Norðurlönd beita sér fyrir umbreytingu á matvælakerfum okkar

26.01.21 | Fréttir
Cookbook Fællesgro
Photographer
Martin Lehmann

FællesGro, landbúnaðarverkefni með samfélagslegum stuðningi.

Við getum og verðum að nálgast matvælakerfin eins og verðugt markmið ef við viljum leysa þær miklu samfélagslegu áskoranir sem við stöndum frammi fyrir. Þetta er grundvallaryfirlýsing nýs rits sem nefnist „Cookbook for systems change – Nordic innovation strategies for sustainable food systems“ („Uppskriftabók fyrir kerfisbreytingar – norrænar nýsköpunarlausnir fyrir sjálfbær matvælakerfi“) og var kynnt af Nordic Food Policy Lab hjá Norrænu ráðherranefndinni, Stockholm Resilience Centre og EAT.

Hin nýja uppskriftabók fyrir kerfisbreytingar fjallar um það hlutverk sem öflugt, opinbert nýsköpunarkerfi getur þjónað í því að efla sjálfbærni matvælakerfa. Í bókinni er farið yfir aðferð til að umbreyta matvælakerfum með markvissum hætti, sem felst í að nálgast umbreytinguna eins og mikilvægt verkefni með því markmiði að matvælakerfin styðji við fólk, jörðina og samfélagið.

Markmiðadrifin hugsun gleymist oft

Markmiðadrifið verkefnastarf af þessu tagi hefur notið sívaxandi athygli stefnumótunaraðila, bæði landsbundið og á vettvangi ESB, en skilgreiningar eru þó enn á reiki og afar fá dæmi fyrir hendi um innleiðingu markmiðadrifinnar (e. mission-based) nálgunar. Þó að ætlunin hafi verið mótuð gengur hægt að hefja aðgerðir, enda hefur ekki verið til neinn leiðarvísir (eða uppskriftabók) til að vinna út frá. Það þýðir að markmiðadrifin hugsun gleymist oft í nýjum stefnumótunartillögum.

Við leggjum nú metnaðarfull drög að áframhaldandi starfi norrænu ríkisstjórnanna í þágu sjálfbærra matvælakerfa og getum sótt mikinn innblástur í þetta samstarf norrænna nýsköpunarstofnana.

Sebastian Hielm, finnska landbúnaðar- og skógræktarráðuneytinu

Öflug opinber nýsköpun lykillinn að markmiðum Parísarsáttmálans

Í uppskriftabókinni, sem sækir innblástur í norrænt nýsköpunarbandalag, er ýjað að því að mikilvægasta framlag Norðurlanda á hnattræna vísu til að ná markmiðum Parísarsáttmálans og heimsmarkmiðum SÞ um sjálfbæra þróun felist ekki endilega í tiltekinni tækni, viðskiptalíkani eða nýstárlegri stefnumörkun. Öllu heldur geti slíkt framlag falist í því að sýna fram á hvernig öflugt, opinbert vistkerfi nýsköpunar sé týndi hlekkurinn til að sigrast á hinum flóknu samfélagslegu áskorunum okkar tíma.

Finnland tekur nú við formennsku í norrænu samstarfi og af því tilefni báðum við Sebastian Hjelm, yfirmann matvælaöryggis hjá finnska landbúnaðar- og skógræktarráðuneytinu og formann finnska næringarráðsins, um að deila hugleiðingum sínum um þetta starf og sóknarfærin sem í því liggja:

 

„Við leggjum nú metnaðarfull drög að áframhaldandi starfi norrænu ríkisstjórnanna í þágu sjálfbærra matvælakerfa og getum sótt mikinn innblástur í þetta samstarf norrænna nýsköpunarstofnana. Pólitísk þátttaka er til staðar og nú er spurningin hvernig við förum að við uppbyggingu á samstarfi okkar og ferlum til að áhrifin verði sem mest. Þar gæti uppskriftabókin komið til sögunnar og veitt þýðingarmikinn norrænan innblástur á þessu sviði, auk starfsins sem fram fer innan Nordic Food Policy Lab og hinnar norrænu greiningardeildar The Resilience Center í Stokkhólmi.“   

Uppskriftir að breytingum

Uppskriftabókin inniheldur aðgengilegt efni fyrir ósérfróða – sniðmát til að þróa aðgerðir, leiðbeiningar um fyrstu skrefin og dæmi um þverlæg verkefni – sem nýst geta til að setja saman uppskriftir að breytingum. Uppskriftabókina má lesa samhliða væntanlegum leiðarvísi sænsku nýsköpunarstofnunarinnar Vinnova um markmiðadrifið starf, sem inniheldur nánari lýsingar á aðferðafræði fyrir fagfólk. 

Helsti markhópur uppskriftabókarinnar fyrir kerfisbreytingar eru lands- og svæðisbundnar nýsköpunarstofnanir, þar sem stjórnvöld hafa bæði umboð og meira áhrifavald en aðrir aðilar til að leiða þær breytingar sem nauðsynlegar eru til að knýja fram sjálfbærni í matvælakerfum. Þar sem fjöldi mismunandi aðila kemur að vistkerfum nýsköpunar veitir hin stefnumótandi uppskriftabók þó einnig dýrmæta innsýn inn í það hlutverk sem frumkvöðlar, borgaralegt samfélag og rannsóknastofnanir geta leikið í því að knýja fram breytingar úr grasrótinni.

Við fögnum því ákaft að Uppskriftabókin fyrir kerfisbreytingar komi nú út. Á Norðurlöndum verður hún lögð til grundvallar í samnorrænu átaki ýmissa stofnana sem munu kanna mögulegar birtingarmyndir markmiðadrifinnar nálgunar á matvælakerfi.

Pernille Martiny Modvig, Climate-KIC

Mikllir möguleikar á að veita innblástur á evrópskum og hnattrænum vettvangi

Ritið „The Cookbook for systems change“ er afurð samstarfs milli Nordic Food Policy Lab hjá Norrænu ráðherranefndinni, Stockholm Resilience Centre og EAT, og er liður í sameiginlegu verkefni þeirra ásamt eftirfarandi stofnunum sem gengur út á að koma á fót fyrsta samnorræna markmiðadrifna verkefninu: Design og arkitektur, Noregi, Danska hönnunarmiðstöðin, EIT Climate-KIC, EIT Food, Formas, Innovasjon Norge, Norræna nýsköpunarmiðstöðin, Matís, Research Council Norway, Sitra og Vinnova. Uppskriftabókin er fjármögnuð af EIT Climate-KIC sem liður í verkefninu Deep Demonstrations on Resilient Food Systems and Diets. 

„Við fögnum því ákaft að Uppskriftabókin fyrir kerfisbreytingar komi nú út. Á Norðurlöndum verður hún lögð til grundvallar í samnorrænu átaki ýmissa stofnana sem munu kanna mögulegar birtingarmyndir markmiðadrifinnar nálgunar á matvælakerfi. En við sjáum líka þá möguleika sem búa í ritinu til að veita innblástur á evrópskum og hnattrænum vettvangi, ekki síst í gegnum verkefnið okkar „Deep Demonstration of Resilient Food Systems“, sem á að skapa aðstæður til prófunar fyrir kerfislæga nýsköpun og þekkingaröflun til að flýta fyrir breytingum, sem og að koma með innlegg til stefnumótunar,“ segir Pernille Martiny Modvig, framkævmdastjóri nýsköpunarsviðs fyrir Deep Demonstration of Resilient Food Systems hjá Climate-KIC Nordic.

Horfið á kynningarviðburðinn á vefnum

Viljir þú læra meira um þessa nálgun og um samstarf norænna rannsóknar- og nýsköpunarstofnana að innleiðingu hennar getur þú horft á streymi frá bókarkynningunni þann 26. janúar.