Stafræna draumalandið - heilbrigðisþjónusta úr fjarlægð

10.12.20 | Fréttir
Aukin tækniþróun á sviði heilbrigðis- og velferðarmála bætir velferð þeirra sem búa í strjálbýli. Hún færir fámennum samfélögum hvarvetna á Norðurlöndum efnahagsbata og veitir íbúunum aðgang að sveigjanlegri og betri opinberri þjónustu. Til að stafræna draumalandið geti orðið að veruleika í öllum krókum og kimum Norðurlanda þarf þó að vera pólitískur vilji fyrir því, aðgengilegt net og hæft fagfólk. Þetta eru meðal helstu niðurstaðna verkefnisins Healthcare and care at distance 2018–2020 á ráðstefnunni Velferðarmál á strjálbýlum svæðum.

„Er eðlilegt að gæði þeirrar aðstoðar sem velferðarkerfið veitir ráðist af póstnúmeri manna?“ spyr Astrid Krag, félags- og innanríkismálaráðherra Danmerkur, á norrænu ráðstefnunni Velferðarmál á strjálbýlum svæðum. Ráðherrann svarar eigin spurningu neitandi. Hún bendir á að pólitískan vilji þurfi til að bæta aðstæður þeirra sem ekki búa í fjölmennum bæjum og borgum. Anna Lundgren hjá rannsóknarstofnuninni Nordregio er sammála þeirri skoðun og segir að stafvæðing heilbrigðisþjónustunnar geti stuðlað að því að markmiðið náist.

„Í því felast efnahagslegar umbætur fyrir svæðin auk þess sem íbúarnir fá sveigjanlegri og sérhæfðari þjónustu sem eykur lífsgæði þeirra,“ segir Anna Lundgren og vísar til skýrslunnar Digital Health Care and Social Care sem hún er einn höfunda að. Skýrslan er liður í forgangsverkefninu Healthcare and care at distance 2018–2020 sem Svíar hleyptu af stokkunum þegar þeir gegndu formennsku í Norrænu ráðherranefndinni árið 2018.

Vilji stjórnenda er nauðsynlegur

Ýmsar hindranir þarf aftur á móti að yfirstíga áður en stafræna draumalandið getur orðið að veruleika. Anna Lundgren nefnir nokkur atriði: „Almennt séð verður að vera vilji til þess hjá þeim sem eru við völd að styrkja innviðina og skapa forsendurnar fyrir stafrænum umskiptum á hverjum stað. Auk þess þarf að yfirbuga ýmis ljón á veginum eins og lagalegar hindranir, kröfur um gagnaöryggi, aðgengi að vefnum, lausnir sem ekki er nógu notendavænar og fjármálin. Þetta snýst líka um að starfsfólkið, sem á að hafa umsjón með þessu öllu, sé hæft til þess,“ segir Anna Lundgren.

Stafvæðing valdi þáttaskilum fyrir starfsfólkið

Niclas Forsling hjá fjarheilbrigðisþjónustumiðstöðinni Glesbygdsmedicinskt centrum í Svíþjóð tekur undir að hæfni heilbrigðisstarfsfólks hafi úrslitaþýðingu og nefnir starfsmannaskort í dreifbýli. Glesbygdsmedicinskt centrum hefur ásamt Norrænu velferðarmiðstöðinni og Nordregio, sem og í tengslum við verkefni Norrænu ráðherranefndarinnar Healthcare and care at distance 2018–2020, rannsakað möguleikana á að auka hæfni heilbrigðisstarfsfólks á strjálbýlum svæðum á Norðurlöndum og ráða þangað nýtt fólk.

„Það er erfitt að ráða og halda í starfsfólk í heilbrigðisgeiranum í dreifbýli en stafvæðing getur valdið þáttaskilum í þessu sambandi,“ segir Niclas Forsling. Hann vitnar til fjögurra hugmynda sem varpað er nýju ljósi á í skýrslunni. Þar segi að tækniþróun á sviði heilbrigðis- og velferðarmála geri að verkum að vinnan verði auðveldari og sveigjanlegri, frekara svigrúm fáist til að sinna mikilvægum störfum, starfsmönnum finnist störf sín skipta meira máli og atvinnan öðlist aukið vægi. Niclas Forsling segir að á heildina litið yrði þetta til hagsbóta fyrir starfsumhverfið í heilbrigðis- og velferðarmálum á strjálbýlum svæðum og gæti stuðlað að því að fólk annað hvort réði sig til slíkra svæða eða ákvæði að vera áfram.

Félagslega sjálfbær Norðurlönd

Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, sótti ráðstefnuna og minnti á að stafræn umskipti á sviði heilbrigðis- og velferðarmála ætti þátt í að Norðurlönd yrðu félagslega sjálfbær. Paula tók einnig fram að ávinningurinn af umræddu verkefni og ráðstefnunni fælist ekki síst í að haghafar frá norrænu löndunum fengju tækifæri til að hafa heiðarleg samskipti um reynslu sína þar sem fullt traust ríkir: „Ég held reyndar að við á Norðurlöndum höfum dálitið forskot vegna þess trausts sem við berum hvert til annars en það er mikilvæg forsenda þverfaglegs samstarfs á öllum stjórnsýslustigum, bæði innanlands og á norrænum vettvangi,“ bætir Paula Lehtomäki við.