Þannig tökumst við á við skort á talnagögnum sem ná yfir landamæri

03.03.21 | Fréttir
norsksvenska gränsen stängd
Ljósmyndari
Lasse Edwartz/TT/Ritzau Scanpix
Allt í einu bæði sést og heyrist í þeim tugum þúsunda sem eru vön að ferðast yfir norræn landamæri vegna vinnu sinnar. Lokuð landamæri af völdum kórónuveirufaraldursins hafa haft áhrif á líf þessa fólks og tekjur – en einnig orðið til þess að kastljósið beinist nú að skipulagsvanda í norrænu samstarfi sem felst í skorti á opinberum talnagögnum sem ná yfir landamæri.

Nú þegar landamærin eru lokuð tímabundið skapar þetta upplýsingagat ný vandamál.

Sveitarfélög sem liggja að landamærum víðsvegar á Norðurlöndum eiga í miklum efiðleikum með að sjá fyrir kostnað í tengslum við atvinnuleysi vinnuferðlanga og þörf þeirra fyrir stuðning í heimalandi sínu.

Skortur á talnagögnum felur þannig í sér bæði vandamál og tækifæri í tengslum við frjálsa för á Norðurlöndum. 

  Hugsanlegar lausnir

  En það virðast vera lausnir á tölfræðivandanum. Bæði í Evrópu og á Eyrarsundssvæðinu er verið að vinna verkefni sem ætlað er að stuðla því að til verði áreiðanleg talnagögn þvert á landamæri.

   

  „Það hefur verið efst á óskalistanum að fá Norðurlöndin með í evrópska tilraunverkefnið okkar,“ segir Johan van de Valk, frá Statistics Netherlands, sem stýrir verkefninu Crossborder Statistics, með þátttöku sjö Evrópulanda.

   

  Johan van de Valk var einn þeirra sérfræðinga og notenda talnagagna þvert á landamæri sem Norræna ráðherranefndin bauð til að taka þátt í að finna nýjar lausnir í tengslum við kynningu á skýrslunni Nordic cross-border statistics 25. febrúar.

  Örgögn – viðkvæmt mál

  Það hefur ekki verið hluti af opinberum verkefnum norrænu hagstofanna að halda saman talnagögnum um fólk sem stundar vinnu eða nám í nágrannalandi og þegar hagstofurnar vinna saman að þessu stangast lög landanna um örgögn á, þ.e. þegar um er að ræða persónuupplýsingar.

   

  Hin sterka grundvallarregla í Svíþjóð um upplýsingarétt almennings leiðir til þess að nágrannalöndin hika við að afhenda sænsku hagsofunni, SCB, örgögn vegna þess að hluti upplýsinganna getur orðið aðgengilegur öðrum sænskum stjórnvöldum.

   

  Miklar afleiðingar fyrir landamærasvæðin

  Skortur á öruggum talnagögnum hefur miklar afleiðingar fyrir landamærasvæði Norðurlanda og fyrir þróun á frjálsri för á Norðurlöndum. Um það eru tölfræðingar og notendur sammála.

   

  „Þetta hefur mikil áhrif. Ef við vitum ekki hversu margt fólk ferðast vegna vinnu eða við þekkjum ekki tækifæri til hagvaxtar á svæðinu okkar þá getum við ekki búið til ígrundaða stefnumótun sem er í samræmi við raunveruleikann,“ segir Ulrika Geeraedts, þróunarstjóri hjá Region Skåne í Svíþjóð.

   Röng spá um fátækt barna

   Hún tekur nokkur dæmi:

   „Við erum 85 sveitarfélög í Svíþjoð og Danmörku sem vinnum að því saman í Greater Copenhagen Committee að laða fjárfesta og vinnuafl aðl fyrirtækjum okkar á sviði líftækni og í leikjaiðnaði. En við eigum erfitt með að markaðssetja svæðið án þess að hafa nákvæmar upplýsingar.

   Slíkar upplýsingar þurfa að vera til, einnig í hverju landi fyrir sig. Í Malmö gerum við líklega ráð fyrir allt of mikilli fátækt barna vegna þess að tekjur foreldra sem starfa í Danmörku sjást ekki í talnagögnunum,“ segir Ulrika Geeraedts.

    

   Lausnin gæti legið í því að fara í kringum vandann sem hlýst af mismunandi lögum um persónuupplýsingar í löndunum.

    Ekki eins nákvæmt en áreiðanlegt

    Nú er að hefjast forkönnun sem fjármögnuð er af Region Skåne þar sem Danmörk og Svíþjóð standa saman að því að búa til talnagögn sem tengjast vinnumarkaðinum, án þess að skiptast á örgögnum, þ.e. persónuupplýsingum.

     

    Niðurstöðurnar eru ekki taldar vera alveg eins nákvæmar og ella en Johan van der Valk sem stýrir Evrópverkefninu Crossborder Statistics telur að hægt sé að búa til áreiðanlega tölfræði án þess að miðla persónuupplýsingum.

     Aukin meðvitund um friðhelgi

     „Við sjáum að friðhelgi einstaklingsins er stöðugt mikilvægari. Þegar bandarísk fyrirtæki nota persónuupplýsingar án þess að spyrja verður fólk meðvitaðra og hikandi og ég er hræddur um að hagstofurnar munu finna fyrir þessu.

     Þess vegna verðum við að finna aðrar leiðir til þess að búa til talnagögn. Það verða ekki örgögn en með hjálp háþróaðra tækniaðferða getum við búið til upplýsingar um ferðalög vegna vinnu og tekjur sem eru verðmætar fyrir þau lönd sem málið varðar,“ segir Johan van der Valk.