Tilnefningar til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2015

31.08.15 | Fréttir
De nominerede til Nordisk Råds filmpris 2015
Fulltrúar dómnefndar í löndunum hafa tilnefnt eftirfarandi fimm kvikmyndir til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs:

Danmörk

Stille hjerte

Meistaralega gerð og listilega leikin mynd. Leikstjórinn Bille August og handritshöfundurinn Christian Torpe hlýja áhorfendum um hjartarætur með sögu af ógleymanlegri helgi í lífi fjölskyldu. Móðurina langar að deyja og aðrir meðlimir fjölskyldunnar verða að takast á við það. Að sönnum norrænum sið er flett ofan af öllum leyndarmálum í kvikmynd sem fjallar um eitthvert erfiðasta viðfangsefni nokkurrar fjölskyldu: að kveðja nákominn ættingja.

Finnland

Þau hafa flúið (He ovat paenneet)

Grípandi þroskasaga, spennandi vegamynd, fantasía í lyfjavímu og meira til! Þau hafa flúið (He ovat paenneet) eftir Jukka-Pekka Valkeapää daðrar við einkenni sígildra kvikmyndagreina til þess eins að þverbrjóta öll lögmál þeirra og umbreytast í tjáningarríkt og hömlulaust ævintýri sem ekki er ætlað börnum. Listileg myndataka og vönduð og margslungin tónlist auka enn á hið sterka, draumkennda andrúmsloft myndarinnar.

Ísland

Fúsi

Fúsi eftir Dag Kára Pétursson er hjartnæm þroskasaga af ljúfum risa. Hér er á ferðinni mannleg kvikmynd þar sem innri átökum og óhefðbundnum þokka er lýst með meistaralegum blæbrigðum. Táknrænt samspil hins stóra og þess smáa miðlar algildum stefjum á borð við gæsku, gjafmildi og mannlega reisn. 

Noregur

Mot naturen

Í Mot naturen beinir Ole Gievær sjónum að lífsstíl nútímafólks og sjálfi hins norræna nútímamanns. Persónuleg og áleitin rödd sögumannsins kallar fram röð áhrifamikilla svipmynda í andrúmslofti sem þrungið er minningum, draumum, vonum og tilfinningum. Gegnumgangandi er glettni sem rúmar í senn vandræðalegheit, skömm og sársauka.

Svíþjóð

Gentlemen

Gentlemen eftir Mikael Marcimain er kræklótt frásögn þar sem tími og persónur eru jafn fljótandi og mörkin milli draums og ímyndunar. Ólíkum frásagnarmátum er fléttað haganlega saman og útkoman er einstaklega persónulegt, glettið og sjálfsrýnið verk.

Nánari upplýsingar um hinar tilnefndu kvikmyndir

Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs nema 350 þúsundum danskra króna, sem skiptast á milli leikstjóra, handritshöfundar og framleiðanda sigurmyndarinnar. Hin fimm verðlaun Norðurlandaráðs verða afhent í Hörpu í Reykjavík þann 27. október.