Ungir Eistar með mikinn metnað á COP27

15.11.22 | Fréttir
COP27
Photographer
Andreas Omvik/norden.org
Eistnesk ungmenni vilja sjá alþjóðlegt átak í átt að grænu viðskiptaumhverfi með virkri þátttöku ungs fólks. Þau sýndu okkur hvernig það er mögulegt í Norræna skálanum á loftslagsráðstefnunni COP27.

Hugmyndir og hugleiðingar um hvernig best sé að hrinda bestu starfsvenjum í framkvæmd á sviði alþjóðlegra umhverfis- og loftslagsmála voru allsráðandi í Norræna skálanum á COP27. Hér stóðu samtökin Baltic Youth fyrir viðburði undir yfirskriftinni „þátttaka ungmenna í loftslagsaðgerðum og græna hagkerfinu“. Það var eistneska umhverfisráðuneytið sem setti samtökin á laggirnar.

Ungir og gamlir hvattir til loftslagsaðgerða

Á viðburðinum lögðu eistnesku ungmennin til hugmyndir og deildu reynslu sinni af því hvernig hægt er að fá ungt fólk til liðs við baráttuna og styðja ungt fólk til félagslegrar þátttöku, stjórnarstarfa og nýsköpunar. Lykilatriði í öllu saman er þátttaka ungmenna. Hanah Lahe, loftslagsfulltrúi eistneskra ungmenna, útskýrir hvers vegna:

 

„Ákvarðanirnar sem teknar eru í dag hafa mest áhrif á æskuna og komandi kynslóðir, auk þess sem þessar ákvarðanir eru líka bein fjárfesting í framtíð barna og ungmenna. Því verðum við að geta lagt eitthvað til málanna. Þar að auki er alvitað að ungt fólk er gjarnan metnaðarfyllra en það sem eldra er, með djarfari þankagang og hugrekki sem getur aðeins verið til góðs í baráttunni gegn loftslagsbreytingum,“ segir Hanah Lahe.

Ungt fólk er gjarnan metnaðarfyllra en það sem eldra er, með djarfari þankagang og hugrekki sem getur aðeins verið til góðs í baráttunni gegn loftslagsbreytingum

Hanah Lahe, loftslagsfulltrúi eistneskra ungmenna

Við getum sýnt mörg fordæmi

Eistnesku ungmennin létu verkin tala og mættu á ráðstefnuna með þrjú verkefni í farteskinu: Let's Do It World, Negavatt og Umhverfisráð æskunnar. Þetta eru dæmi um heildræna nálgun til þess að hvetja ungt fólk til þátttöku, allt frá vitundarvakningu til stefnumótunar og frá kynningum til grænnar nýsköpunar í verki. En þetta eru bara nokkur dæmi og Eistar hafa mun fleira til að bjóða heimsbyggðinni:

 

„Eistland er ungt land en við höfum margt til að sýna öðrum þjóðum. Átakið Alheimshreinsun (World Cleanup Day) á til dæmis rætur sínar að rekja til Eistlands og í Eistlandi er eitt besta umhverfi fyrir sprotafyrirtæki í heiminum. Unga fólkið okkar er mjög framtakssamt og margt ungt fólk starfar við nýsköpun á sviði umhverfisverndar. Græn sprotafyrirtæki njóta stuðnings frá bæði ríkinu og einkageiranum. Ég verð líka að nefna verkefnið um rafrænt Eistland og hversu vel uppbygging stafrænna kerfa hefur gengið. Þetta er eitthvað sem önnur lönd gætu einnig útfært og þannig minnkað vistspor sitt,“ segir Hanah Lahe, loftslagsfulltrúi eistneskra ungmenna.

Eystrasalts- og Norðurlönd eiga sér langa samstarfssögu

Það er engin tilviljun að ungmenni frá Eystrasalts- og Norðurlöndum koma saman í Norræna skálanum. Norðurlönd og Eystrasaltslöndin eiga sér langa sögu samstarfs um ýmis málefna undir handleiðslu Norrænu ráðherranefndarinnar. Þar má nefna samstarf á sviði stafvæðingar og sameiginlegra loftslagsverkefna Norðurlanda og Eystrasaltsríkja.