Fúsi – Ísland

Fúsi (Virgin Mountain) er nomineret til Nordisk Råds filmpris 2015

Ágrip

Fúsi er á fimmtugsaldri en skortir enn kjark til að stíga inn í heim hinna fullorðnu.

Hann ráfar eins og svefngengill gegnum hversdaginn, þar sem rútína er lykilatriði. Þegar fjörug kona og átta ára gömul stúlka dúkka óvænt upp í tilveru Fúsa neyðist hann til að láta kylfu ráða kasti.

Rökstuðningur dómnefndar

Fúsi eftir Dag Kára Pétursson er hjartnæm þroskasaga af ljúfum risa. Hér er á ferðinni mannleg saga þar sem innri átökum og óhefðbundnum þokka er lýst með meistaralegum blæbrigðum. Táknrænt samspil hins stóra og þess smáa miðlar algildum stefjum á borð við gæsku, gjafmildi og mannlega reisn.

Leikstjóri og handritshöfundur – Dagur Kári Pétursson

Dagur Kári Pétursson er fæddur í Frakklandi árið 1973. Hann ólst upp á Íslandi og nam kvikmyndagerð í Danmörku. Fyrsta kvikmynd hans í fullri lengd, Nói Albinói (2003), sló í gegn um allan heim og önnur mynd hans, Voksne mennesker, var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes í flokknum Un Certain Regard. Frumraun hans á ensku, The Good Heart, var tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2010. 

Fúsi naut mikillar velgengni á Tribeca-kvikmyndahátíðinni í New York árið 2015, en þar hlaut myndin verðlaun sem besta mynd, fyrir besta handrit og besta leikara í aðalhlutverki (Gunnar Jónsson) í flokknum World Competition.

Dagur Kári starfar hjá Kvikmyndaskóla Danmerkur sem yfirmaður leikstjórnarbrautar. Hann er einnig tónlistarmaður og meðlimur í hljómsveitinni Slowblow.

Framleiðandi – Baltasar Kormákur

Baltasar Kormákur (1966) er leikari, framleiðandi og leikstjóri sem hefur starfað í leikhúsi, kvikmyndum og sjónvarpi. Síðan hann leikstýrði frumraun sinni, 101 Reykjavík, hefur hann smám saman fest sig í sessi á alþjóðavettvangi sem sérstæður og skapandi höfundur sem einnig er naskur á lögmál markaðarins. Baltasar hefur starfað bæði á Íslandi og í Hollywood. Fjórar kvikmynda hans hafa verið tilnefndar til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs: Skroppið til himna (2006), Mýrin (2007), Brúðguminn (2008) og Djúpið(2013).

Meðal þeirra Hollywood-mynda hans sem notið hafa mestrar velgengni eru Contraband og 2 Guns. Næsta kvikmynd hans, Everest, verður frumsýnd í Bandaríkjunum 18. september 2015. Meðal næstu verkefna Baltasars Kormáks á Íslandi er sjónvarpsþáttaröðin Ófærð, sem hann framleiðir fyrir fyrirtæki sitt RVK Studios.

Framleiðandi – Agnes Johansen

Áður en Agnes Johansen sneri sér að framleiðslu kvikmynda starfaði hún sem kynnir sjónvarpsefnis fyrir börn og yfirmaður barnaefnisdeildar Stöðvar 2. Þau Baltasar Kormákur hafa átt í nánu samstarfi frá árinu 2003. Saman hafa þau framleitt átta kvikmyndir, svo sem Stormviðri eftir Sólveigu Anspach, Mýrina eftir Baltasar Kormák, Djúpið og Reykjavík Rotterdam eftir Óskar Jónasson. Sem stendur starfar Agnes að fyrstu kvikmynd Barkar Sigþórssonar, Mules.

Framleiðsluupplýsingar

Titill á frummáli: Fúsi

Leikstjóri/Handritshöfundur: Dagur Kári Pétursson

Framleiðendur: Baltasar Kormákur, Agnes Johansen

Framleiðslufyrirtæki: RVK Studios

Aðalleikarar: Gunnar Jónsson, Ilmur Kristjánsdóttir, Sigurjón Kjartansson.

Fulltrúar dómnefndar

Kristín Jóhannesdóttir, Björn Ægir Norðfjörð, Auður Ava Ólafsdóttir