Unga fólkið markar stefnu fyrir loftslags- og umhverfisráðherra Norðurlanda

30.05.22 | Fréttir
Annika Strandhäll
Photographer
Martin Lerberg Fossum

Annika Strandhäll, loftslags- og umhverfisráðherra Svíþjóðar.

Hver á ábyrgð Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna að vera í alþjóðlegu loftslagsstarfi? Í næstu viku munu fulltrúar ungs fólks frá svæðinu leggja fram tillögur sínar til norrænu loftslags- og umhverfisráðherranna við hringborðsumræður í tengslum við leiðtogafund Sameinuðu þjóðanna, Stockholm +50.

Ungt fólk mun koma að borðinu þegar fulltrúar ungs fólks frá öllum norrænu löndunum og Eystrasaltsríkjunum funda með loftslags- og umhverfisráðherrum Norðurlanda daginn áður en leiðtogafundur Sameinuðu þjóðanna, Stockholm +50, hefst.

Þar verður lögð fram skýrslan „Nordic and Baltic Youth Policy Paper for Stockholm+50“ sem inniheldur samantekt á tillögum og sýn skipulagðra ungmennahreyfinga á alþjóðlega loftslagsvinnu ásamt því að bent er á það í hverju sameiginleg ábyrgð Eystrasaltssvæðisins og Norðurlanda felst að mati unga fólksins.

Það eru LSU, sænsku æskulýðssamtökin, sem ásamt Anniku Strandhäll, loftslags- og umhverfisráðherra Svíþjóðar bjóða til fundarins en LSU ákveður dagskrá hans og heldur einnig fernar hringborðsumræður þar sem einstakar tillögur verða ræddar í minni hópum. Þróun norræns-baltnesks stefnuskjals er styrkt af Norrænu ráðherranefndinni og situr framkvæmdastjóri hennar, Paula Lehtomäki, fundinn fyrir hennar hönd.

Hjá Norrænu ráðherranefndinni er áhersla lögð á að bjóða ungu kynslóðinni að borðinu.

Paula Lehtomäki

Ungt fólk í forystu

„Hjá Norrænu ráðherranefndinni er áhersla lögð á að bjóða ungu kynslóðinni að borðinu og tryggja henni tækifæri til raunverulegs samtals og pólitískra áhrifa. Þessi fundur er mjög gott dæmi um það,“ segir Lehtomäki.

Annika Strandhäll hefur einnig miklar væntingar til fundarins.

„Að mínu mati er þetta mjög góð leið til að efna til samtals við ungt fólk. Það er framtíð þeirra sem við höfum í höndum okkar og þess vegna þurfa þau líka að hafa skýrt hlutverk þegar við mörkum stefnu á sviði loftslagsmála,“ segir Strandhäll.

Fundurinn fer fram 1. júní og verður lokaður almenningi.

Áhersla lögð á aðkomu ungs fólks

Áhersla er lögð á það í norrænu samstarfi að virkja ungt fólk til þátttöku. Stór hluti starfseminnar fer fram undir verkefninu NORDBUK sem er ráðgjafar- og samræmingaraðili varðandi málefni og aðgerðir hjá Norrænu ráðherranefndinni sem snerta börn og ungt fólk. Einnig eru teknar ákvarðanir um ýmsar aðgerðir innan einstakra ráðherranefnda.

Nú síðast veitti umhverfis- og loftslagssvið fjárstyrk til Stockholm +50 Youth Task Force, sem ber ábyrgð á að ýta undir þátttöku ungs fólks á öllum stigum leiðtogafundarins. Þá hefur sviðið veitt fjárhagslegan og skipulagslegan styrk til þess að koma á fót samstarfsneti um líffræðilega fjölbreytni sem tryggir aðkomu ungs fólks að þróun nýs samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni. Markmiðið er að aðgerðir samstarfsnetsins tryggi aðkomu ungs fólks í pólitískum ferlum á Norðurlöndum og alþjóðavettvangi ásamt því að efla norræn samstarfsnet ungs fólks til lengri tíma.

Ungt fólk á bak við tvö stefnuskjöl

Tillögurnar í norræna-baltneska stefnuskjalinu urðu til í gegnum samstarfsferli ungs fólks frá öllum Norðurlöndum og Eystrasaltsríkjunum undir forystu LSU. Vinnan hefur staðið yfir samhliða vinnunni við „Global Youth Position Paper for Stockholm +50“ sem Stockholm+50 Youth Task Force (YTF) stendur að ásamt nokkrum alþjóðlegum æskulýðssamtökum. Norræna-baltneska stefnuskjalið er hugsað sem viðbót við alþjóðlega skjalið.

Norrænt samstarf stendur fyrir nokkrum viðburðum á Stockholm +50. Takið þátt í viðburðum okkar á staðnum eða rafrænt og hittið fræðimenn, fulltrúa ungs fólks og stjórnmálamenn frá öllum Norðurlöndum.