Þau hlutu verðlaun Norðurlandaráðs 2022

01.11.22 | Fréttir
Vindere Nordisk Råds priser 2022
Ljósmyndari
Magnus Fröderberg, norden.org
Nora Dåsnes, Solvej Balle, Karin Rehnqvist, Valdimar Jóhannsson, Sjón, Hrönn Kristinsdóttir, Sara Nassim og sveitarfélagið Mariehamn veittu verðlaunum Norðurlandaráðs 2022 viðtöku við verðlaunaathöfn í beinni útsendingu frá Musikhuset í Helsinki þriðjudagskvöldið 1. nóvember.

Íslenska kvikmyndin Dýrið hlaut kvikmyndaverðlaunin og umhverfisverðlaunin hlaut sveitarfélagið Mariehamn á Álandseyjum fyrir Nabbens våtmark. Bókmenntaverðlaunin hlaut hin danska Solvej Balle fyrir skáldsöguna Om udregning af rumfang I, II, III en tónlistarverðlaunin hlaut sænska tónskáldið Karin Rehnqvist fyrir verkið Silent Earth. Norski rithöfundurinn Nora Dåsnes hlaut barna- og unglingabókmenntaverðlaunin fyrir myndasöguna Ubesvart anrop.

Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2022

Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2022 hlýtur íslenska kvikmyndin Dýrið eftir leikstjórann og handritshöfundinn Valdimar Jóhannsson, handritshöfundinn Sjón og framleiðendurna Hrönn Kristinsdóttur og Söru Nassim. Verðlaunin hljóta þau fyrir verk sem dómnefndin kallar einstaka frásögn um missi, sorg og hrylling.

Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs 2022

Sænska tónskáldið Karin Rehnqvist hlaut tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs 2022 fyrir verkið Silent Earth. Silent Earth er svimandi og ákaflega hvetjandi verk sem hafði mikil áhrif á dómnefndina. Með meistaralegu handbragði særir Rehnqvist fram einstakan mátt tónlistarinnar.

Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2022

Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2022 hlýtur sveitarfélagið Mariehamn á Álandseyjum fyrir votlendið Nabbens våtmark. Sveitarfélagið hlýtur verðlaunin fyrir fjölhæfa lausn sem talin er hreinsa vatnsumhverfið og hafa jákvæð áhrif á plöntu- og dýralíf. Að auki stuðli verkefnið að því að greiða fyrir loftslagsaðlögun í borgarumhverfi.

Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2022

Myndasagan Ubesvart anrop eftir Noru Dåsnes hlaut barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2022. Nora Dåsnes hlýtur verðlaunin fyrir sterkt, trúverðugt og blæbrigðaríkt verk sem fjallar um þau áhrif sem hryðjuverkaárásin 22. júlí 2011 hafði á norsku þjóðina.

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2022

Danski rithöfundurinn Solvej Balle hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2022 fyrir skáldsöguna Om udregning af rumfang I, II og III. Solvej Balle hlaut verðlaunin fyrir verk sem dómnefndin kallar meistaraverk til tímans.

Um verðlaun Norðurlandaráðs

Norðurlandaráð veitir fimm verðlaun ár hvert: bókmenntaverðlaun, kvikmyndaverðlaun, tónlistarverðlaun, umhverfisverðlaun og barna- og unglingabókmenntaverðlaun. Hver verðlaunahafi fær verðlaunastyttuna Norðurljós og 300 þúsund danskar krónur og eru verðlaunin veitt í tengslum við árlegt þing Norðurlandaráðs.