Fyrrum handhafi umhverfisverðlaunanna: Nýskapandi hugmyndir blómstra í starfinu að sjálfbærara matvælakerfi

12.04.21 | Fréttir
Tidligere vinder af miljøprisen Selina Juul står mellem kasser med grøntsager

Selina Juul. Credit: Ritzau Scanpix

Photographer
Ritzau Scanpix
Það er engin tilviljun að þema umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2021 er sjálfbær matvælakerfi. Samkvæmt milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, IPCC, eru matvælakerfi alls heimsins – frá jörð og sjó á matborðið og aftur til baka – völd að u.þ.b. fjórðungi losunar gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu.

Norræna matvælakerfið stendur frammi fyrir grænum umskiptum og nú þarf að finna þá einstaklinga og samtök sem verða í fararbroddi í því starfi.

Árið 2013 hlaut Selina Juul umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs fyrir starf sitt að því að draga úr matarsóun í Danmörku. Hún telur að verðlaunin hafi meira gildi í dag en nokkru sinni fyrr og að norrænu löndin gegni sérstöku hlutverki í starfinu að sjálfbærari lausnum innan matvælakerfisins.

Ekki hægt að hunsa umhverfisáhrif matvælakerfisins

Selina Juul stofnaði neytendahreyfinguna „Stop Spild Af Mad“ („Hættum matarsóun“) árið 2008 og hefur starfað innan málaflokksins síðan. Í dag er hún meðal annars meðlimur í þekkingarvettvangi Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um matarsóun. Hún telur að starfið að sjálfbæru matvælakerfi sé komið til að vera, og að það muni verða enn snarari þáttur í áherslu stofnana og fyrirtækja þegar fram í sækir.

„Ég held að starfið að sjálfbærum matvælakerfum muni þykja sjálfsagt mál þegar fram í sækir. Til dæmis lítum við á það sem æ sjálfsagðari hlut að borða minna kjöt og hugsa út í matarsóun. Nokkur okkar hafa hrópað hástöfum árum saman, en nú er einkum unga kynslóðin farin að láta í sér heyra. Leggi fyrirtæki ekki áherslu á græna orku, umbúðir, endurnotkun og matarsóun veitir fólk því athygli og er líklegra til að gagnrýna það en áður fyrr. Ég spái því að neytendur framtíðarinnar velji sjálfbæru lausnina og geri kröfur til stofnana, stjórnmálafólks og fyrirtækja, einnig hvað matvæli snertir,“ útskýrir hún.

Möguleikarnir eru gríðarmiklir í starfinu að sjálfbæru matvælakerfi, svo ég hlakka til að sjá hverjir hljóta tilnefningu til verðlaunanna í ár.

Selina Juul, fyrrum handhafi umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs

Brjótum upp vanann

Allir geta sent inn tilnefningar til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs og Selina Juul ber miklar væntingar til þeirra sem tilnefnd verða.

„Hvað matvælakerfið snertir sé ég að „business as usual“ á ekki lengur við. Stofnanir og fyrirtæki vinna nú út frá „business as unusual“, og margar nýskapandi hugmyndir blómstra innan geirans. Ég held að við munum sjá mikla aukningu í endurnýtingu og uppvinnslu. Til dæmis í notkun á kaffikorgi til áburðar,“ segir hún.

„Einnig er mikil gróska um þessar mundir á sviði matvælatækni. Dæmi um það er nýting umframvarma til kælingar, eða tækni sem auðveldar samskipti milli mismunandi framleiðslustiga. Síðast en ekki síst sé ég líka vísbendingar um að við verðum sífellt betri í að nýta t.d. bognar agúrkur og önnur „ljót“ matvæli, sem áður fyrr var einfaldlega hent. Gulrót bragðast líka vel þótt hún sé ekki sú fallegasta. Möguleikarnir eru gríðarmiklir í starfinu að sjálfbæru matvælakerfi, svo ég hlakka til að sjá hverjir hljóta tilnefningu til verðlaunanna í ár.

Margir fylgjast með Norðurlöndum

Selina Juul hefur ferðast um allan heim sem sérfræðingur á sviði matarsóunar og verður vör við mikinn áhuga á norrænu sjálfbærnistarfi.

„Í samtölum við sérfræðinga og vísindamenn um allan heim hef ég séð að þeir líta virkilega upp til norrænu landanna. Þeir líta til norrænna lausna,“ segir hún og heldur áfram:

„Við leggjum mikla áherslu á grænan lífsstíl hér á Norðurlöndum. Auðvitað má alltaf gera betur, en við höfum nú þegar fundið margar góðar lausnir í loftslagsmálum. Dæmi um slíkt eru úrgangsflokkunarkerfið í Svíþjóð og sú áhersla sem lögð er á græna orkunotkun í Noregi og lífræna ræktun í Danmörku. Þetta er nokkuð sem hið norræna samfélag á sameiginlegt, og það er alveg einstakt á heimsvísu.“

Selina Juul ráðleggur væntanlegum handhafa umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs að slá ekki slöku við í sigurvímunni, heldur líta á verðlaunin sem stökkpall til enn meiri áhrifa.

„Þegar verðlaunin eru í höfn og búið að fagna sigri, þá þarf að fara í vinnugallann. Allur heimurinn fylgist með því sem við höfumst að hér á Norðurlöndum og verðlaunahafinn, svo og aðrir tilnefndir, eru á vissan hátt merkisberar fyrir hreyfinguna í heild.“

Sendu inn tilnefningu til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2021

Sendu inn tilnefningu til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs. Frestur til að senda inn tilnefningar er fram á miðvikudaginn 12. maí. Hin tilnefndu geta verið norræn fyrirtæki, samtök eða einstaklingar sem starfa á Norðurlöndum og/eða í tengslum við aðila utan Norðurlanda. Framlag hins tilnefnda verður að hafa norrænt sjónarhorn. Auk heiðursins fá verðlaunahafarnir 300 þúsund danskar krónur hver.