Vekið mig þegar lestin er á leiðarenda

29.01.20 | Fréttir
Nattog
Ljósmyndari
Scanpix
Hugsið ykkur að geta sofið á ferð milli höfuðborga norrænu landanna. Sú ósk verður nú æ sterkari um öll Norðurlönd. Með hliðsjón af loftslagsvanda líðandi stundar er löngu tímabært að gera loftslagsvænar lestarferðir milli norrænu landanna aðlaðandi kost á nýjan leik. Þetta segir Freddy André Øvstegård. Hann leggur til, ásamt flokkahópi Norrænna vinstri grænna, að Norðurlandaráð beiti sér fyrir því að endurvekja næturlestarsamgöngur.

Tillaga Norrænna vinstri grænna um aukinn norrænan þrýsting á að næturlestir gangi á ný milli höfuðborga norrænu landanna hlaut góðar undirtektir á janúarfundi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn.

„Við viljum að lestir þyki sjálfsagður og eðlilegur kostur er ferðast skal milli Óslóar, Gautaborgar og Kaupmannahafnar, milli Stokkhólms og Kaupmannahafnar og milli Óslóar og Stokkhólms. Með smávægilegum breytingum á lestum, vögnum og merkjakerfi, auk samhæfingar á tímaáætlunum og í miðasölu, mætti stytta ferðatíma verulega. Þannig mætti einnig gera lestarferðir einfaldari en þær eru í dag,“ segir Freddy André Øvstegård, fulltrúi Norrænna vinstri grænna í norrænu hagvaxtar- og þróunarnefndinni.

Við viljum að lestir þyki sjálfsagður og eðlilegur kostur er ferðast skal milli Óslóar, Gautaborgar og Kaupmannahafnar, milli Stokkhólms og Kaupmannahafnar og milli Óslóar og Stokkhólms.

Freddy André Øvstegård, Norrænum vinstri grænum

Vaxandi áhugi á lestarsamgöngum

Síðan á 10. áratugnum hefur hlutur lestarferða vaxið töluvert víðsvegar á Norðurlöndum, sé miðað við ekna kílómetra á hvern íbúa. Norræn vinstri græn telja afar mikilvægt að nýta þann skriðþunga sem fylgt hefur vaxandi áhuga á lestarsamgöngum.

„Við þurfum sameiginlega norræna stefnu til að auka hlut lestarferða. Einkum ættu Noregur, Svíþjóð og Danmörk auðvelt með að vinna saman að því að endurreisa og bæta næturlestarsamgöngur milli skandinavísku höfuðborganna og þar með áfram út í Evrópu,“ segir Øvstegård.

Í umræðu norrænu hagvaxtar- og þróunarnefndarinnar komu fram áhyggjur af því að fjölgun lestarferða til fólksflutninga gæti skapað vandamál fyrir vöruflutninga með lestum, sem eiga sér fyrst og fremst stað að næturlagi. Nefndin telur því mikilvægt að kanna mögulega árekstra og leita skynsamlegra lausna.

Betra miðasölukerfi

Norðurlandaráð æskunnar er einnig spennt fyrir hugmyndinni og styður tillöguna. Á þingi sínu í Stokkhólmi í október 2019 samþykkti það að beita sér fyrir bættum lestarsamgöngum, bæði í hverju landi fyrir sig og yfir landamæri. Norðurlandaráð æskunnar vill sjá skjótan árangur og fyrirséð er að taka muni tíma að koma loftslagsvænum samgöngulausnum á koppinn. Ráðið telur því nauðsynlegt að bæta þá kosti sem fyrir eru og gera þá aðgengilegri. Til að það gangi upp þarf einfalt miðasölukerfi sem nær yfir landamæri. Því mætti koma í kring á tiltölulega skömmum tíma, að vissum skilyrðum uppfylltum.

„Það er alltof flókið eins og er að kaupa miða þvert á landamærin. Söluaðilar hugsa hver um sinn hag. Enginn axlar ábyrgð á heildinni. Þess vegna er mikilvægt að söluaðilar opni hugbúnaðarforritunarviðmót (API) sitt svo að þriðju aðilar geti nálgast þýðingarmiklar upplýsingar. Það myndi gera þeim fært að þróa nýjar, samþættar þjónustuleiðir. Það þarf að verða jafn auðvelt að panta lestarmiða þvert yfir Evrópu og að panta flugmiða,“ segir skrifstofustjóri samtaka ungra íhaldsmanna í Danmörku (Konservativ Ungdom), Amalie Hervad-Jørgensen.  

Það er alltof flókið eins og er að kaupa miða þvert á landamærin. Söluaðilar hugsa hver um sinn hag. Enginn axlar ábyrgð á heildinni.

Amalie Hervad-Jørgensen, skrifstofustjóri samtaka ungra íhaldsmanna í Danmörku (Konservativ Ungdom)

Norræna hagvaxtar- og þróunarnefndin hyggst vinna áfram með tillöguna á þemaþingi Norðurlandaráðs í Helsinki í lok mars.