Ung fólk á Norðurlöndum: Hér eru veikleikar í jafréttisstefnunni

04.03.20 | Fréttir
Gender equality demonstration
Ljósmyndari
Iris Dager
Hvað þarf til að Norðurlöndin nái því marki að vera fyrsta svæði heims til að ná jafnrétti? Jú, að unga fólkið fái að taka þátt og hafi pólitískt dagskrárvald. Það ferli hefst í dag með átakinu #GenerationEqualityNordic.

„Þegar ég fer út í framhaldsskólana til að ræða um jafnréttismál heyri ég að eitt málefni er fyrirferðarmikið í hugum margra: Rétturinn til eigin líkama í víðum skilningi,“ segir Emma Holten sem er einn áhrifamesti ungi danski femínistinn.

 

Rétturinn til þess að verða ekki fyrir kynbundnu einelti á netinu, rétturinn til kynleiðréttingar, rétturinn til fóstureyðinga, til getnaðarvarna, rétturinn til þess að vera ánægður með líkama sinn hvernig svo sem hann er – allt þetta skiptir máli.

Sjö mánaða samtal

Næstu sjö mánuði verður ungu fólki um öll Norðurlönd boðið til samtals um jafnrétti. Tilgangurinn er að fara yfir það sem út af stendur til þess að skapa réttlátar aðstæður fyrir allt fólk á Norðurlöndum - óháð kyni.

 

Samtalið hefst með stafræna átakinu #GenerationEqualityNordic og heldur áfram bæði á norrænum og alþjóðlegum vettvangi.

 

„Brýnasta áskorunin á sviði jafnréttismála nú er að ná til allra. Við verðum að styðja, styrkja og mennta bæði drengi og stúlkur, unga karla og konur með mismunandi bakgrunn og reynslu. Mitt ráð til jafnréttismálaráðherra er að berjast gegn ójöfnuði og misskiptingu,“ segir Louise Burenby, einn fulltrúa ungs fólks hjá Sameinuðu þjóðunum.

Heimurinn tekur aftur frumkvæði

Bakgrunnur átaksins er að 25 ár eru liðin síðan samþykkt var aðgerðaráætlun til jafnréttis í heiminum, Beijing sáttmálinn ásamt aðgerðaráætlun.

 

Tímamótin verða nýtt til þess að meta hversu langt heimurinn hefur náð og hversu langt við eigum í land.

 

Ákveðið hefur verið að 2020 verði „ofurár“ á sviði jafnréttismála, árið sem heimurinn tekur aftur frumkvæði að breytingum. Ungt fólk er einnig virkjað til þess að benda á brýnustu áskoranir á alþjóðavettvangi.

Þátttaka ungs fólks í stefnumótun

Á Norðurlöndum verður einnig fjallað um það hvernig unga fólkið getur haft áhrif á jafnréttisstefnu á komandi áratug.

 

„Markmið mitt er að virkja ungu kynslóðina til þess að taka þátt í að móta jafnréttisstefnu til framtíðar. Annars vegar verðum við að viðhalda þeim árangri sem við höfum þegar náð og hins vegar að leggja áherslu á nýjar jafnréttisáskoranir með hjálp unga fólksins. Unga fólkið verður að taka þátt í því að berjast gegn því hvernig sótt er að réttindum kvenna og stúlkna,“ segir Mogens Jensen sem er formaður norrænu ráðherranefndarinnar um jafnréttismál.

Forgangsmál unga fólksins enda hjá SÞ

Átakinu er ætlað að opna umræður milli ungs fólks á öllum Norðurlöndunum fimm um það hvar enn sé óréttlæti fyrir hendi. 

Umræðunum verður fram haldið á norrænum leiðtogafundi ungs fólks - „Nordic Youth Summit on Gender Equality“ - í Kaupmannahöfn 12. maí.

Niðurstöðum hans verður miðlað áfram gegnum Generation Equality Forum í París í sumar, til ríkisstjórna heimsins á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í haust.

Staðreyndir um #GenerationEqualityNordic

  • Þú getur tekið þátt í átakinu ef þú ert á aldrinum 18-30 ára.
  • Instagram er aðalvettvangur #GenerationEqualityNordic. Þú tekur þátt í átakinu með því að nota myllumerkið.  
  • Þú tekur þátt með því að svara spurningum svo sem „Hverjar eru brýnustu jafnréttisáskoranirnar nú.“ Og: „Hvernig eigum við að takast á við þær?“
  • Notaðu það tungumál sem þér finnst þægilegast, hægt er að birta svörin á norrænum málum eða ensku.
  • Bæði einstaklingar og samtök eru velkomin til þess að taka þátt í átakinu. Framlög til átaksins geta verið mismunandi bæði að formi og innihaldi – á Instagram má birta myndir, myndbönd eða texta.
  • Nokkrir einstaklingar/reikningar sem hafa skipt sérstaklega miklu máli í átakinu verða valdir til þess að taka þátt í norrænu ungmennaráðstefnunni Nordic Youth Summit on Gender Equality í Kaupmannahöfn 12. maí.
  • Formennska Dana í Norrænu ráðherranefndinni tók frumkvæðið að átakinu. Framkvæmd átaksins hefur verið falin NIKK, Norrænni rannsóknastofnun í kvenna- og kynjafræðum.
  • Nánari upplýsingar á vefsvæði átaksins: http://generationequalitynordic.org/
  • Fylgið átakinu á Instagram: https://www.instagram.com/generationequalitynordic/