Styrkja þarf stöðu kennara í samfélaginu

05.04.19 | Fréttir
Utdanningsministrenes møte i Reykjavik 2019
Ljósmyndari
André Jamholt / norden.org

Reykjavík: Norrænu menntamálaráðherrarnir hyggjast styrkja stöðu og hlutverk kennara í samfélaginu. F.v. Tony Asumaa, ráðherra Álandseyja í mennta- og menningarmálum, Anna Ekström, menntamálaráðherra Svíþjóðar, Merete Riisager, menntamálaráðherra Danmerkur, Lilja D. Alfreðsdóttir, ráðherra Íslands í mennta- og menningarmálum auk vísinda, Jan Tore Sanner, ráðherra Noregs í mennta- og aðlögunarmálum, Paula Lehtomäki framkvæmdarstjóri, Lone Nukaaraq Møller, ráðuneytisstjóri frá Grænlandi, og Paavo-Petri Ahonen, sérfræðingur í menntamálum frá Finnlandi.

Kennarar gegna veigamiklu hlutverki í samfélagsþróuninni. Almenn staða þeirra endurspeglar ekki alltaf það hlutverk. Menntamálaráðherrar Norðurlanda telja löngu tímabært að bregðast við því. Málefnið var þess vegna ofarlega á baugi þegar ráðherrarnir komu saman í Reykjavík 9. apríl.

Alls staðar á Norðurlöndum fer fram lífleg umræða um kennara, störf þeirra og þróun á starfsgreininni. Kennaraskortur er yfirvofandi í öllum norrænu löndunum nema Finnlandi. Hefur verið gripið til ýmissa ráðstafana í því skyni að auka gæði kennaramenntunar og efla nýliðun í stéttinni. Meðal verkefnanna er viðurkenning á gildi kennarastarfsins og hugmyndir kennaranna sjálfra um stöðu þeirra í samfélaginu.

Kennarar gegna mikilvægasta starfinu í okkar samfélagi. Þeir móta framtíðina á hverjum einasta degi.

Lilja D. Alfreðsdóttir, ráðherra mennta- og menningarmála auk vísinda

Ísland, sem fer með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni árið 2019, bendir á að nú sé rétti tíminn til að nálgast málið af sókndirfsku og ræða um þýðingu kennara fyrir allar kynslóðir. Þörf sé á hugarfarsbreytingu vegna þess hvernig við hugsum og tölum um kennslustörf á Norðurlöndum. Um sé að ræða sameiginlega framtíð okkar og frekari þróun á Norðurlöndum.

- Kennarar gegna mikilvægasta starfinu í okkar samfélagi. Þeir móta framtíðina á hverjum einasta degi. Það er forgangsmál Íslands sem formennskulands í norrænu samstarfi að stuðla að betra starfsumhverfi fyrir kennara og efla kennaramenntun. Hér á landi höfum við nýlega kynnt aðgerðir í þá veru. Þetta er spennandi og brýnt verkefni þar sem Norðurlöndin geta lært margt hvert af öðru. Því er afar mikilvægt að norrænu menntamálaráðherrarnir beiti sér á þessu sviðii, segir Lilja D. Alfreðsdóttir, ráðherra Íslands í mennta- og menningarmálum auk vísinda.

Flestir hafa haft kennara sem hefur aðstoðað þá við að uppgötva sjálfa sig og hvað liggi vel fyrir þeim og hefur haft brennandi áhuga á að börn og ungmenni geti þroskað og nýtt hæfileika sína. Þess vegna er mikilvægt að vekja athygli á góðum dæmum til eftirbreytni, reynslusögum og fyrirmyndum. Þessi voru enda áhersluatriði norrænu menntamálaráðherranna þegar þeir fjölluðu um hvernig þeir gætu stuðlað að slíkri þróun.

Markmiðið er að styrkja leik- og grunnskóla sem undirstöðustofnanir í samfélaginu. Við á Norðurlöndum verðum að standa vörð um traustið, einsleitnina og samstöðuna sem myndar grunninn að norrænu samfélagi okkar. Börn og ungmenni þurfa að hljóta uppeldi og menntun sem gerir þeim kleift að auka þekkingu sína alla ævi og hefja þátttöku í samfélagi sem einkennist af sífellt flóknara umhverfi, tækniframförum og menningarlegri fjölbreytni. Jafnframt er mikilvægt að efla stuðning við sjálfbæra þróun, lýðræðisskilning og almenna vellíðan.

Hlutverk kennara í samfélaginu er mjög brýnt umfjöllunarefni. Þess vegna er mikilvægt að við beitum okkur í norrænu samstarfi til stuðnings við kennara í mikilsverðum störfum þeirra fyrir samfélagið, segir Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.