Kristín Ómarsdóttir

Kristin Omarsdottir
Photographer
Sveinbjorg Bjarnadottir
Kristín Ómarsdóttir: Kóngulær í sýningargluggum. Ljóðasafn, Forlagið, 2017. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2019.

Rökstuðningur:

Í ljóðum Kristínar Ómarsdóttur lítur sakleysið út eins og skyrsletta á vegg, bréfið undir koddanum spyr: ertu þarna? Spegillinn handsamar mynd ljóðmælandans þegar hann greiðir morgunbleikt hárið, landdreymnar hafmeyjar stinga höfði upp úr sjónum, glerbrjóst eru auglýst og torgið snarað með sjóndeildarhringnum. Kristín Ómarsdóttir hefur alltaf reynt hressilega á þanþol tungumálsins. Frumlegar ljóðmyndir hennar eru óvæntar og stundum súrrealískar.

 

Kristín hefur jöfnum höndum fengist við ljóða- og skáldsagnagerð, smásögur og leikritun. Hún hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir verk sín. Skáldsagan Elskan mín ég dey var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 1999 og leikrit hennar, Ástarsaga 3, var tilnefnt til Norrænu leikskáldaverðlaunanna i 1998. Árið 2005 fékk hún Grímuverðlaunin sem leikskáld ársins fyrir leikritið Segðu mér allt. Fyrir ljóðabókina Sjáðu fegurð þína hlaut hún Fjöruverðlaunin í flokki fagurbókmennta árið 2008. Kristín hefur einnig unnið að myndlist, sýnt teikningar og tekið þátt í sýningum þar sem hún hefur unnið með ólík form, myndbönd og skúlptúra. Bækur eftir Kristínu hafa verið þýddar á sænsku, frönsku og finnsku og ljóð hennar hafa birst í erlendum safnritum.

 

Þegar bókin Kóngulær í sýningargluggum kom út sagði þekktur íslenskur gagnrýnandi: „Kristín gerir allt í senn að heilla, skelfa, græta og gleðja.“ Hún ræður vel við skáldsögur og leikrit en nýtur sín þó sennilega best í ljóðforminu eins og bókin Kóngulær í sýningargluggum ber skýran vott um.