Tekist á við COVID 19 á sviði félags- og heilbrigðismála

25.03.21 | Fréttir
Corona mand i bus
Photographer
Ricky Molloy
Í dag komu félags- og heilbrigðismálaráðherrar Norðurlanda saman til að ræða góða og slæma reynslu á tímum COVID 19. Markmiðið var að löndin gengju í takt í viðhorfum sínum til þess hvernig Norðurlöndin geti orðið öflugri á sviði félags- og heilbrigðismála komi til kreppu á ný.

Stjórnvöld norrænu landanna takast á við kórónuveiruna og eru stöðugt að læra. Formennska Finna í Norrænu ráðherranefndinni 2021 vill að norrænu ríkin deili þessum lærdómi hvert með öðru. Á þessum efnum er fundum norrænu félags- og heilbrigðismálaráðherranna síðasta árið undir formennsku Dana fylgt eftir. Í dag var áhersla lögð á að taka reynsluna með sér inn í framtíðina til þess að búa sig enn betur undir nýja kreppu.

Innsýn þvert á landamæri gagnast stjórnvöldum

„Við eigum að greina stjórnvaldsaðgerðir okkar á tímum COVID 19 hér á Norðurlöndum til þess að breyta því sem ekki gefst vel og halda í það sem gefst vel,“ sagði Krista Kiuru, fjölskyldu- og umönnunarráðherra Finnlands í tengslum við fund norrænu félags- og heilbrigðismálaráðherranna í dag. Norrænu ráðherrarnir voru sammála um að þetta væri skynsamlegt. Þeir voru einnig sammála um að það hafi verið skynsamlegt fyrir löndin að skiptast á upplýsingum og læra hvert af öðru á hinu nýliðna heldur róstursama ári. Krista Kiuru sagði í þessu sambandi:

„Í kórónuveirufaraldrinum höfum við meðal annars skipst á upplýsingum um fjölda sjúklinga og faraldsfræðilega stöðu og spár varðandi hana. Auk þess höfum við skipst á upplýsingum um lagerstöðu lyfja og annars varnings sem máli skiptir. Allt hefur þetta gagnast stjórnvöldum norrænu landanna þannig að þekking og lausnir geta verið hvatning þvert á landamæri.

Við eigum að greina stjórnvaldsaðgerðir okkar hér á Norðurlöndum á tímum COVID 19, til þess að breyta því sem ekki gefst vel og halda í það sem gefst vel

Krista Kiuru, fjölskyldu og umönnunarráðherra Finnlands

Öflug Norðurlönd á sviði félags- og heilbrigðismála

Á fundinum var það rætt að COVID 19 hefði sett mark sitt á samstarf Norrænu ráðherranefndarinnar á sviði félags- og heilbrigðismála, eins og nánast allt annað í þessum heimi. Auk þess hefði heimsfaraldurinn haft gríðarleg áhrif á heilsufarslega og félagslega stöðu almennings og verst hafi hann komið niður á þeim hópum fólks sem viðkvæmastir voru fyrir. Um leið hefur Norðurlöndunum gengið betur á heildina litið að komast í gegnum kreppuna samanborið við marga aðra staði í heiminum. Á fundinum ríkti eining um að þrátt fyrir að kreppan sé ekki að baki skipti miklu að horfa einnig fram á veginn, á það hvernig Norðurlöndin geti verið sterkari saman og í því sambandi tekið með sér góða og slæma reynslu.

„Við eigum að skiptast á upplýsingum og einbeita okkur að góðu samstarfi. Við eigum líka að koma okkur saman um hvernig við skiptumst á upplýsingum og dreifum þeim. Auk þess ætti að ákveða hvernig mismunandi aðilar eiga að bregðast við þannig að samstarfið komi öllum að sem bestu gagni,“ segir Kista Kiuru, fjölskyldu og umönnunarráðherra Finnlands í tengslum við þemaumræðu um COVID 19.