Má elska hvern sem er á öldrunarheimilinu?

06.09.21 | Fréttir
Samkönat par
Ljósmyndari
Johnér
Getur LGBTI-fólk elst með reisn á Norðurlöndum eða er það neytt inn í skápinn aftur á öldrunarheimilum og í heilbrigðiskerfinu? Ráðherranefndin um jafnréttismál og LGBTI samþykkti í dag þriggja ára norrænt rannsóknarverkefni um lífskjör LGBTI-fólks á efri árum og um þörfina á aukinni þekkingu á heilbrigðis- og umönnunarsviði.

Megintilgangurinn með verkefninu er að afla nýrrar vitneskju um lífsgæði og lífsskilyrði eldri LGBTI-borgara og umfram allt þær viðtökur sem þeir fá hjá umönnunarþjónustu aldraðra og í heilbrigðiskerfinu. 

Rannsóknirnar eiga einnig að varpa ljósi á hvort menntun á heilbrigðis- og umönnunarsviði stuðli að nægilegri hæfni í málefnum sem varða kynvitund og kynhneigð og hvaða tækifæri heilbrigðisstarfsfólk hefur til að afla sér framhaldsmenntunar. 

   

Verkefnið hefst í haust

Loks á verkefnið að leiða til tillagna að bættum viðtökum eldri LGBTI-borgara innan heilbrigðis- og umönnunarþjónustu á Norðurlöndum. 

Ráðherrarnir ákváðu á fundi sínum 6. september að ráðstafa einni milljón danskra króna til verkefnisins. Því á að hleypa af stokkunum þegar í haust og skila skýrslu um stöðu þess á árinu 2023. Þess er vænst að félagsmálaráðherrarnir leggi verkefninu til hálfa milljón króna að auki.  

Barist fyrir afglæpavæðingu

„Undanfarna áratugi hefur LGBTI-fólk á Norðurlöndum meira og minna getað lifað opnu lífi en hvað gerist þegar það kemst á eftirlaunaaldur, flytur aftur í sína  heimabyggð, þarf á heimaþjónustu að halda eða flyst á dvalar- eða hjúkrunarheimili fyrir aldraða?

Við höfum heyrt af LGBTI-fólki sem verður ósýnilegt þegar það sækir sér þjónustu hjá opinberu heilbrigðis- og umönnunarkerfi. Um er að ræða eldri LGBTI-borgara som muna tíma saknæmis og leyndar. Margir þeirra hafa verið forvígismenn í baráttunni gegn útilokun og misrétti, meðal annars í refsilögum og hjúskaparlögum.

Það á ekki að neyða samkynhneigðar konur og karla á efri árum inn í skápinn þegar þau þurfa að nýta sér opinbera hjúkrunar- og umönnunarþjónustu,“ segir Abid Raja, menningar- og jafnréttismálaráðherra Noregs.   

Norrænt frumkvöðlastarf

Frá árinu 2020 hafa málefni LGBTI-fólks verið pólitískt samstarfssvið á Norðurlöndum en þá samþykkti Norræna ráðherranefndin um jafnréttismál fyrstu svæðisbundnu LGBTI-stefnu í heimi.

 

Fram að þessu hefur samstarfið meðal annars leitt til að LGBTI á Norðurlöndum hefur verið kortlagt og greint og ráðist í fræðilega úttekt á lífskjörum ungs LGBTI-fólks.  Núna í haust verða í fyrsta sinn auglýstir styrkir úr Norræna LGBTI-sjóðnum. Tilgangurinn með sjóðnum er að styrkja norrænt framtak til að bæta lífsskilyrði LGBTI-fólks. 6

Bakslag í réttindum

„Í mörgum löndum og svæðum eru réttindi LGBTI-fólks í hættu. Rannsóknir sýna að stór hluti LGBTI-fólks, einnig á Norðurlöndum, hafi orðið fyrir ofbeldi, hatri, hótunum og áreitni, svo að nokkuð sé nefnt. COVID-19-farsóttin hefur meira að segja orðið til að almenn líðan LGBTI-fólks hefur versnað.

Norrænt samstarf til að auka réttindi LGBTI-fólks er mikilvægara nú en nokkru sinni fyrr.

Ákvörðunin um að bæta líðan eldri LGBTI-borgara er mikilvægt framhald á því starfi sem unnið var á árunum 2020–2021 í þágu vellíðunar og öryggis ungs LGBTI-fólks á Norðurlöndum,“ segir Thomas Blomqvist, jafnréttismálaráðherra Finnlands og formaður þessa árs í Norrænu ráðherranefndinni um jafnréttismál og LGBTI.  

Ný skýrsla um kennslufræði á forskólastigi

Ráðherrarnir fjölluðu einnig um þátt kennslufræðinnar fyrir ung börn að því er varðar aukið jafnrétti á forskólastigi og í framhaldi af því jafnrétti í menntastofnunum og atvinnulífinu.

Samkvæmt nýrri skýrslu er kerfisbundið starf sem horfir fram á við mikilvægt og ráðherrarnir ræddu möguleika á að mynda norrænan þekkingarvettvang fyrir kennara, sérfræðinga, ráðamenn og fræðimenn.   

Skýrsluna er að finna hér: