„Sjálfbær þróun á norðurslóðum mikilvægari en nokkru sinni fyrr“

27.10.20 | Fréttir
röd båt passerar isberg i Arktis
Photographer
Nikolaj Bock/norden.org
Þegar ísinn bráðnar á norðurskautssvæðinu eykst bæði umferð um svæðið og samkeppni um náttúruauðlindir þess. Nú eiga Norðurlönd að hefja upp raust sína á vettvangi Evrópusambandsins og standa vörð um loftslag og náttúru norðurslóða, að mati sjálfbærninefndarinnar.

„Því meiri athafnasemi á norðurskautssvæðinu, þeim mun mikilvægara er að fara að með gát í þessu viðkvæma umhverfi og reyna að stemma stigu við loftslagsbreytingum,“ segir Magnus Ek, sænskur þingmaður og fulltrúi í norrænu sjálfbærninefndinni. 

 


Land- og hafsvæði Norðurlanda eru að stórum hluta á norðurskautssvæðinu.

 

Sjálfbærninefndin ræddi á þriðjudaginn hvert framlag Norðurlanda ætti að vera til nýrrar stefnumörkunar ESB um málefni norðurslóða. 

Hætt við ofnýtingu auðlinda

Skilyrði á norðurskautssvæðinu taka nú miklum og örum breytingum og því er orðið nauðsynlegt að ESB myndi nýja stefnu um málefni svæðisins og ráðist í nýjar stefnumótandi aðgerðir.

 

Sú hlýnun sem stafar af loftslagsbreytingum er örari á norðurskautssvæðinu en annars staðar og veldur því að jöklar bráðna, sífreri þiðnar og lífsskilyrði íbúanna breytast.

 

Bráðnandi jöklum fylgja einnig nýjar siglingaleiðir og nýir möguleikar á að ofnýta auðlindir á borð við fisk, steintegundir, gas og olíu.

Einnig myndast aukin tækifæri til fiskeldis og nýtingar vindorku. Samkeppni um þessar auðlindir veldur aukinni spennu í pólitísku landslagi á svæðinu.

Aukin togstreita

„Nú þegar er farið að nýta olíu og gas á norðurslóðum og við sjáum aukna togstreitu varðandi öryggisstefnu á svæðinu. Mikilvægt er að stunda pólitík sem lágmarkar togstreitu og stendur vörð um þetta viðkvæma umhverfi,“ segir Magnus Ek.

 

Að gæta jafnvægis milli efnalegahagslegra hagsmuna á norðurslóðum annars vegar og virkrar loftslagsstefnu og umhverfislega forsvaranlegrar stjórnunar hins vegar – það er mikilvægasti boðskapur Norðurlanda til ESB vegna nýrrar stefnumörkunar.

 

Það verður meðal annars gert með því að setja metnaðarfulll markmið fyrir loftslagið og líffræðilega fjölbreytni og ráðgera markvissar aðgerðir sem tryggja að markmiðunum verði náð.

Réttur heimamanna

Um leið verða heimamenn og frumbyggjar á norðurskautssvæðum að eiga möguleika á að þróa samfélög sín með sjálfbærum hætti, að mati sjálfbærninefndarinnar.

Það á eftir að koma í ljós hvort Norðurlandaráð styðji sjálfbærninefndina í þessu máli. Nú stendur yfir vinna að sameiginlegu erindi frá Norðurlandaráði til að senda ESB áður en fresturinn rennur út þann 10. nóvember,

Norrænu löndin hafa átt um það samstarf árum saman að bæta lífskjör íbúa á norðurskautssvæðum og styðja við félagslega og menningarlega þróun almennings á norðurslóðum.

 

Því er einnig mikilvægt að Norðurlönd tryggi stuðning ESB við þetta starf.