Yfirmaður Ríkisendurskoðunar Danmerkur hitti norrænu samstarfsráðherrana

10.09.20 | Fréttir
De nordiska samarbetsministrarna sammanträdde per videolänk
Photographer
Morten Skovgaard Hansen
Ríkisendurskoðandinn Lone Strøm sat fund norrænu samstarfsráðherranna þann 10. september eftir að hafa þegið boð þar um frá Mogens Jensen, samstarfsráðherra Danmerkur. Tilefnið var endurskoðun á ársreikningum Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir árið 2019, sem nú fer fram. Ríkisendurskoðun hefur tilkynnt að svo margir bókhaldslegir vankantar hafi fundist, fyrst og fremst varðandi uppsafnaða verkefnaskuld, að hún sjái sér ekki fært að staðfesta að ársreikningur Norrænu ráðherranefndarinnar sé réttur. Ársreikningar Norðurlandaráðs og Norræna menningarsjóðsins fyrir árið 2019 verða á hinn bóginn samþykktir.

„Það er að sjálfsögðu afar mikilvægt að fjármunir ríkisstjórna Norðurlanda séu nýttir eins vel og hægt er,“ segir Mogens Jensen, samstarfsráðherra Danmerkur, sem var fundarstjóri.

„Á fundinum settu samstarfsráðherrarnir skrifstofu ráðherranefndarinnar skilyrði um skilafresti og við væntum þess að framkvæmdastjórinn sjái til að staðið verði við þá. Við ákváðum einnig að skipa tímabundið utanaðkomandi yfirmann fjármála sem mun leiða vinnuna við að taka saman rétta ársreikninga fyrir árið 2020, ásamt því að skrifstofan skyldi bæta við mannafla á fjármálasviði enda er það afar brýnt,“ segir hann.

Eftir samtalið við Ríkisendurskoðun mun skrifstofa Norrænu ráðherranefndarinnar nú leggja áherslu á að koma upp fullri virkni í nýja kerfinu, tryggja gæði í fjármálaferlum sínum og fara yfir uppsafnaða verkefnaskuld Norrænu ráðherranefndarinnar. Markmiðið er að kynna fullgerða og rétta ársreikninga fyrir árið 2020 í síðasta lagi um miðjan febrúar.

„Við lítum þetta að sjálfsögðu mjög alvarlegum augum,“ segir Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar. „Á sama tíma er mikilvægt fyrir mig að benda á að Ríkisendurskoðun hefur í samræðum við mig lagt áherslu á að enginn grunur leiki á misferli eða misnotkun á fjármunum.

Ríkisendurskoðun minntist einnig á ársreikninga Norrænu ráðherranefndarinnar í tengslum við endurskoðun á niðurstöðum ársins 2018. Til að tryggja að ekkert misferli hafi átt sér stað áður en nýja kerfið var tekið í notkun voru 13.000 færslur kannaðar við innri endurskoðun. Færslurnar tilheyrðu tímabilinu frá janúar 2018 til apríl 2019 og sýndu að allt var samkvæmt reglum og að niðurstaðan um að enginn grunur léki á misnotkun væri rétt.

Contact information