðurlöndin glíma við allnokkrar sameiginlegar áskoranir þegar kemur að sjálfbærri þróun. Grunnskýrslan er góður grundvöllur undir frekari vinnu að sameiginlegri sýn okkar um að Norðurlöndin verði sjálfbærasta svæði heims fyrir árið 2030

Thomas Blomqvist, samstarfsráðherra Norðurlanda í Finnlandi

Grænu umskiptin ganga of hægt

Sérstaklega eru græn umskipti mikil áskorun á Norðurlöndum. Í skýrslunni kemur fram að losun gróðurhúsalofttegunda á Norðurlöndum er enn of mikil og sótt er að líffræðilegri fjölbreytni. Auk þess kemur þar fram að of mikil neysla og framleiðsla er áskorun á Norðurlöndum. Staðan er þó ekki slæm á öllum sviðum. Norðurlöndin eru komin vel áleiðis þegar kemur að grænni nýsköpun og grænum hagvexti. Sérstaklega sækir nýting endurnýjanlegra orkugjafa fram.

„Norðurlöndin glíma við allnokkrar sameiginlegar áskoranir þegar kemur að sjálfbærri þróun. Grunnskýrslan er góður grundvöllur undir frekari vinnu að sameiginlegri sýn okkar um að Norðurlöndin verði sjálfbærasta svæði heims fyrir árið 2030,“ segir Thomas Blomqvist, samstarfsráðherra Norðurlanda í Finnlandi.

Félagsleg sjálfbærni og samkeppnishæfni eru á góðri leið.

Skýrslan sýnir að staða Norðurlandanna á sviði samkeppnishæfni er sterk. Þetta á til dæmis við um menntun, rannsóknir og nýsköpun. Þá er staða félagslegrar sjálfbærni er einnig góð. Íbúar Norðurlanda búa almennt við góða heilsu, mikinn efnahagslegan jöfnuð, mikið félagslegt traust og frjótt menningarlíf. Í skýrslunni eru þó greindar allmargar áskoranir sem tengjast meðal annars jafnrétti kynjanna og jafnrétti milli einstaklinga í samfélaginu. Kynjajafnvægið er ekki gott á norrænum vinnumarkaði og aðlögun borgara utan ESB gengur ekki sem skyldi.

Norræna ráðherranefndin vinnur að þessu málefni

Norræna ráðherranefndin vinnur ákveðið að því að gera framtíðarsýnina að veruleika. Meðal annars hefur verið samþykkt aðgerðaáætlun þar sem lýst er verkefnum sem eiga að styðja sjálfbæra þróun á svæðinu. En vinna Norrænu ráðherranefndarinnar ein og sér dugir ekki til þess að gera framtíðarsýnina að veruleika, til þess þarf aðgerðir af hálfu allra hagaðila á öllum Norðurlöndum. Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar segir:

„Við höfum átta ár til þess að upfylla framtíðarsýnina þannig að við megum engan tíma missa. Ef okkur á að takast þetta verða öll Norðurlöndin að stefna í sömu átt. Loftslagsráðstefnan í Glasgow á þessu ári, COP26, verður mikilvægur liður í áframhaldandi samstarfi milli stjórnmála, viðskiptalífs og almennra borgara.“

Um skýrsluna

Í skýrslunni er að finna yfirlit yfir vísana sem notaðir voru og nánari upplýsingar um stefnumörkunarsviðin þrjú um sjálfbærni sem þar eru mæld. Skýrslan var unnin fyrir Norrænu ráðherranefndina af Rambøll Management Consulting og tekur stöðuna á vinnu að sjálfbærni í norrænu löndunum miðað við 45 vísa á sviði hinna þriggja forgangsmálefna stefnumörkunarinnar, „græn Norðurlönd“, „samkeppnishæf Norðurlönd“ og „félagslega sjálfbær Norðurlönd“.

Um Framtíðarsýn fyrir árið 2030

Í ágúst 2019 samþykktu norrænu forsætisráðherrarnir nýja framtíðarsýn fyrir norrænt samstarf um að fyrir árið 2030 yrðu Norðurlöndin sjálfbærasta og samþættasta svæði heims.